Gerður Jónsdóttir ráðin verkefnastjóri Feneyjatvíæringsins í arkitektúr
Gerður Jónsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri þátttöku Íslands í Feneyjatvíæringnum í arkitektúr. Ísland tekur þátt í Tvíæringnum í fyrsta sinn með opnu kalli vorið 2025 en það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem hefur umsjón með verkefninu.
Gerður hefur síðastliðin sjö ár starfað sem framkvæmdastjóri Arkitektafélags Íslands en þar áður starfaði hún á RÚV við kynningarmál, verkefnastjórn og dagskrárgerð. Gerður hefur yfirgripsmikla reynslu af stjórnun stórra verkefna en samhliða starfi sínu sem framkvæmdastjóri Arkitektafélags Íslands hefur hún m.a. verkefnastýrt verkefnunum Vegrún og Nordic Design in Nordic Nature fyrir Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
,,Ég er spennt og þakklát að taka þátt í þessu mikilvæga og stóra verkefni fyrir Ísland. Síðastliðin sjö ár hef ég öðlast dýrmæta reynslu í starfi mínu hjá Arkitektafélagi Íslands og fylgst með þeirri grósku sem einkennir hið byggða umhverfi hérlendis sem erlendis. Íslenskur arkitektúr og íslenskt hugvit á svo sannarlega erindi út í hinn stóra heim sem er nú að takast á við áskoranir í umhverfismálum. Ég hlakka til og tek stolt þátt í því að miðla hugviti íslenskra arkitekta á erlendri grundu.“ Gerður Jónsdóttir
Feneyjatvíæringurinn í arkitektúr fer fram í 19. sinn dagana 10. maí - 23. nóvember 2025, með foropnun 8. - 9. aí. Tvíæringurinn gegnir lykilhlutverki við að móta og dýpka umræðu um arkitektúr um allan heim og þar koma saman lykilaðilar sem vinna að lausnum á brýnustu áskorunum samtímans – hvernig við byggjum og þróum samfélög á sjálfbæran hátt.
„Það er frábært að Gerður bætist við í öflugan hóp starfsmanna Miðstöðvarinnar. Hún hefur mikla og verðmæta reynslu að leiða stór og flókin verkefni, mikla innsýn og þekkingu á íslenskum arkitektúr og hefur unnið fyrir Miðstöðina í verkefnum áður. Að Ísland fái nú tækifæri til að taka þátt í Feneyjartvíæringnum í arkitektúr er einstakt tækifæri og mikilvægt að öflugt teymi standi að því. Gerður mun einnig vinna að öðrum verkefnum einkum þeim sem snúa að hinu byggða umhverfi. Við fögnum því að Gerður verði hluti af okkar teymi!“
Halla Helgadóttir, framkvæmdastjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs
Umsóknarferli sýningu Íslands á Tvíæringinn er lokið en á næstunni verður tilkynnt hvaða verkefni verður framlag Íslands í Feneyjum vorið 2025.
Yfirskrift tvíæringsins 2025 er Intelligens. Natural. Artificial. Collective og með sýningarstjórn fer arkitektinn og verkfræðingurinn Carlo Ratti.