ADC*E
FÍT er aðildarfélagi að Art Directors Club of Europe eða ADC*E sem eru samtök félaga evrópskra hönnuða og auglýsingagerðarfólks. Verk sem vinna til verðlauna í hinni árlegu FÍT keppni öðlast þátttökurétt í alþjóðlegri samkeppni ADC*E þar sem það besta í grafískri hönnun og auglýsingagerð í Evrópu er verðlaunað ár hvert. Keppnin er dæmd af um 50 fagaðilum alls staðar að úr Evrópu, en FÍT sendir árlega dómnefnd úr röðum félagsins. Formaður FÍT á sæti í stjórn ADC*E.
Heimasíða ADC*E: www.adceurope.org
Gullverðlaun
árið 2013 hlaut Sigga Rún, grafískur hönnuður frá LHÍ, gullverðlaun í nemendaflokki (European Student of the Year) fyrir lokaverkefni sitt úr Listaháskóla Íslands „Líffærafræði leturs | fornir íslenskir bókstafir“. Verkefnið var bók um sjö forna bókstafi sem innihélt teikningar og líffræðilegar útskýringar um stafina.
Gullverðlaun
árið 2012 hlaut Siggi Eggerts, grafískur hönnuður frá LHÍ, gullverðlaun fyrir myndskreytingar sínar sem hann vann í samstarfi við auglýsingastofuna Jónsson & Le'Macks fyrir auglýsingar Landsbankans. Myndskreytingar Sigga hlutu gullverðlaun í flokknum „Myndskreytingar og ljósmyndun“.
Gullverðlaun
árið 2008 hlaut Margrét Lindquist, grafískur hönnuður frá Myndlistarskólanum á Akureyri, gullverðlaun sem „nemandi ársins í Evrópu árið 2008". „Ég vildi gera flösku fyrir íslenskt vatn, og vinna með tærleikann og því ferska eða þessum grundvallaratriðum sem vatn stendur fyrir," segir Margrét og bætir við að hún hafi viljað gera flösku sem væri líka skraut, t.d á veitingastöðum og þegar borð er dekkað. „Hringirnir á flöskunni eru dropar á vatnsyfirborði. Þaðan kom hugmyndin að hringjunum, hvíti liturinn er táknrænn fyrir hið tæra og kalda í vatni," segir Margrét.