Lög
1. grein
Félagið heitir Félag íslenskra teiknara, skammstafað FÍT — og á ensku heitir það The Icelandic Graphic Design Association.
2. grein
Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík og er starfssvæði þess allt Ísland.
3. grein
Tilgangur félagsins er;
a. Að gæta hagsmuna teiknara á sviði grafískrar hönnunar, myndlýsinga og auglýsingagerðar. Ennfremur að leitast við að efla og styrkja atvinnugrein þeirra á hvern þann hátt sem við verður komið.
b. Að semja og leiðbeina um fagleg og lögfræðileg atriði og gæta þess að réttindi teiknara séu virt.
c. Að stuðla að aukinni menntun teiknara með faglegri fræðslu, sýningum o.fl.
d. Að vinna að almennum skilningi og þekkingu fyrirtækja og almennings á starfi teiknara.
e. Að vera fulltrúi gagnvart innlendum félögum og stofnunum ásamt sambærilegum samtökum erlendis og koma
þar fram fyrir Íslands hönd.
4. grein
a. Félagar geta orðið þeir teiknarar sem lokið hafa námi frá viðurkenndum skólum á háskólastigi í grafískri hönnun og myndlýsingum og aðrir þeir er sannað geta kunnáttu sína með mismunandi vinnusýnishornum og hafa aðaltekjur sínar af þessari atvinnugrein.
b. Nemendur í viðurkenndum grafískum skólum geta orðið aukafélagar í FÍT og greiða ekkert félagsgjald. Fyrsta ár eftir útskrift er greitt ½ árgjald.
c. Sitjandi meðlimir í stjórn félagsins greiða ekki árgjald.
d. Sá sem óskar eftir að gerast félagi eða aukafélagi í FÍT, rafræna umsókn í gegnum vef félagsins. Félagsstjórnin metur hæfni umsækjanda og afgreiðir umsóknina.
e. Inntökugjald og árgjald ákveður aðalfundur hverju sinni.
f. Enginn er löglegur félagi fyrr en inntökugjald er greitt. Gefin er greiðslufrestur til 1. mars ár hvert fyrir inntökugjaldi, nema samið
sé um annað við stjórn FÍT. Vangjöld varða brottrekstri úr félaginu.
g. Tillögur að heiðursfélögum FÍT leggur stjórn félagsins fyrir aðalfund. Heiðursfélagar geta þeir orðið sem hafa lagt málefnum
FÍT og teiknara í heild umtalsvert lið með störfum sínum. Heiðursfélagar greiða ekki árgjald í félagið, en hafa að öðru leyti sömu
réttindi og skyldur og hefðbundnir félagsmenn.
h. Félagsmanni, sem að dómi aðalfundar hefur orðið uppvís að því að vinna gegn hagsmunum félagsins, má vísa úr félaginu
og þarf til þess 2/3 greiddra atkvæða.
i. Úrsögn úr félaginu ber að tilkynna stjórn FÍT skriflega með rafrænum hætti.
5. grein
a. Stjórn félagsins skipa 6 manns. Stjórnin er skipuð þrem félagsmönnum auk formanns, einum fulltrúa Fyrirmyndar, samtaka myndhöfunda og einum fulltrúa nemenda. Stjórnarmeðlimir skulu frá greitt 100.000 kr. fyrir hvert ár sem setið er og er greitt eitt ár í seinn, greiðsla fer fram 1. desember ár hvert. Formaður FÍT fær tvöfalda greiðslu.
b. Aðalfundur félagsins kýs árlega tvo stjórnarmenn til tveggja ára í senn. Formaður skal kosinn sérstaklega, til tveggja ára. Fulltrúi Fyrirmyndar á sæti í stjórn félagsins, en hann er kosinn til tveggja ára í senn. Að auki skal fulltrúi nemenda eiga sæti í stjórn félagsins, en hann er kosinn til eins árs í senn. Einnig skal á aðalfundi kjósa tvo varamenn til tveggja ára í senn í stjórn. Stjórnin skal kjósa varaformann, ritara og gjaldkera á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund.
c. Aðalfund skal halda á síðasta ársfjórðungi ár hvert. Skal hann boðaður hverjum félagsmanni skriflega, með rafænum hætti og á samskiptamiðlum félagsins með tveggja vikna fyrirvara. Aðalfundur er löglegur, sé löglega til hans boðað.
d. Á aðalfundi skal leggja fram endurskoðaða reikninga félagsins, skýrslu stjórnar og nefnda, kjósa stjórn og endurskoðanda,
ákveða árgjöld og starfsemi félagsins á næsta ári. Lagabreytingar má aðeins gera á aðalfundi og þurfa þær 2/3 greiddra
atkvæða til samþykkis.
e. Félagsfundi skal halda þegar stjórn þykir henta, eða ⅓ löglegra félagsmanna óskar þess. Félagsfund skal boða skriflega rafrænt með minnst 48 tíma fyrirvara. Fundur er löglegur sé löglega til hans boðað og ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála.
f. Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Þeir eru löglegir er þrír stjórnarmenn sækja þá.
g. Stjórn skal halda gjörðabók.
h. Skapaðir skulu sérstakir vinnuhópar félagsmanna utan um sérverkefni á vegum félagsins sem stjórn hefur yfirumsjón með.
6. grein
Eignir allar á félagið sem heild og getur því enginn, hvorki meðan hann er félagi, né við brottför úr félaginu, gert tilkall til þeirra.
7. grein
Meiriháttar fjárhagslegar skuldbindingar má félagið eða stjórn þess einungis gera með samþykki löglegs félagsfundar.
8. grein
Reikningsár félagsins er starfsár stjórnar.
9. grein
Lög þessi öðlast þegar gildi.
Reykjavík, 6. október 2011