DesignTalks 2020 - Mirko Ilic og Barbara, eftir Garðar Eyjólfsson og Martein Sindra Jónsson
Listamaðurinn Mirko Ilić, Garðar Eyjólfsson, hönnuður og fagstjóri meistaranáms í hönnun við Listaháskóla Íslands og Marteinn Sindri Jónsson, heimspekingur, tónlistarmaður og aðjúnkt við sama skóla bætast í hóp þeirra sem koma fram á DesignTalks 2020 í Hörpu þann 26. mars næstkomandi.
Mirko Ilić er margverðlaunaður listamaður sem á að baki fjölbreyttan feril, meðal annars sem listrænn stjórnandi alþjóðlegu útgáfu Time Magazine og síðar Op-Ed síðna New York Times. Mirko Ilić Corp starfar fyrir fjölbreyttan hóp viðskiptavina, allt frá hugsjónaverkefnum til lúxus verkefna í hótelgeiranum.
Mirko er meðhöfundur fjölda bóka um efni tengt grafískri hönnun s.s.100 Icons of Graphic Design, The Anatomy of Design, Stop Think Go Do, og The Design of Dissent.Auk þess skipuleggur hann og stjórnar sýningum um allan heim, líkt og sýningunni “Umburðarlyndi”, sem verður sýnd á samsýningu FÍT í Hafnarhúsinu á HönnunarMars.
Ég held að það sé þörf á róttækara ímyndunarafli. Hvernig við myndgerum allt annan veruleika: hver tenging okkar við kerfi, umhverfi og tækni er.
Barbara eftir Garðar Eyjólfsson, hönnuð og fagstjóra meistaranáms í hönnun við Listaháskóla Íslands, og Martein Sindra Jónsson, heimspeking, tónlistarmann og aðjúnkt við sama skóla, bregður upp svipmyndum af náinni framtíð.
„Barbara” byggir á samnefndri smásögu eftir Garðar Eyjólfsson. Þar segir frá fyrstu áratugunum í ævi Barböru og vissum umbreytingum í lífi hennar. Verkefnið er hugsað sem samstarfsvettvangur ýmissa hönnuða og listamanna til þess að velta fyrir sér möguleikunum sem felast í stefnumóti manns, tækni, menningar og umhverfis.
Þema DesignTalks í ár, Nýr heimur, nýjar leiðir, birtist eins og rauður þráður í gegnum daginn og hnýtir saman erindi erlendra og innlendra hönnuða og arkitekta, sem á einn eða annan hátt eru að bregðast við stöðu mála í heiminum í dag.
Hlín Helga Guðlaugsdóttir er stjórnandi DesignTalks og ásamt henni mun Robert Thiemann,stofnandi og aðalritstjóri FRAME stjórna dagskránni, en hann er stofnandi og forstjóri Frame Publishers.
Fylgstu með því á næstu vikum munum við kynna fleiri nöfn sem ætla að veita innblástur á DesignTalks 2020 í Hörpu.
Uppselt hefur verið á viðburðinn undanfarin ár Tryggðu þér miða hér.
Hér er viðburðurinn á Facebook.
DesignTalks er lykilviðburður HönnunarMars, skipulagt af Hönnunarmiðstöð Íslands og styrkt af Arion banka og Reykjavíkurborg.