Sagan
Stofnfélagar
Árið 2023 markaði 70 ár frá stofnun Félags íslenskra teiknara, FÍT. Því er tímabært að líta um öxl og draga fram í dagsljósið verk fyrstu kynslóðar grafískra hönnuða á Íslandi og stofnenda félagsins.
Upphaf FÍT má rekja til Ágústu Pétursdóttur og bróður hennar Halldórs sem luku námi í auglýsingateiknun í Danmörku. Hann hélt síðar til framhaldsnáms til Bandaríkjanna. Þann 23. nóvember árið 1953 stofnaði Halldór, ásamt Ágústu systur sinni og þeim Atla Má Árnasyni, Stefáni Jónssyni, Tryggva Magnússyni, Ásgeiri Júlíussyni og Jörundi Pálssyni Félag íslenskra teiknara. Félagarnir hittust á teiknistofu Halldórs og Ágústu að Túngötu 38 í Reykjavík.
Öll höfðu þau unnið sem teiknarar um nokkurt skeið og áttu eftir að hafa gríðarleg áhrif á faggreinina og sjónræna menningarsögu Íslendinga þegar litið er til umbúða, merkja, þjóðlegra tákna, myndlýsinga, bókakápa og fleira.
Aðalmarkmið FÍT hefur alla tíð verið að efla starfsstéttina. Upphaflega var félagið stofnað til að samræma verðskrá og halda uppi félagsstarfi. Frá árinu 1946 höfðu teiknarar þó haft með sér nokkra samvinnu um verðlagningu. Árið 1957 taldi félagið aðeins 11 meðlimi en nú eru í því rúmlega 300 félagar.
- Atli Már Árnason (1918–2006)
fæddist í Reykjavík, sonur Árna Óla rithöfundar og blaðamanns og Maríu Jórunnar Pálsdóttur húsmóður. Atli Már hneigðist snemma að bókmenntum og myndlist og vann um skeið við bókavörslu á Alþýðubókasafninu í Reykjavík. Árið 1937 hélt hann til Kaupmannahafnar í Kunsthåndværkerskolen og var þar í alhliða listnámi með auglýsingateiknun sem aðalfag. Þaðan lauk hann prófi í auglýsingateiknun árið 1940. Að námi loknu vann hann við auglýsingagerð fyrir KRON (Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis) en stofnaði eigin auglýsingastofu árið 1948 og rak hana í áratugi. Um tíma ráku Atli Már og Ásgeir Júlíusson stofuna saman undir nafninu Teiknistofa Atla Más og Ásgeirs Júl. en þeir höfðu verið við nám í Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn á sama tíma. Eftir að því samstarfi lauk rak Atli Már stofuna einn. Auk vinnunnar á stofunni kenndi Atli Már fríhendisteikningu og fagteikningu bókagerðarmanna um skeið við Iðnskólann í Reykjavík.
Eftir Atla Má liggur mikið starf á sviði grafískrar hönnunar. Hann vann að ótal bókakápum á ferlinum, meðal annars fyrir föður sinn, en nokkrar bókanna unnu þeir saman, sem dæmi má nefna bækurnar Trölli og Ljósmóðirin í Stöðlakoti. Atli er einnig höfundur margra grafískra verka sem enn prýða hillur verslana, svo sem umbúða fyrir Ópal og Ora grænar baunir.
Jafnframt starfi sínu sem teiknari, í tæpa þrjá áratugi, fékkst Atli Már alltaf við að mála, uns hann sneri sér nær alfarið að málaralistinni seint á sjöunda áratugnum. Hann starfaði að list sinni fram í desember 2005 eða í tæpa fjóra áratugi.
