Hljómkassar tilnefndir til Hönnunarverðlauna Íslands 2024
Hljómkassar eftir Halldór Eldjárn og Jón Helga Hólmgeirsson eru tilnefndir í flokknum vara ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2024. Verðlaunin fara fram 7. nóvember.
Rökstuðningur dómnefndar:
Hljómkassar eru stefnuvirkir hátalarar úr íslenskum efniviði, þar sem saman fer gott handverk og hönnun sem styður við skynjun áheyrandans á öllum blæbrigðum hljóðheimsins sem hátalararnir skila. Þeir eru framúrskarandi dæmi um hvernig góð vara getur orðið til með samspili íslensks hugvits, tækni og efniviðar. Hönnuðurnir, sem jafnframt eru tónlistarmenn, hafa þekkingu og skilning á þörfum þeirra sem nota hátalarana, og það má finna í útliti, áferð og virkni Hljómkassanna. Lögun þeirra sækir innblástur í útlínur hljóðbylgja og efnisvalið tekur mið af því hvernig hljóð berst í umhverfi sínu og hvernig hljómurinn verður fyrir áhrifum af því. Útlit hátalaranna er nútímalegt og hönnunin nýtur sín í fallegri og vandaðri smíði. Hver gripur er handgerður og framleiðsla vörunnar ræðst því af eftirspurn hverju sinni. Hljómkassarnir eru unnir í samstarfi við Inorganic Audio, íslenskt hljóðtæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í hugbúnaði fyrir tónlistafólk.
Um:
Halldór Eldjárn er tónlistarmaður, tölvunarfræðingur og listamaður þvert á listgreinar. Hann hefur gefið út eigin tónlist, hugbúnað og haldið sýningar á listaverkum sem sameina hönnun og tækni.
Jón Helgi Hólmgeirsson er vöru- og samspilshönnuður, tónlistar- og listamaður. Hann hefur unnið hin virtu Red Dot verðlaun auk Hönnunarverðlauna Íslands fyrir vinnu sína hjá tónlistartæknifyrirtækinu Genki Instruments.
Verðlaunaafhending Hönnunarverðlauna Íslands 2024 fer fram í Grósku þann 7. nóvember næstkomandi ásamt samtali því tengdu. Taktu daginn frá!
Fylgstu með næstu daga er við tilkynnum tilnefningar til Hönnunarverðlauna Íslands 2024.
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Verðlaunaflokkum var fjölgað í þrjá í fyrra undir heitunum Verk // Staður // Vara.
Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2024 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Samtök iðnaðarins, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Vísindagarða Háskóla Íslands og Grósku.