Félag íslenskra landslagsarkitekta (FÍLA) var stofnað í Reykjavík 24. febrúar 1978. Í FÍLA eru yfir 80 félagsmenn, allstaðar á landinu.
Félagsmenn vinna á breiðu sviði við hönnun, skipulag og stjórnun bæði í þéttbýli og dreifbýli. Landslagsarkitektar eru sérfræðingar sem vinna við það að varðveita náttúru og menningarlandslag, að gera manngert umhverfi í þéttbýli og dreifbýli vistlegt, hagkvæmt og fallegt – án þess að ganga að óþörfu á náttúruleg gæði.
Markmið félagsins eru
- að stuðla að þróun landslags- og garðbyggingarlistar.
- að vinna að skynsamlegri landnotkun og þróun byggðar.
- að tryggja varðveislu náttúru- og menningarverðmæta.
- að gæta hagsmuna félagsmanna og að efla góða samvinnu og kynningu þeirra.
Landslagsarkitektúr er 5 ára háskólanám sem lýkur með meistaragráðu í viðurkenndum háskólum og er lögvernduð starfsgrein hér á landi. Viðurkennt nám í landslagsarkitektúr þarf að sækja erlendis og hafa íslenskir landslagsarkitektar sótt menntun m.a. til Noregs, Svíþjóðar, Danmörku, Bretlands Bandaríkjanna, Kanada og Þýskalands. Til að fá réttindi til að nota starfsheitið landslagsarkitekt þarf að sækja um það til Auðlinda- og nýsköpunarráðuneytis, sem leitar umsagnar hjá Félagi íslenskra landslagsarkitekta.
Félagið er jafnframt aðili að alþjóðasamtökum landslagsarkitekta IFLA og Evrópudeild þeirra samtaka, IFLA Europe. En innan þessar samtaka er unnið að framgangi og þróun fagsins landlagsarkitektúrs, ásamt því að veita faglegt aðhald og styðja við þá háskóla sem vilja byggja upp og bjóða upp á viðurkennt nám í landslagsarkitektúr.