Hátíð í bæ hjá hönnuðum um helgina
Nú er desember genginn í garð í allri sinni dýrð og aðventan framundan með fjölda viðburða fyrir öll. Nú um helgina fara fram ýmsir hönnunartengdir viðburðir sem vert er að gefa gaum. Hér er yfirlit yfir hönnunartengda viðburðadagskrá helgarinnar.
Rammagerðin heldur Hönnunarhappdrætti
Rammagerðin býður í Hönnunarhappdrætti í tilefni tveggja ára afmæli verslunarinnar í Hörpu laugardaginn 2. desember frá 16:00-19:00. DJ Dóra Júlía heldur uppi stuðinu ásamt skemmtilegum gestum, höfundum Frasabókarinnar, Emmsjé Gauta og Berglindi Festival sem stýrir happdrættinu.
Dagskrá:
16:30 – DJ Dóra Júlía spilar það besta úr íslenskri tónlist
17:00 – Emil Örn Aðalsteinsson og Eyþór Wöhler útgefendur Frasabókarinnar mæta á svæðið og kynna bókina
17:30 – Emmsjé Gauti kemur, tekur lagið og kynnir nýjan bol sem hann er að gefa út í samstarfi við Rammagerðina
18:00 – Berglind Festival stýrir Hönnunarhappdrætti Rammagerðarinnar. Allir sem mæta hafa kost á því að taka þátt í Hönnunarhappdrættinu. 30 veglegir vinningar í boði. Vinningar verða afhentir kl. 18:00-18:30 til þeirra sem eru á staðnum til að taka á móti sínum vinning.
Allir sem taka þátt í happdrættinu hafa kost á að versla á 15% afslætti á meðan viðburðinum stendur.
KAUPAEKKERTBÚÐIN
Eina búðin í heiminum sem selur allt! (og ekkert). Á horni Ásvalla- og Hofsvallagötu hefur opnað tímabundin jólagjörningsverslun þar sem hægt er að kaupa allt frá angórupeysum til Teslubíla. Í KAUPAEKKERTBÚÐINNI má svala kaupþorstanum og finna draumajólagjafir fyrir alla fjölskylduna – umbúðalausar, umhverfisvænar og án alls kaupviskubits.
Allar vörur eru þrykktar á pappírsblað og koma í stærðum A6 til A5. Ný og fersk leið til að halda áfram að kaupa, án þess að fylla frekar á skápa og urðunarstaði þjóðarinnar.
NÝJAR VÖRUR DAGLEGA
Opnunartímar um helgina:
Laugardag 12:00-18:00
Sunnudag 12:00-18:00
Snjókorn og stjörnur - fjölskyldusmiðja í Hönnunarsafni Íslands
Hönnunarsafn Íslands tekur þátt í Aðventuhátíð Garðabæjar með snjókorna- og stjörnusmiðju fyrir alla fjölskylduna. Ýmiskonar pappír verður notaður, allt efni á staðnum en hönnuðirnir Embla Vigfúsdóttir og Auður Ösp Guðmundsdóttir leiðbeina þátttakendum í notalegri stemningu á safninu. Hver veit nema jólasveinar reki inn nefið!
Smiðjan fer fram laugardaginn 2. desember frá 13:00-15:00 og er liður í Aðventuhátíð Garðabæjar sem fer fram á Garðatorgi 1-4, á Hönnunarsafninu, Bókasafni Garðabæjar og á Garðatorgi 7.
Apotek Atelier fagnar 2 árum
Hönnunarverslunin Apotek Atelier fagnar tveggja ára starfsemi við Laugaveg 16 laugardaginn 2 .desember kl. 14:00.
Blásið verður til veislu og boðið upp á 20% afslátt af öllum vörum ásamt léttum veitingum. Verslunin var stofnuð af þremur fatahönnuðum, Ýri Þrastardóttur, Sævari Markúsi og Halldóru Sif í lok árs 2021. Verslunin er staðsett í húsnæði gamla Reykjavíkurapótek þar sem starfrækt var Apótek í um það bil 100 ár.
