Hljóðhimnar tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands 2022
Hljóðhimnar eftir Þykjó er tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands 2022. Verðlaunin fara fram í Grósku þann 17. nóvember.
Rökstuðningur dómnefndar:
Hljóðhimnar er heildræn og fallega útfærð hönnunarlausn þar sem útkoman er virk upplifun sem opnar á skilningarvitin í gegnum leik. Um er að ræða nýtt upplifunarrými fyrir börn og fjölskyldur í Hörpu þar sem fræðsla og hughrif koma saman. Þverfaglega teymið ÞYKJÓ leiddi hönnunarferlið á rýminu í samstarfi við Hörpu, Gagarín, Vísindasmiðjuna, IRMA, Áróru lýsingarhönnun, Reykjavík Audio, Upptekið, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Íslensku Óperuna, Maxímús Músíkús, Stórsveit Reykjavíkur og síðast en ekki síst Krakkaráð ÞYKJÓ, sem skipað er 100 börnum á aldrinum 5–7 ára.
Sköpuð er forvitnileg, litrík og hlýleg umgjörð um undraheim hljóðs og tóna sem miðar að því að vekja forvitni og veita uppljómun. Skipulag rýmisins er innblásið af eyranu og líffærafræðilegu formunum sem eru að finna í hlustinni. Hljóðhimnar eru gott dæmi þess hve veigamiklu hlutverki góð hönnun getur gegnt í kennslu í gegnum leik, og þar með kveikt neista í hugum yngri kynslóða.
Um verkefnið:
Hljóðhimnar er upplifunarrými fyrir börn og fjölskyldur á jarðhæð Hörpu - staður til að uppgötva töfraheim hljóðs og tóna. Hljóðhimnar er afmælispakki frá Hörpu og íbúum hennar til allra barna, verkefni sem unnið var á 10 ára afmælisári hússins 2021 og opnaði vorið 2022. Í rýminu er hægt að uppgötva tóna tengda íbúum Hörpu, bæði stórum og smáum, allt frá tónelsku músinni Maxímús Músíkús til Sinfóníuhljómsveitar Íslands, frá Íslensku óperunni til Stórsveitar Reykjavíkur.
Um hönnuðina:
ÞYKJÓ er hópur hönnuða með fjölbreyttan bakgrunn sem samnýta ólíka sérþekkingu í teymisvinnu sinni. Innan vébanda ÞYKJÓ eru arkitekt, fatahönnuður og klæðskeri, leikmynda- og búningahönnuður. Hópurinn vinnur einnig náið með listafólki, vísindamönnum og fræðifólki á borð við uppeldisfræðinga, líffræðinga, listfræðinga og síðast en ekki síst - með börnum.
Þykjó skipa Sigríður Sunna Reynisdóttir, búninga- og leikmyndahönnuður, Ninna Þórarinsdóttir, barnamenningarhönnuður, Erla Ólafsdóttir, arkitekt og Sigurbjörg Stefánsdóttir, klæðskeri og fatahönnuður.
Dómnefnd Hönnunarverðlauna Íslands skipa þau Sigríður Sigurjónsdóttir, hönnuður og safnstjóri Hönnunarsafns Íslands sem er formaður dómnefndar, María Kristín Jónsdóttir, hönnuður, varaformaður, Ragna Fróðadóttir, hönnuður, Þorleifur Gunnar Gíslason, hönnuður, Arna Sigríður Mathiesen, arkitekt, Margrét Kristín Sigurðardóttir fyrir Samtök Iðnaðarins og Daniel Byström, hönnuður og stofnandi Design Nation.
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda er vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast.
Hönnunarverðlaun Íslands beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.
Verðlaunaafhendingin fer fram þann 17. nóvember næstkomandi ásamt samtali tengdum verðlaununum. Þar verða veitt Hönnunarverðlaun Íslands, Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands og viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun ársins 2022. Taktu daginn frá!
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.