Gagarín hlaut silfurverðlaun í ADC*E Awards og þrjú íslensk verk tilnefnd til verðlauna.
FÍT, Félag íslenskra teiknara, er aðili að evrópsku hönnunarkeppninni Art Directors Club Europe, eða ADCE. Fremstu verk hvers lands eru send í keppnina og eru svo dæmd af 60 fagaðilum, alls staðar að úr álfunni. Verðlaunin endurspegla úrval fremstu verka í grafískri hönnun í Evrópu. Í kvöld voru ADCE verðlaunin veitt í 30. sinn.
Íslendingar áttu þrjá dómnefndarfulltrúa í keppninni en þau eru Atli Þór Árnason grafískur hönnuður hjá Kolfon, Dóri Andrésson grafískur hönnuður hjá Brandenburg og Erla María Árnadóttir grafískur hönnuður hjá Studio Erla & Jónas. Öll hafa þau margra ára reynslu af faginu.
Í ár sendu Íslendingar 35 verk í keppnina. Verkin hlutu fjórar tilnefningar og unnu þar af til einna silfurverðlauna.
Gagarín
Gagarín hlaut silfurverðlaun á ADC*E fyrir gagnvirka atriðið „Weaving Time“, sem var sýnt á fornleifa- og sögusafninu Pointe-à-Callière í Montreal í Kanada. Á safninu gefst kostur á að kanna töfrandi heim Perú og siðmenningu Inka, sem eru einna þekktastir fyrir ótrúlega hönnun og gæðaefni í vefnaði. Í því ljósi hannaði Gagarín stafrænan vefstól sem færir gesti nær handverki Inka á skapandi hátt.
Mynstrin sem voru útfærð fyrir atriðið eiga sér öll stoð í aldagamalli hefð Inkanna en eru nú útfærð á nútímalegan hátt. Gestir velja mynstur, raða þeim saman og vefa í sameiningu óendalega langan trefil eða teppi sem fléttast um sýningarrýmið. Þannig verða gestir meðhöfundar þessarar síbreytilegu sýningar.
Fyrirtækið Gagarín sérhæfir sig á sviði stafrænnar hönnunar og framleiðslu gagnvirkra sýninga. Meðal sýninga sem Gagarín hefur komið að hér á landi eru Lava eldfjalla- og jarðskjálftasetur á Hvolsvelli, Eldheimar í Vestmannaeyjum, Hvalasafnið, Landnámssýningin Aðalstræti, Gestastofa Landsvirkjunar í Ljósafossstöð og Hljómahöllin í Reykjanesbæ.
Nánar um verkefnið hér
Þitt nafn bjargar lífi
Kontor Reykjavík hlaut tvær tilnefningar til ADC*E verðlaunanna í óhagnaðardrifnum flokkunum prent- og umhverfisauglýsingar og Integration & Innovation. Tilnefningarnar voru veittar fyrir verkefnið „Þitt nafn bjargar lífi“ sem var unnið fyrir Amnesty International. Hönnuðir verksins eru Elsa Nielsen, Alex Jónsson, Ástrós L. Ásmundsdóttir og Sigrún Gylfadóttir.
Verkefnið er stærsta árlega mannréttindaherferð í heimi. Hún hófst með óræðnum gulum „teaser“ auglýsingum. Gagnvirk innsetning var sett upp í Hörpu og síðar í Kringlunni. Í kjölfarið voru birtir gagnvirkir vefborðar þar sem undirskrift gat komið í veg fyrir mannréttindabrot. Kvikmyndaðar auglýsingar voru sýndar víða; í sjónvarpi, á samfélagsmiðlum, í kvikmyndahúsum og í skólum. Merktur strætisvagn keyrði um með undirskriftum sem höfðu safnast og vakti þannig mikla athygli á herferðinni.
Nánar um verkefnið hér
Vatn er verðmætt — Förum vel með það
Hvíta húsið hlaut tilnefningu til ADC*E verðlaunanna í flokki prentauglýsinga. Hönnuðurinn er Stefán Einarsson.
Verkefnið er vitundarvakning sem beint er til allra Íslendinga. Okkur var bent á að vatnið okkar er verðmæt auðlind sem okkur ber að verja og fara vel með. Í tilefni af alþjóðlegum degi vatnsins vöktu Veitur ohf. athygli á þessum forréttindum sem Íslendingum hættir til að taka sem sjálfsögðum hlut, en eru sannarlega ómetanleg lífsgæði.
Nánar um verkefnið hér
Hægt er að skoða öll verkefni sem hlutu tilnefningar eða verðlaun á hátíðinni í ár á verðlaunavef ADC*E