- Ágústa Pétursdóttir Snæland (1915–2008)
fæddist í Reykjavík, dóttir hjónanna Péturs Halldórssonar, bóksala og síðar borgarstjóra Reykjavíkur, og Ólafar Björnsdóttur, húsfreyju. Ágústa fór utan haustið 1933 og lærði í Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn. Hún lauk þaðan prófi í auglýsingateiknun árið 1936 að loknu þriggja ára námi. Ágústa var fyrsta íslenska konan til að læra auglýsingateiknun og jafnframt fyrsti Íslendingurinn sem lauk prófi í faginu. Að námi loknu sinnti Ágústa ýmsum verkefnum fyrir föður sinn sem þá rak Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar í Austurstræti 12 og var þar með vinnuaðstöðu. Skömmu síðar stofnaði hún teiknistofu á sama stað ásamt Halldóri Péturssyni auglýsingateiknara, bróður sínum. Þar starfaði Ágústa til ársins 1942, en það ár giftist hún Pétri Snæland og tók að sinna börnum og heimili. Á þessum fyrri hluta ferils síns hannaði Ágústa frímerki, bókakápur, merki, m.a. merkið fyrir Stálhúsgögn og merki Barnaspítala Hringsins. Herferð fyrir snyrtivöruframleiðandann Vera Simillion var með fyrstu auglýsingaherferðum hér á landi, ef ekki sú fyrsta, og var hún unnin af Ágústu auk fjölda annarra verka.
Rúmum þrjátíu árum síðar, þegar börnin voru upp komin, hóf hún að vinna aftur sem auglýsingateiknari. Árið 1966 bar Ágústa sigur úr býtum í samkeppni um merki Landsvirkjunar. Einnig var hún hlutskörpust í samkeppni um merki Listahátíðar árið 1969.
Auk teiknistarfanna skapaði Ágústa listmuni af ýmsum toga, þar á meðal eftirsótta minjagripi, kríur, svani og fiðrildi sem hún vann úr þorskhausabeinum. Hún þrykkti á tau, bæði mannlífs- og götumyndir og myndir sem voru innblásnar af náttúrunni. Síðustu tvo áratugi ævinnar tók hún að skrifa ljóð sem sum hver voru birt opinberlega. Á níunda áratug síðustu aldar lét FÍT koma fyrir skildi til minningar um brautryðjendahlutverk Ágústu á teiknistofu hennar að Túngötu 38 í Reykjavík, þar sem heimili hennar stóð allt frá bernsku til efri ára.
- Ásgeir Júlíusson (1915–1967)
fæddist í Reykjavík, sonur hjónanna Júlíusar Sveinssonar trésmiðs og Ingunnar Magnúsdóttur. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1932 og var í teikninámi hjá Birni Björnssyni teiknara á árunum 1931–1936 auk þess að vera í tónlistarnámi í tvo vetur. Í kjölfarið fór Ásgeir til Danmerkur í framhaldsnám í Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn þar sem hann lagði stund á auglýsingateiknun. Eftir þriggja ára nám kom hann aftur heim til Íslands og gerðist stundakennari í auglýsingateiknun við Myndlista- og handíðaskóla Íslands í einn vetur en kenndi síðan teikningu við gagnfræðaskólann Flensborg á árunum 1942–1948. Einnig var hann teiknari bókaútgáfunnar Helgafells frá 1942 fram á sjöunda áratuginn. Um tíma ráku Ásgeir og Atli Már stofu saman undir nafninu Teiknistofa Atla Más og Ásgeirs Júl. en þeir höfðu verið við nám í Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn á sama tíma. Eftir að því samstarfi lauk rak Ásgeir eigin stofu það sem eftir var.
Eftir Ásgeir liggur mikið starf á sviði grafískrar hönnunar. Hann vann að ótal bókakápum á ferlinum, meðal annars fyrir bókaútgáfuna Helgafell auk annarra útgáfa og má þar nefna bækur á borð við Í fjallskugganum eftir Guðmund Daníelsson, og bækur Halldórs Laxness, Atómstöðina og Eldur í Kaupinhafn. Einnig vann hann að ótal myndlýsingum fyrir bækur og tímarit.
Ásgeir var einn af stofnendum Tónlistarfélags Hafnarfjarðar og sinnti þar formennsku og var jafnframt fyrsti formaður Félags íslenskra teiknara.
