AÍ óskar félagsmönnum gleðilegrar hátíðar
Árið 2020 hefur verið viðburðaríkt en um leið mjög sérstakt. Um síðustu áramót kvöddum við Aðalstræti 2 og fluttum inn með mikilli tilhlökkun í Tryggvagötu 17.
Fljótlega kom þó í ljós að húsnæðið hentaði ekki sem skyldi. Loftið var mjög þurrt og þykkir veggir gerðu það að verkum að nettenging var ekki áreiðanleg. Við hófum því að vinna meira og minna heiman frá okkur strax í febrúar. Ofan á þetta bættist síðan covid þannig að þetta ár hefur meira og minna farið fram í heimmavinnu. Við létum þetta þó engan veginn stoppa okkur og náðum að framkvæma margt á árinu. Hér er listi yfir helstu verkefni:
Kjarasamningar
Stærsta og mikilvægasta verkefni ársins var að koma kjarasamningi í höfn. Í lok júní var samþykktur samningur milli AÍ og SAMARK en síðasti kjarasamningur arkitekta rann út 2014. Mikil vinna fór í að koma samningum í höfn en til að átta sig á umfanginu hefur þessi vinna staðið yfir í nokkur ár. Kjaranefnd, með Unu Eydísi Finnsdóttur og Sigríði Maack, í fararbroddi á miklar þakkir skyldar fyrir óeigingjarna vinnu fyrir félagið auk eldri kjaranefnda sem stóðu vaktina sem og rýnihópur sem stofnaður var nú í vor og tók þátt í vinnunni með okkur. Næsta mál kjaranefndar er að ná samningi við ríki og sveitafélög.
Samkeppnismál innan AÍ
AÍ hefur að undanförnu unnið að því að koma samkeppnismálum í betra horf. Við vitum að þær má betrumbæta og er nokkuð ljóst að æ oftar leita verkkaupar á önnur mið en til AÍ þegar halda á samkeppnir. Samkeppnisnefnd hefur unnið ötullega að endurskoðun á samkeppnum og samkeppnisreglum félagsins. Til að efla samtalið enn frekar var stofnaður rýnihópur nú á haustdögum sem í sitja félagsmenn AÍ sem allir eiga það sameiginlegt að búa yfir töluverðri reynslu af samkeppnum. Sá hópur vinnur nú fyrst og fremst í því að skoða útboð og þá sérstaklega hvernig megi efla aðkomu arkitekta þar. Í samkeppnisnefnd AÍ sitja Gunnar Örn Sigurðsson, Laufey Agnarsdóttir og Falk Krüger. Í rýnihóp eru auk samkeppnisnefndar Halldór Eiríksson, Hrólfur Cela, Baldur Ó. Svavarsson og Sigríður Magnúsdóttir.
Samkeppnir
Alls voru 4 arkitektasamkeppnir haldnar á árinu í samstarfi við AÍ. Þær voru eftirfarandi
- Opin framkvæmdasamkeppni um nýtt hjúkrunarheimili á Húsavík.
- Opin hugmyndasamkeppni um enduruppbyggingu Heilsustofnunar NLFÍ og framtíðarskiplag á landi NLFÍ í Hveragerði.
- Lokuð hugmyndasamkeppni um breytingu á deiliskipulagi á lóð A-Kirkjusandi.
- Opin hönnunar-og framkvæmdasamkeppni um nýjan miðborgarleikskóla og fjölskyldumiðstöð í Reykjavík.
Umsagnir til alþingis og athugasemdir
Regulega eru í samráðsgátt stjórnvalda mál sem snerta stéttina með beinum eða óbeinum hætti. AÍ reynir eftir fremsta megni að bregðast við þessum málum með því að senda inn umsagnir. Í ár sendum við umsagnir um eftirfarandi mál:
- Drög að frumvarpi til laga um opinberan stuðning við nýsköpun, mál nr. 202/2020.
- Drög að frumvarpi til laga um tækniþróunarsjóð, mál nr. 201/2020.
- Drög að reglugerð um hlutdeildarlán.
- Drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009 (tímabundin fjölgun starfslauna og styrkja), 310. Mál.
