Arkitektafélag Íslands mótmælir harðlega orðum forstjóra FSRE
Arkitektafélag Íslands lýsir yfir þungum áhyggjum af orðræðu forstjóra FSRE í fréttum RÚV þar sem hann talaði um Hjúkrunarheimilið á Höfn, sem nú er í smíðum og er afrakstur af samkeppni. Það er með ólíkindum að forstjóri Framkvæmdasýslunnar-Ríkiseigna skuli halda því fram að arkitektúr eigi ekki við þegar hanna á byggingar sem mynda eiga umgjörð utan um hversdagslegt líf okkar, heldur eigi einungis rétt á sér í þegar um „hús sem hafa sérstaka stöðu“ er að ræða.
Að mati Arkitektafélags Íslands bera þessi ummæli vott um fáfræði sem á alls ekki heima hjá þeim sem fara fyrir þeirri opinberu stofnun landsins sem fer með umsjón á öllu eignasafni ríkisins og helsta markmið á að vera, samkvæmt heimasíðu þeirra, að skila samfélaginu og ríkissjóði sem mestu virði.“
Samkeppnir tryggja besta mögulega undirbúninginn fyrir framkvæmdir
Það er hjartans mál AÍ að koma sem flestum verkefnum í samkeppnir til að tryggja að bestu úrlausnir séu valdar til framkvæmda. Með samkeppnum næst fram besti mögulegi undirbúningur verkefna á sem hagkvæmastan hátt og það ætti FSRE að vita.
Óskyldum atriðum blandað saman
Í þessu tiltekna dæmi um Hjúkrunarheimilið á Höfn er forstjórinn að blanda alls óskyldum atriðum saman. Ekkert samhengi er á milli þess að þar skuli hafa verið haldin samkeppni og tillaga valin, (en ekki teikning líkt og sagt var í fréttinni), og þess að seinkun hafi orðið á verkteikningum og verkið tafist, né heldur þess að byggingin hafi sökum samkeppni orðið of flókin.
Arkitektúr og hönnun mótar umhverfið frá barnæsku til elliára
Arkitektúr liggur á mótum hins haldbæra og nytsamlega og hins listræna. Augljóslega borgar sig að vanda vel til bygginga svo þær standi sem lengst og auðvitað þurfa byggingar að svara þörfum notenda, en ekki síst þurfa byggingar að vera listrænar því annars sér fólk ekki virðið í að viðhalda þeim eða nota.
Arkitektúr er margþætt fyrirbæri sem snertir flesta þætti hins manngerða umhverfis, allt frá skipulagi og byggingum til einstakra rýma, hvort sem það er innan bygginga eða milli þeirra. Arkitektúr fæst einnig við marga óáþreifanlega þætti eins og kostnaðarmat, öryggismál, umhverfissjónarmið og jafnrétti, en síðast en ekki síst, fyrirbærið fagurfræði.
Það er hlutverk arkitektsins að setja notandann í fyrsta sætið og hugsa verkefnin út frá þörfum hans og samfélagsins í heild. Arkitektúr mótar okkur öll því hann er það afl sem mótar umhverfi okkar, allt frá barnæsku til elliára, hvort sem það er leikskólinn og útileiksvæðið þar sem við upplifum ævintýrin eða hjúkrunarheimilið þar sem við njótum ævikvöldsins. Arkitektúr er rammi lífs okkar. Skiptir það engu máli hvernig þessu rammi er gerður, hvort okkur líði vel, finnist við örugg, eða getum myndað tengsl við annað fólk?
Hugsum um hlutverk okkar og ábyrgð
Arkitektafélag Íslands vill með þessum skrifum vekja forstjóra FSRE, sem og alla aðila sem fara með byggingarmál, til umhugsunar hlutverk sitt. Góður arkitektúr á ekki bara mikilvægt erindi við almenning þegar um sérstakar byggingar er að ræða heldur ekki síður, og jafnvel miklu frekar, þegar um er að ræða byggingar sem hýsa okkar daglega líf eins og skólastofnanir, hjúkrunarheimili og íbúðarhús, eða útirýmin sem við ferðumst um á milli bygginga, garðarnir og torgin. Við höfum ekki efni á öðru en að byggja góðan arkitektúr. Ef við gerum það ekki þá er velferð íbúa þessa lands í húfi og fjárhagsleg verðmæti fara forgörðum.
Góður árangur af samkeppnum
Líkt og hefur verið tíundað hér að ofan, er það ljóst að skapa góðan arkitektúr snýst ekki um að búa til fallegar byggingar fyrir fína viðburði heldur skiptir máli hvernig það umhverfi er sem við verjum mestum tíma okkar í er hannað. Að slengja því fram að hitt og þetta séu hönnunarhús, hönnunarbrú eða „mannvirkjaleg listaverk “ (hvað sem það nú þýðir), vottar aðeins um fávisku þess sem það segir um hvað málið snýst. Það þarf að hanna allt í umhverfi okkar, spurningin er hvort við ætlum að gera það vel eða illa. Það er of dýrt fyrir samfélagið að gera hlutina í óðagoti og til skamms tíma. Hlutir sem hannaðir eru með gæði og langlífi í huga endast betur og margborga sig þegar uppi er staðið.
Sem dæmi samkeppnir þar sem viðfangsefnið hefur verið bygging utan um hið hversdagslega líf okkar má nefna:
- Verkamannabústaði við Hringbraut (sem nú hafa verið friðlýstir)
- Hjúkrunarheimilið á Selfossi
- Leikskólann í Urriðaholti
- Aðstöðubyggingu Borgarfirði Eystri
- Fangelsið á Hólmsheiði
- Og svo mætti lengi telja