- Halldór Pétursson (1916–1977)
fæddist í Reykjavík, sonur hjónanna Péturs Halldórssonar, bóksala og síðar borgarstjóra í Reykjavík, og Ólafar Björnsdóttur, húsfreyju. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1935. Halldór varð snemma þekktur fyrir teikningar sínar. Hann sótti einkatíma hjá Guðmundi Thorsteinssyni (Muggi) og Júlíönu Sveinsdóttur og hélt síðan til náms við Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn þaðan sem hann lauk prófi í auglýsingateiknun árið 1938. Að loknu námi stofnaði hann teiknistofu með systur sinni Ágústu Pétursdóttur Snæland auglýsingateiknara, að Aðalstræti 12 þar sem faðir þeirra rak Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar. Á árunum 1942–1945 fór Halldór í frekara nám við Minneapolis School of Art og Art Students League í New York. Eftir það fékkst Halldór lítið við auglýsingagerð, en stundaði aðallega myndskreytingar og skopteikningar og var mikill frumkvöðull á því sviði.
Eftir Halldór liggur gífurlega mikið starf á sviði myndlýsinga en hann myndskreytti mikinn fjölda bóka og tímarita. Bókin Helgi skoðar heiminn, teikningar hans í Vísnabókinni og bókinni Íslensku dýrin og myndlýsingar hans á skákeinvígi Spasskys og Fischers auk forsíðna hans fyrir Vikuna og teikninga fyrir Spegilinn eru meðal þekktustu verka Halldórs. Auk þess eru myndir af hestum algengt viðfangsefni. Með þekktari merkjum Halldórs eru meðal annars merki Reykjavíkurborgar, merki Flugleiða og merki Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Þá hannaði og teiknaði hann alla þá íslensku peningaseðla sem gefnir voru út á árunum 1960–1981.
- Jörundur Pálsson (1913–1993)
fæddist á Ólafsfirði en flutti tveggja ára með foreldrum sínum til Hríseyjar þar sem hann ólst upp. Hann var sonur Páls Bergssonar, kennara, útgerðarmanns og hreppstjóra á Ólafsfirði og í Hrísey, og Svanhildar Jörundsdóttur húsfreyju. Jörundur tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri 1935 og nam síðan auglýsingateiknun í Det Tekniske Selskabs Skole í Kaupmannahöfn á árunum 1935–1939. Þar að auki stundaði hann málaralist við Listaháskólann í Kaupmannahöfn og tók próf í auglýsingateiknun 1938.
Jörundur var með teiknistofu í Grjótagötu og vann að fjölbreyttum verkefnum á þeim tæpu tuttugu árum sem hann vann sem teiknari. Hann vann um tíma fyrir auglýsingastofu E.K. (Einar Kristjánsson) og eru því einhverjar af teikningum Stefáns því merktar „E.K.“. Jörundur gerði meðal annars merki Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH), merki Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis (KRON), bókamerki (Ex Libris), bókakápur og auglýsingar.
Lítið hefur varðveist af verkum Jörundar á sviði grafískrar hönnunar en hann var samstíga Stefáni Jónssyni og árið 1956 hófu þeir báðir nám í arkitektúr í Kaupmannahöfn. Hann útskrifaðist árið 1960 frá Det Kongelige Akademi for de skønne Kunster. Eftir það sneri hann sér alfarið að arkitektúr. Hann var arkitekt hjá Húsameistara ríkisins og teiknaði meðal annars nokkrar kirkjur, sem dæmi má nefna kirkjuna í Þorlákshöfn. Þegar hann var í hlutverki listmálarans átti Esjan hug hans allan en hann málaði ótal tilbrigði af henni á ferlinum og sýndi opinberlega, var stundum kallaður Esjumálarinn.
- Stefán Jónsson (1914–1989)
fæddist á Sauðárkróki, sonur Jóns Þ. Björnssonar skólastjóra og Geirlaugar Jóhannesdóttur. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1935 og hélt til Kaupmannahafnar til náms í teikningu og málaralist veturinn eftir en þurfti frá að hverfa vegna féleysis. Um tíma vann hann við auglýsingateiknun hjá blaðinu Berlingske Tidende.
