Halldór Eldjárn flytur inn í Gryfjuna í Ásmundarsal með Plöntugarðinn
Halldór Eldjárn kemur sér fyrir í Gryfjunni í Ásmundarsal á laugardaginn með Plöntugarðinn, vél sem hagar sér eins og hengiplanta. Sýningin verður á HönnunarMars en um er að ræða sýningu sem er á mörkum listar, tækni og hönnunar.
Halldór kynnir til leiks vél, sem hegðar sér og vex eins og hengiplanta. Hún er útbúin strimlaprentara og ljósnema, gengur fyrir rafmagni og er stjórnað af ljósi. Á hverjum degi prentast nokkrir sentimetrar af plöntunni á strimilinn, löturhægt. Fjöldi laufblaða er háður ljósmagni. Plöntur ljóstillífa og dafna ef þær fá koltvísýring, vatn, næringu og sólarljós. Pottaplanta sem höfð er inni á heimili þarfnast stöðugs aðhalds. Aðgæta þarf að moldin sé nógu næringarrík, að hún sé vökvuð á réttum tíma (ekki of oft, ekki of sjaldan). Þá þarf plantan að geta baðað sig í sólinni endrum og eins svo að líffræðilegt kerfi hennar haldist í réttu jafnvægi.
Fallegar pottaplöntur vinna sér stað í hjartanu með tímanum. Þær eru langtímaverkefni. Planta verður ekki ræktuð upp á einum degi heldur liggja margar vikur og mánuðir að baki fallegri og vel hirtri pottaplöntu. Núvitundargildi pottaplöntunnar er mikið, því hægt að njóta augnablikanna sem fara í að hugsa um hana og hirða. Á sama tíma er plantan í sífellu að minna á hverfulleika lífsins og tímans. Hægt og rólega stækkar plantan og breiðir úr sér, greinar tvístra og rótarskot myndast. Plantan er hluti af okkar líffræðilegu klukku.
Vélin er útbúin örtölvu, strimlaprentara og ljósnema, en í stað þess að þarfnast aðhalds, vökvunar og moldar gengur hún fyrir rafmagni og er stjórnað af ljósi. Á hverjum degi prentast nokkrir sentimetrar af plöntunni á strimilinn, löturhægt. Fjöldi laufblaða hverju sinni er háður ljósmagni því sem skín á vélina. Milli daga er því hægt að sjá á plöntustrimlinum hvernig birtuskilyrðin hafa verið. Plöntuprentarinn hjálpar að skynja tímann í stærri stökkum en klukkustundum, en skrásetur um leið framvindu lífs og ljósaskipta. Hún hjálpar að skynja hvernig dagar og vikur líða.
Margir prentarar sem raðast saman í klasa. Vaxa meðfram veggjum, niður úr lofti, niður á gólf. Pappír flæðir um rýmið. Garðyrkjumaður gengur reglulega um rými og klippir neðan af strimlunum ef þeir verða of langir. Afskurðurinn má hver sem er taka með sér sem minjagrip. Plönturnar sýna líffræðilegan fjölbreytileika og eru af mismunandi tegundum. Sumar hafa laufblöð, aðrar eins og flækti þræðir sem flæða um pappírinn, enn aðrar með ný og óvenjuleg laufblaðaform. Yfir sýningartímann eru allir prentararnir í gangi og fanga þar með framvindu sýningarinnar. Tímabilið hefst með stuttum pappírsstrimlum og endar með pappírsflóði.
Sem fyrr segir opnar sýningin núna á laugardaginn, 20 febrúar kl. 15 í Ásmundasal og verður yfir HönnunarMars.
Sjá viðburðinn á Facebook hér.