Bók Péturs H. Ármannsonar um Guðjón Samúelsson, húsameistara er komin út

16. nóvember 2020

Í bókinni, Guðjón Samúelson, húsameistari, skoðar höfundurinn, Pétur H. Ármannsson, arkitekt, verk og hugmyndir Guðjóns út frá sérstöðu hans sem háskólamenntaðs arkitekts sem var mótaður af straumum og stefnum í norrænni og evrópskri byggingarlist á fyrstu áratugum 20. aldar.

Í tilkynningu frá Hinu íslenska bókmenntafélagi sem gefur bókina út segir:

Fáir listamenn hafa haft meiri áhrif á mótun íslensks samfélags með áþreifanlegum verkum en húsameistarinn Guðjón Samúelsson húsameistari á fyrri hluta 20. aldar. Í bókinni er athygli er beint að því hvernig Guðjón nýtti menntun sína og þekkingu við sérstakar og erfiðar aðstæður sem gáfu honum þó tækifæri til víðtækari áhrifa á manngert umhverfi í landinu en nokkrum öðrum íslenskum arkitekt hefur hlotnast fyrr eða síðar.

Bókina prýða áður óbirtar litljósmyndir Guðmundar Ingólfssonar af byggingum Guðjóns auk sögulegs ljósmyndaefnis. Þá eru í ritinu afrit uppdrátta að kunnustu verkum húsameistarans auk lítt þekktra skissuteikninga og skólaverkefna. Í bókarlok er ítarlegur útdráttur á ensku, auk skrár yfir 400 byggingar um allt land sem Guðjón teiknaði, ýmist einn eða með samstarfsmönnum sínum.

Bók Péturs um hið mikla æviverk Guðjóns Samúelssonar er byggð á víðtækum rannsóknum og djúpum skilningi á viðfangsefninu. Að henni er mikill fengur fyrir íslenska menningarsögu. Útgáfa hennar er fagnaðarefni öllum almenningi og áhugamönnum um húsagerðarlist.

Guðjón Samúelsson

Í febrúar 2019 var þess minnst að öld var liðin frá því að Guðjón Samúelsson lauk háskólaprófi í byggingarlist, fyrstur íslendinga á 20. öld. Þann 20. apríl síðastliðinn voru liðin eitt hundrað ár frá því að Guðjón var skipaður í embætti húsameistara ríkisins. Í sama mánuði voru liðin sjötíu ár frá dánardegi Guðjóns Samúelssonar þann 25. apríl 1950, sem bar að fimm dögum eftir vígslu Þjóðleikhússins.

Tímamót eru í sögu fleiri þekktra bygginga húsameistara árið 2020. Þann 17. júní sl. voru áttatíu ár liðin frá opnunarathöfn aðalbyggingar Háskóla Íslands og 17. nóvember nk. verður vígsluafmælis Akureyrarkirkju minnst. Loks eru níutíu ár liðin frá því að lokið var við smíði Landspítalans, héraðsskólans á Laugarvatni og Hótel Borgar hátíðarárið 1930.

Akureyrarkirkja, teikning
 • Guðjón Samúelsson húsameistari
 • Útgefandi : Hið íslenska bókmenntafélag
 • Höfundur: Pétur H. Ármannsson arkitekt
 • Ljósmyndari : Guðmundur Ingólfsson, Ímynd
 • Þýðing : Anna Yates löggiltur skjalaþýðandi
 • Yfirlestur : Jón Torfason skjalavörður, Þorsteinn Gunnarsson arkitekt
 • Myndaritstjórn : Ólöf Bjarnadóttir safnafræðingur, Pétur H. Ármannsson
 • Skönnun uppdrátta : Halldór Ólafsson, Pixel prentþjónusta
 • Skrá yfir höfunda og eigendur myndefnis : Ólöf Bjarnadóttir
 • Skrá yfir mannanöfn : Jón Torfason
 • Skrá yfir hús og mannvirki : Pétur H. Ármannsson
Dagsetning
16. nóvember 2020
Höfundur
Álfrún Pálsdóttir

Tögg

 • Greinar
 • Arkitektúr
 • Guðjón Samúelsson