HönnunarMars 2025 - sýningar sem standa lengur

Frábærum HönnunarMars er nú lokið, þeim 17. í röðinni. Á annað hundrað sýningar og viðburðir fóru fram um alla borg og Reykjavík hreinlega iðaði af lífi og sköpunarkrafti! Við erum afar stolt af framúrskarandi hönnuðum sem gera okkur kleift að halda hátíðina með hugviti og sköpunargleði.
Nokkrar sýningar standa lengur, að neðan er listi yfir þær!



Brotabrot
Á bókverkasýningunni BROTABROT er fjölbreytt úrval bókaverka sem sýna hvernig bókverk geta virkað sem vettvangur nýsköpunar í hönnun og list. Markmiðið með sýningunni er að skoða hvernig brjóta má upp hið klassíska form bókarinnar og finna nýjar leiðir til að vinna með bókina á óhefðbundinn hátt. Listamennirnir nýta sér bakgrunn sinn í hönnun, prentlist, textíl og blönduðum miðlum til að ögra hefðbundnum aðferðum, færa mörk og kanna hversu langt má ganga í að umbreyta bók þannig að hún kallist ennþá bók eða bókverk.
-stendur til 11. apríl í Pennanum Skeifunni
Fró(u)n
Hvernig tjáum við ást til jarðarinnar? Hvað myndi breytast ef við myndum hugsa um jörðina sem elskhuga og endurskoða hvernig við umgöngumst náttúruna, til að skapa nýtt samband sem byggir á ást frekar en nýtingu. Íslenskur jarðvegur er einstakur og þarfnast athugunar og með því að skapa unaðstæki úr íslenskum leir og postulíni kynna Antonía Berg og Elín Margot djörf og róttæk sjónarhorn til að endurskoða samband okkar við umhverfið.
-stendur til 12. apríl í Kiosk
Born in the Extreme
Til sýnis verða nýir skartgripir frá KATLA STUDIO sem unnir eru af skartgripahönnuðinum Kötlu Karlsdóttur í samvinnu við listakonuna og sútarann Lene Zachariassen.
Katla og Lene starfrækja báðar vinnustofur sínar í gömlu síldarverksmiðjunni á Hjalteyri og hafa báðar náttúruna að fyrirmynd í sköpun sinni og handverki.
-stendur til 12. apríl í Kiosk




The Virtual Bakery
The Virtual Bakery er hönnunarstofa sem kannar rýmið milli hins stafræna og hins áþreifanlega og skapar hluti sem eiga sér tilveru í báðum heimum. Með því að nota þrívíddarprentun umbreytir stofan stafrænum formum í áþreifanlegar sköpunarverk, sem kallar fram samtal milli ímyndunarafls og efnisleika. Margar hannanir eru í boði sem stafrænar útgáfur, sem gerir fólki kleift að prenta þær og lífga við heima hjá sér og brúar þar með bilið milli skapara og notanda.
-stendur til 12. apríl í Kiosk
Tilraunastofa ímyndunaraflsins
Skynvitund yngstu gesta Borgarbókasafnsins fær að njóta sín í nýju og endurbættu framtíðarbókasafni Reykvíkinga. Börnin stíga inn í sköpunarheim „ljóss & skugga“ á hæð sem verður alfarið tileinkuð þeim í umbreyttu bókasafni við Tryggvagötu.
-opið 12. og 13. apríl í Borgarbókasafninu Grófinni
Huggó með Aalto
Huggulegt líf heimilislína Lúka Art & Design gerir sig heimakomna í Norræna húsinu yfir hönnunarhátíðina.
Þér er boðið í huggulegt líf og litríkan heim Lúka í setustofu Alvar Aalto. Komdu og slakaðu á og fylltu skilningarvitin af ráðlögðum dagskammti af hönnun og litum.
-opið til 13. apríl í Norræna húsinu
TOBIA ZAMBOTTI™ x Polestar: Framsækin sýn fyrir sjálfbæra framtíð
Á HönnunarMars mun sýningarsalur Polestar breytast í áhrifamikla hönnunarmiðstöð þar sem framsækin verk Tobia Zambotti mæta stefnu Polestar um sjálfbæra nýsköpun.
Zambotti, innanhússhönnuður sem er þekktur fyrir djörf, nútímaleg og umhverfisvæn verk, sýnir fjögur verk: Coat-19 (með Aleksi Saastamoinen), The Fan Chair, Reel og Sea Level Rise Chair. Hvert þessara verka endurspeglar róttæka endurhugsun á efnum, úrgangi og hlutverki hönnunar í að móta sjálfbærari heim — gildi sem eiga fullkomlega vel með skuldbindingu Polestar um að vera leiðandi í umbreytingunni að hreinni samgöngum með framsækinni hönnun og nýjustu tækni.
-stendur til 16. apríl í sýningarsal Polestar




