Guðjón Ingi Eggertsson, fyrrv. formaður FÍT er látinn
Guðjón Ingi var fæddur 1946.
Hann hóf nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1964 og lauk brottfararpróf úr Auglýsingadeild skólans 1968.
Stundaði framhaldsnám í grafískri formgjöf við Konstindustriskolan í Gautaborg 1969–1970.
Guðjón réðst strax eftir nám 1970 til Auglýsingastofunnar hf. Gísli B. Björnsson og var meðeigandi stofunnar frá 1973.
Vann þar lengst sem teiknistofustjóri, art director. Guðjón var einn rekstraraðila auglýsingastofunnar frá 1979 ásamt Halldóri Guðmundssyni, Hauki Haraldssyni og síðar einnig Gunnari Steini Pálssyni. Stofan skipti um nafn í framhaldinu og tók upp nafnið Hvíta húsið og varð ein stærsta auglýsingastofa landsins og starfar enn. G.E. vann við Hvíta húsið til ársins 1994 og hóf þá rekstur eigin vinnustofu sem hann vann við þar til hann lét af störfum vegna heilsubrests.
G.E. sat í stjórn FÍT, Félags íslenskra teiknara í 6 ár, þar af formaður félagsins 1974–1975.
Meðeigandi og í stjórn kvikmyndagerðarinnar Sýnar og stjórnarformaður félagsins um árabil.
Vinna og verk G.E. þóttu bera sterk höfundareinkenni og bera vott um ríka tilfinningu fyrir listrænni og hreinni formgjöf hverskonar. Bjó jafnframt yfir sérstakri hæfni og þekkingu í leturmeðferð ásamt útliti og umbroti bóka og prentgagna. Eftir Guðjón Inga liggur fjöldi verka í grafískri hönnun og vann hann á því sviði ýmis þekkt stórverkefni síns tíma, m.a. Kortasögu Íslands, sem Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins gaf út og útlit og formgjöf hins mikla ritverks Guðmundar Páls Ólafssonar líffræðings, sem birtist í fjölda bóka um undur í náttúru Íslands.
Guðjón Ingi Eggertsson lést 22. apríl s.l.