Stefán dvaldi í skamman tíma á Akureyri en fluttist svo alfarið til Reykjavíkur og var í fullu starfi sem auglýsingateiknari í Reykjavík frá 1937–1956 að Garðastræti 6. Hann vann um tíma fyrir auglýsingastofu E.K. (Einar Kristjánsson) og eru því einhverjar af teikningum Stefáns því merktar „E.K.“. Stefán teiknaði mikið af frímerkjum og fór í sérstaka ferð til Lundúna árið 1953 til að kynna sér teikningu, gerð og prentun seðla og frímerkja hjá hinu víðfræga prentfyrirtæki Thomas de la Rue.
Árið 1956 hóf hann nám í arkitektúr í Kaupmannahöfn og útskrifaðist árið 1960 frá Det Kongelige Akademi for de skønne Kunster og sneri sér alfarið að arkitektúr. Hann vann til ársins 1961 á teiknistofu Peters Bredstorf en fluttist þá aftur til Íslands. Stefán starfaði í Reykjavík sem arkitekt og kom meðal annars að skipulagningu Breiðholtshverfisins, Árbæjar- og Seljahverfis.
Frá þeim tæpu tveimur áratugum sem Stefán vann sem teiknari liggur töluvert eftir hann af þekktum verkum. Hann bar sigur úr býtum í samkeppnum um merki Lýðveldishátíðarinnar 1944, merki Sjálfstæðisflokksins, Landbúnaðarsýningarinnar 1947, merki Þjóðleikhússins, Krabbameinsfélagsins og Áburðarverksmiðju Reykjavíkurborgar. Hann vann að auglýsingum fyrir Sana á Akureyri og sá um útlit fjölda frímerkja og bókakápa ásamt því að sjá um útlit sýninga, svo sem Landbúnaðarsýningarinnar 1947, margra iðnsýninga og sýninga Heimilisiðnaðarfélags Íslands.
Stefán gekk snemma í Heimilisiðnaðarfélag Íslands og gegndi formennsku þar á árunum 1968–1981, árið 1983 var hann gerður að heiðursfélaga og árið 1986 sæmdur æðstu orðu finnsku heimilisiðnaðarsamtakanna. Framan af sinnti Stefán ólíkum teikniverkefnum fyrir félagið, svo sem sýningagerð, bjó til viðurkenningaskjöl og teiknaði merki verslunarinnar sem síðar varð að merki félagsins.
- Tryggvi Magnússon (1900–1960)
fæddist að Bæ í Steingrímsfirði, sonur hjónanna Magnúsar Magnússonar trésmíðameistara og Önnu Eymundsdóttur. Haustið 1916 fór hann í Gagnfræðaskólann á Akureyri og lauk þaðan prófi 1919. Að því loknu fór hann utan til Kaupmannahafnar í Det Tekniske Selskabs Skole og stundaði þar nám í tvö ár, auk þess að sækja einkatíma í teikningu. Því næst fór Tryggvi til New York í Art Students League frá 1921–1922 og var við nám í andlitsteikningu. Frá 1922–1923 lagði hann stund á málaralist í Dresden. Að loknu námi settist hann að í Reykjavík. Framan af fékkst Tryggvi mest við að mála eftir að heim kom. Síðar sneri hann sér þó að því að teikna verk eftir pöntunum, svo sem káputeikningar, merki og myndlýsingar í barnabækur. Árið 1926 var Tryggvi einn stofnenda Spegilsins, ásamt Páli Skúlasyni og Sigurði Guðmundssyni. Spegillinn var tímarit þar sem meginuppistaðan voru textar með háðsádeilu eða skopstælingu og skopmyndir eftir Tryggva. Þar að auki teiknaði Tryggvi hluta þeirra auglýsinga sem birtust í tímaritinu.
Tryggvi var einstaklega afkastamikill og frumkvöðull á sínu sviði, stundum er sagt að Tryggvi Magnússon hafi verið fyrsti teiknarinn sem hafði atvinnu af listgrein sinni. Teikningar hans prýða til að mynda jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum, auk þess sem hann teiknaði íslensku fornmannaspilin. Hann gerði drög að öllum sýslumerkjunum fyrir Alþingishátíðina 1930 ásamt því að teikna íslenska skjaldarmerkið.