Tímanna tákn
Á sýningunni leiða saman hesta sína leturtvíeykið Or Type og myndlistarmaðurinn Pétur Geir Magnússon.
Þeir hafa að undanförnu átt í samtali um tíma og hvernig hægt sé að festa hann í efni og orð. Tíminn er fangaður, honum varið og mikið af honum er eytt. Lágmyndir Péturs mæta hér leturgerðum Or Type og úr verða listaverk og klukkur sem fjalla um og taka frá okkur tíma.
-stendur til 17. apríl í Rammagerðinni
Að lesa í hraun
Fegurð íslenskrar náttúru – snævi þaktar fjallshlíðar, mosavaxið land og víðáttumiklar hraunbreiður – hefur lengi veitt listafólki og hönnuðum innblástur. Þessi kröftugu einkenni landslagsins mynda sameiginlegan snertiflöt í samstarfi Lilý Erlu Adamsdóttur og Thoru Finnsdóttur. Samvinna þeirra, sem er í sífelldri þróun, er nú sýnd í fyrsta sinn á HönnunarMars í Listval Gallerí.
-stendur til 19. apríl í Listval
Ljóstillífun
Hvernig mótar hljóð rými? Hvernig hefur ljós áhrif á líðan? Í verkum Bryndísar Bolladóttur renna þessi grundvallarþættir saman í upplifun sem umbreytir rýminu og dregur fram ósýnileg tengsl á milli efnis, umhverfis og skynjunar.
Sýningin Ljóstillífun er uppskeruhátíð mikillar þróunarvinnu sem byggir á rannsóknum Bryndísar á hljóðvist og upplifun rýma. Hún vinnur með arkitektúr sem lífrænt kerfi þar sem samspil ljóss og hljóðs ræður för. Í verkunum endurspeglast áhersla á vellíðan – hvernig rými getur bætt líðan okkar, dregið úr áreiti og skapað jafnvægi.
-stendur til 24. apríl í Ásmundarsal
Dýpi
Í Ásmundarsal sýnir Dýpi nýja hafmálningu úr íslenskum kalkþörungum. Í dýpi Arnarfjarðar leynist hulinn heimur kalkþörunga sem hafa heilnæma og hreinsandi eiginleika sem þær Sirrý og Arný hafa á síðustu tveimur árum unnið að nýta í nýja vöruþróun; Dýpi - Hafmálning sem hefur hátt PH gildi sem kemur í veg fyrir myglu og bakteríuvöxt.
-stendur til 24. apríl Ásmundarsal




Þórunn Árnadóttir - vöruhönnuður í vinnustofudvöl
Þórunn er knúin áfram af forvitni, tilraunagleði og áhuga á ólíkum menningarheimum, efnum og framleiðsluferlum. Hún horfir á hlutina upp á nýtt. Kerti er ekki bara kerti samanber PyroPet kertin sem hún hefur hannað og klukka er ekki bara klukka samanber Sasa klukkuna sem mælir tíma í perlum. Þórunn er yfirhönnuður og stofnandi fyrirtækisins 54°Celsius ásamt Dan Koval.
-stendur til 27. apríl í Hönnunarsafni Íslands
Hagvextir og saga þjóðar
Sýning um þjóðhagfræðileg gögn og sögu íslensku þjóðarinnar sem miðlað er með þrívíðum og tvívíðum hætti. Markmið sýningarinnar er að kanna tengsl almennings við mælikvarða og gögn með þrívíðri og/eða efnisbundinni miðlun.
-stendur til 3. maí í Gallery Port
Unndór Egill Jónsson
Unndór Egill Jónsson er myndlistarmaður sem skapar einstök húsgögn úr íslensku birki þar sem náttúrulegum og geómetrískum formum er teflt saman. Hugmyndafræðin á bak við verkin snýst um að blanda saman þessum andstæðu formum á þann hátt að þau styðji hvort annað og gefi tilfinningu fyrir einingu. Handverkið leikur lykilhlutverk í að samruninn heppnist og til að undirstrika það hefur Unndór sett verkstæðið sitt upp á safninu.
-stendur til 18. maí í Hönnunarsafni Íslands
David Taylor: AT HAKK
David Taylor er skoskur hönnuður og silfursmiður sem starfað hefur um áratugabil í Svíþjóð. Hann er þekktur fyrir frjálslega meðhöndlun óhefðbundinna efna og iðnaðarúrgangs sem alla jafna er í hrópandi andstöðu við fíngerða og nákvæma smíði gripa úr dýrari málmum. Ferill hans hefur í áranna rás þróast samhliða rannsóknum á þessum efnum og formum þar sem fáguð vinnubrögð silfursmíðinnar fléttast saman við hráleika margs konar iðnaðarmálma.
-stendur til 30. maí í Hakk Gallery



Frjóvgun
Á HönnunarMars mun Fischersund ilmgerð frumsýna nýja ilmvatnsflösku, hannaða af Ingibjörg Birgisdóttur samhliða því að kynna til leiks fyrsta ilminn úr Faux Flora seríunni Faux Flora no.1.
-stendur til 31. maí í Fischersundi
Þraut - leiðin frá gæru til vöru
Sýningin Þraut veitir innsýn inn í hönnun og framleiðslu á vörum úr íslensku lambaskinni. Náttúrulegt form lambaskinnsins krefur hönnuðinn um að sjá takmarkanir sem tækifæri til að skapa eitthvað einstakt. Sýningin, sem er til húsa í verslun Felds Verkstæðis, gefur neytendum tækifæri til að skyggnast inn í ferlið – allt frá hráefni til fullunninnar vöru – og upplifa þær þrautir og áskoranir sem fylgja þessari löngu vegferð.
-stendur til 3. ágúst í Feldi verkstæði
Skáldað landslag
Verkefnið sprettur upp úr tilraunum við að kanna nýjar leiðir til að teikna form og hluti utan hefðbundinna hönnunarforrita. Einkum er notast við forrit sem aðallega er notað við sköpun avatara fyrir tölvuleiki. Forritið gerir kleift að vinna með form í tölvunni líkt og að móta í mjúkan leir. Þessar tilraunir hafa orðið að stíl sem Brynjar kallar Animated Geology sem mætti þýða sem „Skáldað Landslag“. Hann hefur nú þegar hannað postulínsvasa fyrir Galerie Kreo í París með þessari aðferð en hér beitir hann aðferðinni til að gera lágmyndir í við.
-stendur til 31. ágúst í Hönnunarsafni Íslands