Grímur James Merry eru tilnefndar til Hönnunarverðlauna Íslands 2024
Grímur eftir hönnuðinn og listamanninn James Merry eru tilnefndar sem verk ársins á Hönnunarverðlaununum 2024. Verðlaunin fara fram í Grósku 7. nóvember.
Rökstuðningur dómnefndar:
Grímur James Merry eru fallegt dæmi um verk sem eiga uppruna sinn í ævagömlu útsaumshandverki og fela í sér djúpa og marglaga fegurð.
Grímur hafa gegnt mikilvægu hlutverki í menningarsögunni, rétt eins og útsaumurinn. Þær hafa verið notaðar til þess að aðgreina listamanninn frá viðfangsefninu, eða leikarann frá hinu leikna. Það er því viðeigandi að grímur James Merry hafi fundið sér hlutverk sín í samstarfi við fjölda annara listamanna. Sem verk eru grímurnar heillandi handverk sem ofið er úr mörgum þráðum menningar og sögu. Í grímunum er að finna dulúð og galdur margra heima, heima skáldskapar og ævintýra, sem tala til ásjáenda.
James Merry hefur þróað spennandi efnisheim grímanna og unnið með margvíslegar gerðir efnis og möguleika þeirra, þar á meðal málma, sílikon og þrívíddarplast. Nýjasti kaflinn í sögunni er síðan stafrænn, sem eykur enn á margræðni verkanna. Þar dregur Merry sköpunarverk sitt inn í nýtt samhengi stafrænnar tísku og gerir heim grímanna aðgengilegri almenningi.
Um:
Hönnuðurinn og listamaðurinn James Merry er frá Bretlandi en búsettur hér á landi þar sem hann hefur unnið með tónlistarkonunni Björk frá árinu 2009. Sem samstarfsaðili og einn af listrænum stjórnendum á sjónrænu efni Bjarkar.
Hann er hvað þekktastur fyrir framúrskarandi handbragð í handavinnu og grímugerð þar sem hann hefur unnið fyrir og með stofnunum á borð við V&A, Gucci, The Royal School of Needlework, Tim Walker, Tilda Swinton og Iris Van Herpen.
Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2024 fer fram í Grósku þann 7. nóvember næstkomandi ásamt samtali því tengdu. Taktu daginn frá!
Fylgstu með næstu daga er við tilkynnum tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands 2024.
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Verðlaunaflokkum var fjölgað í þrjá í fyrra undir heitunum Verk // Staður // Vara.
Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2024 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Vísindagarða Háskóla Íslands og Grósku.