Gísli B. Björnsson hlýtur heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands 2024
Heiðursverðlaunahafi Hönnunarverðlauna Íslands 2024 er Gísli B. Björnsson fyrir framlag sitt til grafískrar hönnunar.
Rökstuðningur dómnefndar:
Gísli B. Björnsson hefur tryggt sér sess sem einn áhrifamesti grafíski hönnuður okkar Íslendinga síðustu áratugi, ekki aðeins með þeim fjölda þekktra verka sem hann hefur skilað af sér yfir starfsferilinn, heldur einnig með framlagi sínu til kennslu í faginu. Gísli kenndi auglýsingateikningu og grafíska hönnun í 50 ár, fyrst í Myndlista- og handíðaskólanum (MHÍ) og síðar í Listaháskóla Íslands. Árið 1962 stofnaði Gísli auglýsingadeild MHÍ og sinnti þar starfi deildarstjóra í alls 21 ár og árin 1973-1975 var hann skólastjóri MHÍ. Með kennslunni hefur Gísli miðlað þekkingu sinni til margra kynslóða grafískra hönnuða og þannig lagt verulegan skerf til greinarinnar hér á landi.
Verkin sem Gísli hefur fengist við eru margskonar, en merkjahönnun verður að teljast það form sem hann hefur náð mestu valdi á. Merki er lítið í formi sínu, en það þarf að geta borið mikla merkingu. Meðal verka Gísla eru merki Ríkisútvarpsins, hannað í samstarfi við Hilmar Sigurðsson, Listasafns ASÍ, Norræna félagsins, SÍBS, Hótels Holts, Hjartaverndar, Hjálparstarfs kirkjunnar, BHM, Iceland Review, Múlalundar, Landbúnaðarháskóla Íslands og svo mætti lengi áfram telja. Mörg þessara merkja lifa enn góðu lífi þó að þau séu áratuga gömul.
Auk þessa hefur Gísli haldið utan um merkjasögu Íslands, annarsvegar sitt eigið efni og hinsvegar um þróun og breytingar á merkjum eftir aðra hönnuði.
Á þessum tíma hefur fagið gengið í gegnum gífurlegar breytingar í prenttækni, tölvuvæðingu og markaðsmálum. En grunngildi Gísla hafa staðist tímans tönn vel. Hann hefur alla tíð haft skýra fagurfræðilega sýn, hann er vandvirkur, óhræddur við uppbyggilega gagnrýni, ekki síst á eigin störf, hefur mikla teiknihæfileika og djúpa þekkingu sem hann hefur miðlað í kennslu.
Gísli er fæddur árið 1938. Áhugi hans á listum sprettur upp úr umhverfi hans, en afi hans var Baldvin Björnsson (1879-1945) gullsmiður og myndlistarmaður og föðurbróðir hans var Björn Th. Björnsson (1922 - 2007) listfræðingur. Þessir menn höfðu mikil áhrif á Gísla í æsku.
Sautján ára hóf Gísli nám í hagnýtri myndlist við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hér kom frumkvöðulseðli hans fljótlega fram, en námið var svo að segja sniðið sérstaklega að honum. Ári seinna hélt hann til Þýskalands í framhaldsnám við Staatliche Akademie der Bildenden Künste í Stuttgart. Frá því að hann sneri heim úr námi 1961 hefur hann unnið ötullega að framgangi fagsins. Sama ár og hann kom heim stofnaði hann Auglýsingastofuna hf. og rak til 1965 en þá stofnaði hann GBB auglýsingastofuna sem hann stýrði til 1989.
Gísli B. Björnsson er einn áhrifamesti grafíski hönnuður okkar Íslendinga. Ævistarf hans er mjög yfirgripsmikið, sem hönnuður, myndlistamaður, frumkvöðull í fyrirtækjarekstri og kennari margra kynslóða fagmanna í grafískri hönnun. Gísli skilur eftir sig merkilegt ævistarf sem um þessar mundir er verið að skrásetja á Hönnunarsafni Íslands þar sem verk hans munu eflaust veita öðrum innblástur um ókomna tíð.
Hönnunarverðlaun Íslands voru veitt við hátíðlega athöfn í Grósku 7. nóvember og er þetta ellefta árið í röð sem verðlaunin eru veitt. Það var ráðherra menningar og viðskipa, Lilja D. Alfreðsdóttir, sem veitti Gísla verðlaunin.
Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands voru veitt í fyrsta skiptið árið 2019 og er viðurkenning veitt einstaklingi sem hefur náð einstökum árangri í starfi, verið mjög áhrifamikill á sínu fagsviði eða hefur skilað framúrskarandi ævistarfi á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi.
Hönnunarverðlaun Íslands eru unnin af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Vísindagarða Háskóla Íslands og Grósku.