Í öllum tilvikum var stofnaður vinnuhópur sem í sátu félagsmenn AÍ. Óhætt er að segja að okkur hafi tekist ágætlega upp en til að mynda voru gerðar breytingar á reglugerð um hlutdeilarlán eftir okkar athugasemdir og í kjölfarið hefur okkur verið boðið í frekara samtal við opinbera aðila sem án efa mun leiða til góðra hluta.
Auk ofantaldra umsagna skrifar AÍ reglulega bréf til ólíkra aðila. Oft á tíðum til að minna á ólögmæta notkun á orðinu arkitekt (oft notað í starfsauglýsingum fyrir tölvugeirann), og eins reynum við að vera á varðbergi þegar arkitekta er ekki getið við myndir af byggingum, og þá sérstaklega í opinberri útgáfu. Einnig sendum við reglulega bréf til opinberra aðila þegar við teljum að megi gera betur, eins og í haust þegar AÍ í samstarfi við SAMKR sendi bréf til sveitastjóra Reykjanesbæjar þar sem við gagnrýndum útboð um hjúkrunarheimili.
HönnunarMars
Í ár sameinuðust Arkitektafélag Íslands, Félag íslenskra landslagsarkitekta og Grænni byggð í sýningu um framtíð hins byggða umhverfis undir heitinu: Og hvað svo? Hið byggða umhverfi og hamfarahlýnun. Þar voru til sýnis lausnir sem þegar hafa verið teknar í notkun, lausnir sem enn eru í þróun og framtíðarlausnir. Sýningin sem haldin var á Hafnartorgi var mjög vel sótt og fékk þó nokkra athygli. Sumir gesta mættu oftar en einu sinni og skemmtilegast var þegar gestir gengu út af sýningunni og sögðust ætla að endurhugsa fyrirhugaðar framkvæmdir á húsnæði sínu eða sumarhúsi og það góða var að það gerðist all oft. Í vinnuhóp fyrir AÍ sat Jóhanna Höeg en fleiri félagsmenn AÍ komu að sýningunni því fyrir Grænni byggð sat Björn Guðbrandsson og sýningarstjórn var í höndum Baldurs H. Snorrasonar.
Ný vefsíða AÍ og nýr vettvangur fyrir félagsmenn á facebook
í haust fór í loftið ný vefsíða fyrir AÍ. Síðan er hluti af nýrri vefsíðu Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs og býður síðan upp á marga skemmtilega möguleika. Enn á þó eftir að fullvinna nýju síðuna fyrir AÍ og stendur það nú yfir. Fljótlega mun allt efni af gömlu síðunni verða flutt yfir og frekari upplýsingar um starfsemi AÍ koma inn. Nú er verið að vinna að því að búa til félagatal þar sem félagsmenn munu geta sett upplýsingar um sig og sýn verk. Við erum gríðarlega spennt fyrir því að taka félagatalið í notkun en það mun án efa gagnast okkur öllum sem og þeim sem eru að leita að hönnuðum og arkitektum í verkefni, stór og smá. Í lok árs var ennig stofnuð facebooksíðan Arkitektafélag Íslands-umræðuvettvangur. Sú síða er hugsuð til að opna frekar á umræðuna og til að auka aðgengi að samtali við félagsmenn. Við hvetjum alla félagsmenn sem ekki eru komnir inn á þá síðu að sækja um aðgang.
Flutningur í Grósku
Þær gleðifréttir bárust AÍ í lok sumars að við værum komin með aðstöðu inn í Grósku-Hugmyndahús. Þetta eru gríðarlega góðar fréttir fyrir félagið en þarna verðum við með frábæra aðstöðu til fundarhalds sem og til að halda stærri málstofur og fyrirlestra. Við förum því mjög bjartsýn inn í nýtt ár og vonumst eftir því að félagið nái að dafna vel og blómstra í þessu nýja húnsæði en stefnt er á að flytja inn í byrjun nýs árs. Við sjáum hvað setur í þeim efnum. Þess má geta að Gróska er einmitt teiknuð af félagsmönnum okkar á arkitektastofunni Andrúm.
Skrifstofa AÍ er lokuð frá og með 23. desember til og með 4. janúar.
Við óskum ykkur öllum gleðilegrar hátíðar og hlökkum til nýs árs með ykkur!