DJ Dóra Júlía og DJ Mama Gunz sjá um að spila skemmtilega tónlist og fyrstu 50 kúnnarnir fá veglegan gjafapoka með vörum frá meðal annars Sóley Organics, Harklinkken, Dekra og fleirum.
Opnun jólasýningar í Ásmundarsal
Opnun Jólasýningarinnar í Ásmundarsal 2023 fer fram laugardaginn 2. desember frá kl. 14-17.
Sýningin er sölusýning með verkum eftir 32 samtímalistamenn, sem flestir hafa unnið verk sérstaklega fyrir þessa sýningu. Einnig verður gefin út bók samhliða sýningunni sem veitir innsýn inn í vinnustofur og hugarheim listamannanna sem eru með verk til sýnis.
Gryfjunni verður starfrækt Bókaverzlun þar sem áhersla verður lögð á að kynna nýjar bækur í bland við gamlar og rótgrónar bókmenntir, þeirra á meðal bókverk og bækur um myndlist. Þessi jólin eiga gestir og gangandi því eftir að geta sótt sér innblástur í bækur í Ásmundarsal og spjallað við marga fremstu rithöfunda landsins á Jólabóka-glöggi á kvöldviðburðum sem unnir eru í samstarfi við Ragnar Jónasson og Sverri Norland, og haldnir alla þriðjudaga fram að jólum frá kl. 20-22.
Hátíð í Kiosk Granda með Agustav
AGUSTAV kynnir nýjustu viðbótina hjá sér, jólastjörnuna, á sérstökum hátíðarviðburði í Kiosk Granda.
AGUSTAV er húsgagnafyrirtæki í eigu hjónanna Ágústu Magnúsdóttur og Gustavs Jóhannssonar. Með endingu að leiðarljósi hanna þau og handsmíða hvert einasta stykki sem frá þeim kemur. Heildstætt hönnunar-og framleiðsluferli þar sem form og notagildi kallast á einkennir merkið.
Jólastjarna AGUSTAV dregur hughrif sín frá jólaskrauti æsku Ágústu en hver fjölskyldumeðlimur æskuheimilis hennar, átti sitt eigið sérmerkta skraut til að hengja á tréð.
Viðburðurinn fer fram laugardaginn 2. desember frá 14:00-17:00. Léttar veitingar í boði og kaupauki frá AGUSTAV fylgir fyrstu þremur kaupum.
Opnar vinnustofur í Íshúsinu
Hönnuðir, iðn- og listamenn Íshússins við smábátahöfnina í Hafnarfirði bjóðum gestum og gangandi að kíkja í vinnustofuheimsókn og jólastemningu um helgina.
Opnunartímar um helgina:
Laugardag 13:00-17:00
Sunnudag 13:00-17:00
Margfeldið á milli
Opnun sýningar Lilýjar Erlu Adamsdóttur Margfeldið á milli fer fram laugardaginn 2. desember frá. 15:00–17:00 í Listval Gallery að Hverfisgötu 4.
Lilý Erla Adamsdóttir vinnur á mörkum myndlistar, hönnunar og listhandverks. Í verkum sínum skoðar hún handgerða endurtekningu, möguleika hennar og takmarkanir. Hvernig hið einstaka kallast á við fjöldann um leið og fjöldinn skapar einstakan samhljóm. Vinnuferli Lilýjar einkennist af stöðugu samtali við efnið, þar sem eitt leiðir af öðru. Undanfarið hefur hún nýtt sér eiginleika tufttækninnar til skoðunar á þræðinum og sjónrænna áhrifa hans, þegar kemur að samspili lita og efniseiginleika. Lilý talar ýmist um verkin sín sem loðin málverk eða dansandi útsaum.