Ljósverkið Andi og efnisbönd vinnur fyrstu verðlaun á Vetrarhátíð 2021

21. desember 2020

Reykjavíkurborg og Orka Náttúrunnar í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stóðu fyrir samkeppni um þrjú ljósverk sem til stendur að sýna á Vetrarhátíð 2021. Niðurstaðan liggur fyrir en verkin Andi og efnisbönd, The Living forest og Interference urðu hlutskörpust.

Tuttugu áhugaverðar og spennandi hugmyndir bárust í keppnina sem var opin hönnuðum, arkitektum, myndlistarfólki, tónlistarfólki, ljósafólki, tölvunarfræðingum og öðrum sem vinna með rafmagn og list í einhverju formi. Hvatt var til samstarfs milli ólíkra greina. Markmið samkeppninnar er að virkja hugvit og efla Reykjavík sem skapandi borg sem einkennist af lifandi og spennandi umhverfi.

Fyrstu verðlaun - 1.000.000 kr. 

Andi og efnisbönd

 • Kateřina Blahutová
 • Þorsteinn Eyfjörð

Í umsögn dómnefndar um verðlaunatillöguna stendur:
Tillagan Andi og efnisbönd er áhugaverð og frumleg  og spennandi að sjá verkið glæða byggingu Listasafns Einars Jónssonar lífi og draga fram einkenni hennar þar sem hún fellur gjarnan í skuggann af Hallgrímskirkju sem trónir efst á Skólavörðuhæð. Unnið er með rýmismyndun á skemmtilegan hátt, verkið er til þess fallið að örva ímyndunaraflið og beina athyglinni að safninu og  jafnvel verkum Einars Jónssonar.

Önnur verðlaun  - 500.000 kr.
The living forest

 • Kateřina Blahutová 
 • Enchanted Lands
 • Julia Parchimowicz
 • Matěj Suchánek
 • Václav Blahut
 • Marek Šilpoch

Í umsögn dómnefndar um 2. verðlaun segir:
Tillagan The living forest er heilsteypt, litrík og skemmtileg, þar sem leikið er með  samspil ljóss, lofts, lita og hreyfanleika verka sem vísa í tré, skóg og kolefnisjöfnun. Hugmyndin er fjölskylduvæn og verkið á vafalaust eftir að laða að sér alla aldurshópa, ekki síst yngstu kynslóðina. 

Þriðju verðlaun - 300.000. Kr.

Interference

 • Litten Nyström
 • Haraldur Karlsson

Í umsögn dómnefndar um 3. verðlaun segir:
Tillagan Interference hefur sterka sjónræna kosti þar sem leikið er með einkenni Hallgrímskirkju og þau dregin fram með afgerandi hætti og síbreytilegu sjónarspili. Hún gæti því orðið mjög sjónræn og áhugaverð.

Dómnefnd tók ákvörðun um að veita sérstaka viðurkenningu fyrir áhugaverða tillögu sem er tillagan Ljósöld eftir Guðlaug Magga Einarsson. Með honum í teymi voru Alfreð Sturla Böðvarsson, Sigrún Hreinsdóttir, Vilhelm Anton Jónsson, Bjarki Guðjónsson og Nicholas Cathcart-Jones.

Í áliti dómnefndar segir:
Dómnefnd var hrifin af þeirri hugmynd að varpa ljósverki á gömlu stífluna í Elliðaánum og vekja með þeim hætti athygli á sögu stíflunnar og þeim tímamótum sem nú eiga sér stað. Tillagan var hins vegar um margt óútfærð og áætlaður kostnaður of hár.

Ljósainnsetningin Örævi eftir Valdimar Jóhannsson, Ernu Ómarsdóttur, Pierre Alain Giraud ásamt Íslenska dansflokknum se msýnt var fyrir nokkru síðan á Vetrarhátíð.

Í dómnefnd sátu Arna Schram, sviðsstjóri menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar, Svanborg Hilmarsdóttir, tæknistjóri götuljósa ON, Rebekka Guðmundsdóttir, borgarhönnuður og verkefnastjóri hjá skipulags- og framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar, Marcos Zotes, arkitekt Basalt arkitektar, AÍ og Búi Bjarmar Aðalsteinsson, hönnuður.

Keppnisritari og trúnaðarmaður var Gerður Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Miðstöð hönnunar og arkitektúrs. 

Miðstöð hönnunar og arkitektúrs þakkar öllum þeim sem sendu inn tillögur og óskar vinningshöfum innilega til hamingju og hlakkar til Vetrarhátíðar 2021 dagana 4.-7. febrúar. 

Dagsetning
21. desember 2020
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

 • Greinar
 • Fagfélög