Earth Matters
by Philip Fimmano
Greinin birtist fyrst í 9. tölublaði HA, 2019.
Philip Fimmano er tísku- og lífstílssérfræðingur, sýningarstjóri og náinn samstarfsmaður Lidewij Edelkoort, eins frægasta framtíðarrýnis í heimi.
Edelkoort og Philip hafa stýrt sýningum í söfnum um heim allan, sem oftar en ekki taka á hnattrænni þróun hvað varðar sjálfbærni og virðingu fyrir jörðinni. Philip var meðal fyrirlesara á DesignTalks 2019, alþjóðlega ráðstefnudeginum sem markar upphaf HönnunarMars ár hvert. Af því tilefni skrifaði hann þessa hugleiðingu fyrir HA og valdi eftirfarandi verkefni sem kynnt voru á hátíðinni og ríma við þær áherslur sem hann hefur séð ryðja sér til rúms annars staðar í heiminum: Fischer verslun, innriinnri eftir Raphaël Costes, Shaping paper eftir Báru Finnsdóttur og Denim on denim on denim on denim eftir Fléttu og Steinunni Eyju Halldórsdóttur.
Earth Matters
Á þeirri öld sem nýlega er gengin í garð gefst okkur tækifæri til þess að líta í eigin barm, koma á róttækum breytingum og bæta fyrir umhverfisspjöll síðustu aldar, ofneyslu, græðgi og ofbeldi. Loksins er nýtt samfélag að fæðast sem ekki þarf að reiða sig á jarðefnaeldsneyti, samfélag sem notar aðra náttúrulega valkosti, býður upp á nýja orkugjafa og veitir okkur trú á framtíðina. Ný gildi efla virðingu okkar fyrir jörðinni og hvert öðru. Útkoman verður vistkerfi nándar og næmis, sem byggist á innsæi og afturhvarfi til fortíðar og gamalla aðferða.
Hönnun sækir innblástur sinn og efnivið til jarðarinnar, fagnar fegurð hennar og þrautseigju, vekur athygli okkar á þeim erfiðleikum sem hún stendur frammi fyrir og aðdáun á náttúruöflunum. Náttúran er uppspretta ógrynni hugmynda, frá landi til sjávar, frá lóni til eldfjalls: innihaldsefnin eru greind, þeim er umbreytt í keramík, endurunninn textíl, málmblöndur og jurtaliti. Þetta er hreyfing sem endurskilgreinir áþreifanlega og tilfinningalega þætti lífs okkar.
Hönnuðir um allan heim stefna í átt að sjálfbærari framleiðsluháttum og vekja okkur til umhugsunar um mengunina sem fylgir textíliðnaðinum. Þeir leitast við að nota lítið sem ekkert af spilliefnum og vatni, spara orku eftir bestu getu, stunda staðbundna framleiðslu og gera tilraunir með endurunnin og endurnýtt efni. Að sama skapi er verið að endurvekja fornar framleiðsluaðferðir til þess að leita nýrra leiða til framþróunar.
Líkt og veiðimenn og safnarar fyrri tíma safna meðvitaðir hönnuðir lífrænum hráefnum til þess að skapa litríkt tungumál sem hæfir grænni framtíð. Þeir sýna hvernig hægt er að stunda framleiðslu án þess að menga. Margir rannsaka eiginleika einstakra plantna, líkt og nútíma grasafræðingar, flokka þær og tengja samfélagið við náttúruna á ný á meðan þeir sjá fyrir sér enn aðra möguleika allt frá hönnun frumilma, yfir í staðbundna matargerð eða skartgripi innblásna af grasafræði.
Uppruni dýraafurða, nafn vefarans og andlit handverksmeistarans verður þannig ómissandi þáttur í því að skilja sál og sérkenni hvers hlutar. Líkt og við þekkjum uppruna matar eru efni núorðið grandskoðuð af hönnuðum sem hafa áhuga á séreinkennum dýra- eða plöntutegunda. Ný kynslóð hönnuða er að feta sig í átt að rótunum og rannsaka sína eigin sögu sem í sumum tilfellum nær allt til sköpunar alheimsins.
Þessi vitundarvakning hefur líka veitt íslenskum hönnuðum og listamönnum sem kanna nýjar leiðir innblástur. Þessir nýjungagjörnu hugsuðir geta breytt hugarfari okkar. Þetta er framsækið fólk sem er tengt orku náttúrunnar og getur leitt okkur inn í nýjan heim í mótun, og þar með vakið vonarneista.
Fischer
„Fischer hefur frá upphafi verið okkar persónulega leið til að finna út úr því hvernig við getum minnkað vistspor okkar. Smátt og smátt temjum við okkur nýjar neysluvenjur og lifnaðarhætti, smitum út frá okkur til einstaklinga, birgja og framleiðenda sem hægt og rólega breyta sínum framleiðsluháttum og þá er boltinn farinn að rúlla.“
Jónsi, Ingibjörg, Lilja og Sigurrós
innriinnri
„Það er ákaflega orkufrek aðferð að bræða grjót til þess að búa til hráefni, sem nota má í framleiðslu nýrra hluta. Þetta er aðeins mögulegt vegna þess að Ísland býr yfir orku, sem er nær öll endurnýjanleg, eða 99 prósent hennar.“
Raphaël Costes
Denim on denim on denim on denim on denim
„Við leggjum áherslu á að reyna að fullnýta hráefnið sem við vinnum með og hönnum vöruna með það í huga. Við trúum því að það sem við hendum í ruslið sé aðeins hráefni í röngu samhengi. Við höfum því leitast við í okkar vinnu að finna „rétt“ samhengi fyrir hráefni sem annars hefði verið fargað.“
Flétta og Steinunn Eyja Halldórsdóttir
Shaping Paper
„Drifkraftur minn felst í forvitni minni á efnum, hvernig hægt er að vinna með þau á tilraunakenndan hátt og setja þau í nýtt samhengi. Stærri úrlausnarefni líkt og sjálfbær hönnun, efnisnotkun, framleiðsla og endurnýting/vinnsla eru mitt hjartans mál og hvetja mig áfram í þróun verkefna minna.“
Bára Finnsdóttir