Design Diplomacy snýr aftur!
Það er ekki á hverjum degi sem maður fær heimboð að skála hjá sendiherra – og hvað þá að þar séu hönnuðir að spila spil. Allt í sama partýinu. En nú er tækifærið!
Design Diplomacy snýr aftur en í fjórða sinn bjóða erlendir sendiherrar hönnuðum frá sínum heimalöndum að taka þátt í opnu samtali við íslenska kollega á HönnunarMars. Sendiherrarnir opna dyrnar að heimilum sínum og veita gestum einstakt tækifæri til þess að hitta hönnuði og sækja sér innblástur.
Design Diplomacy viðburðir eru framleiddir í samstarfi við Helsinki Design Week sem á hugmyndina. Sérsniðin spurningaspjöld eru notuð til þess að hefja hönnunarmiðaða umræðu og kryfja til mergjar innblástur, daglega rútínu og vinnuferli hönnuða.
Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig á viðburðina en skráningarhlekk fyrir hvern viðburð má finna hér að neðan.
Ann-Sofie Stude, sendiherra Finnlands á Íslandi, býður Laura Pehkonen (FI) og Hönnu Dís Whitehead (IS) til sín í samtal fimmtudaginn 5. maí frá kl. 12:00 til 14:00.
Laura Pehkonen (FI) er leirhönnuður og listamaður, búsett í Helsinki. Í verkum sínum blandar Laura saman listsköpun og aðferðum handverksins og skapar þannig einstæð og abstrakt verk. Helstu efniviður Lauru er leir en í verkum sínum blandar hún einnig saman tré og blönduðum miðlum. Á síðustu árum hefur Laura unnið nokkur stór veggverk úr leir í almannarými.
Hanna Dís Whitehead (IS), vöruhönnuður, leggur áherslu á parktíska nálgun og vinnur á persónulegan hátt með því að blanda saman sögum, formum, efnum og litum. Hún vinnur á mörkum myndlistar, hönnunar og handverks og vinnur oft sömu hugmynd í ólíkum og fjölbreyttum efnum. Hanna hefur mikinn áhuga á því samtali sem myndast á milli hluta og áhorfenda. Hanna býr og starfar á Suð-austurlandi.
Sendiherrabústaður Finnlands á Íslandi er á Hagamel 4, 107 Reykjavík. Skráning á viðburðinn fer fram HÉR.
Aud Lise Norheim, sendiherra Noregs á Íslandi, býður hönnuðunum Elisabeth Stray Pedersen (NO) og Magneu Einarsdóttir (IS) föstudaginn 6. maí frá kl. 16:00 - 18:00.
Elisabeth Stray Pedersen (NO) hefur unnið að fata- og textíliðnaði bæði í Noregi og á alþjóðlegum vettvangi. Elisabeth ákvað að taka yfir frægt framleiðslufyrirtæki til þess að geta hefur sinnt sjálfbærri og innlendri framleiðslu. Hún þróaði framleiðslustúdíó og fatamerkið Lillunn auk þess að stofna fatamerkið ESP sem einblínir sérstaklega á framleiðslu fyrir yngri kaupendur. Árið 2019 hlaut Elisabeth hin virtu hönnunarverðlaun Jacobsprisen sem Design and Architecture Norway (DogA) veitir. M.a. hefur verið fjallað um ESP í japanska, ameríska og ítalska Vogue, Monocle og DANSK Magazine. ESP hefur það að markmiði að standa utan við tískustrauma og hanna hágæða vörur sem framleiddar eru innanlands.
Magnea Einarsdóttir (IS) rekur fatamerkið sitt MAGNEA. Magnea hannar föt sem leggja áherslu á nýstárlega nálgun á textíl, prjónavörur og fleira, en Magnea útskrifaðist úr Central Saint Martins með áherslu á prjón. Fatalínur hönnuðarins undirstrikar hugmyndafræði hennar um nýja og sjálfbæra nálgun á prjónaflíkur. Meðal þess má nefna yfirhafnir úr íslenskri ull framleiddar hérlendis, sem nýlega hlutu tilnefningu til Íslensku hönnunarverðlaunanna árið 2021.
Sendiráð Noregs á Íslandi er staðsett við Fjólugötu 17, 101 Reykjavík. Skráning fer fram HÉR.
Michelle Yerkin, starfandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, býður hönnuðunum Sallyann Corn (BNA) og Theodóru Alfreðsdóttur (IS) til sín föstudaginn 6. maí frá kl. 16:00 til 18:00.
Sallyann Corn (BNA), hönnuður frá Seattle, kennari, sýningarstjóri og einn af stofnendum hönnunarstofunnar fruitsuper. Sallyann hefur verið í framkvæmdarteymi JOIN Design frá árinu 2009 og brennur fyrir sjálfæðu skapandi samfélagi. Sallyann er einnig fyrirlesari og kennari, þar sem umfjöllunarefnin spanna allt frá vöruhönnun yfir í innkaup.
Theodóra Alfreðsdóttir (IS) vöruhönnuður með aðsetur í London. Hún útskrifaðist úr vöruhönnun frá Listaháskóla Íslands (2012) og með MA gráðu frá Royal College of Art í London (2015). Verk hennar snúast um þá sögu sem hlutir geta sagt okkur; hvernig þeir geta verið til vitnis um framleiðsluferlið sem þeir fóru í gegn um, sagt til um hvað gerðist milli vélar, verkfæris, handverksmanns og efni s með það að leiðarljósi að endurskoða gildi efnisheimsins í kring um okkur.
Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi er staðsett við Engjateiga 7, 105 Reykjavík. Skráning fer fram HÉR.
Kirsten Geelan, sendiherra Danmörku á Íslandi, býður Kent Martinussen (DK) og Höllu Helgadóttur (IS) til sín fyrir áhugavert síðdegi með samtali um hönnun, þriðjudaginn 3. maí frá kl. 16:00 - 18:00.
Kent Martinussen (DK) er danskur arkitekt og framkvæmdastjóri Miðstöðvar arkitektúrs í Danmörku. Kent hefur rekið sína eigin teiknistofu samhliða því að sinna kennslu og rannsóknum við háskóla í Danmörku sem og erlendis. Kent hefur komið að fjölmörgum erlendum verkefnum, m.a. Arkitektatvíæringum í Feneyjum og þríæringi, bæði í Japan og Mið-Austurlöndum. Hann hefur setið í stjórn Danska arkitektafélagsins og í stjórn the DAC, Danish Cultural Canon, sem vinnur að því að skilgreina og útnefna danskan menningararf.
Halla Helgadóttir (IS), framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs, er með víðtæka reynslu sem hönnuður og stjórnandi. Halla er grafískur hönnuður að mennt, heiðursfélagi í FÍT og starfaði í eigin fyrirtæki í 20 ár. Hún hefur stofnað til og tekið þátt í fjölmörgum stefnumótandi og nýskapandi verkefnum á Íslandi og erlendis og um leið öðlast þekkingu og reynslu af því að vinna þvert á starfgreinar hönnunar og arkitektúrs, með fyrirtækjum og stjórnvöldum og á sviði skapandi greina.
Sendiráð Danmerkur á Íslandi er staðsett á Hverfisgötu 29, 101 Reykjavík. Skráning fer fram HÉR.