Angústúra hlýtur viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun 2023
Angústúra bókaforlag hlýtur viðurkenningu fyrir bestu fjárfestingu í hönnun á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023 en bókaforlagið hefur frá upphafi átt í samstarfi við leiðandi hönnuði og átt sinn þátt í skrásetningu á hönnunarsögu landsins.
Rökstuðningur dómnefndar:
Á skömmum tíma hefur Angústúra sett sterkan svip á bókaútgáfu á Íslandi með fjölbreyttri útgáfu bæði hvað varðar innihald og hönnun. Angústúra gefur út vandaðar íslenskar bókmenntir og þýðingar, þar sem rík áhersla er lögð á hönnun; skrásetningu íslenskrar hönnunarsögu, hönnunarrýni og þýðingar á erlendu efni tengdu hönnun.
Metnaður er lagður í umgjörð verkanna og upplifun lesenda. Þar má nefna bókaflokka í áskrift, þar sem áskrifendum berast bókmenntir, frá öllum heimshornum í íslenskri þýðingu og hönnun.
Bókaforlagið Angústúra var stofnað árið 2016 og hefur frá upphafi átt í samstarfi við leiðandi hönnuði, sem fá fullt frelsi til að túlka innihald á sjónrænan máta í myndlýsingum, kápuhönnun og umbroti. Þannig verða til fallegir prentgripir ætlaðir breiðum hópi lesenda.
Að mati dómnefndar hefur fjárfesting Angústúru sýnt hvernig hönnunin sjálf getur vakið athygli og áhuga lesenda á verkunum. Bókaforlagið hefur þannig sett fordæmi um það hvernig hægt er að standa vel að fjölbreytilegri útgáfu og á hrós skilið fyrir þátt sinn í útgáfu skrásetningar á hönnunarsögu á Íslandi.
Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt við hátíðlega athöfn í Grósku 9. nóvember er þetta er tíunda árið í röð sem verðlaunin eru veitt.
Viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun var veitt í fyrsta sinn 2015 og er veitt fyrirtæki sem hefur hönnun og arkitektúr að leiðarljósi í starfsemi sinni til að auka gæði, verðmætasköpun og samkeppnishæfni. Það var Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins sem veitti Maríu Rán Guðjónsdóttur, stofnada og eiganda Angústúru viðurkenninguna.
Hönnunarverðlaun Íslands eru unnin af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og Grósku.