HönnunarMars er handan við hornið!

Vorboðinn ljúfi, skemmtilegasta hátíð ársins og uppskera íslenskrar hönnunar er framundan en HönnunarMars fer fram dagana 2. – 5. apríl nk. Íslensk hönnun í sinni fjölbreyttustu mynd á sviðið venju samkvæmt en viðburðir og sýningar eru á annað hundrað þetta árið og þátttakendur enn fleiri. Arkitektúr, skargripir, tíska, vöruhönnun, upplifanir og fjölmargt fleira verður á boðstólum víða um stórhöfuðborgarsvæðið þó langstærstur hluti dagskrár sé í miðborg Reykjavíkur.
Innblástur, sköpun og takmarkalaus gleði
„HönnunarMars er nú haldinn í 17. sinn og eins og venjulega springur dagskráin út í sköpunargleði og takmarkalausri list og hönnun. Hönnuðir landsins opna upp á gátt fyrir almenning að koma, sjá og upplifa. Við getum ekki beðið eftir því að taka á móti ykkur og fagna íslenskri hönnun,“ segir Helga Ólafsdóttir stjórnandi HönnunarMars.
HönnunarMars er ekkert án hönnuða en óhætt er að segja að skapandi greinar á Íslandi iði af krafti og hugmyndaauðgi. „Við sem undirbúum HönnunarMars erum afar þakklát fyrir frábært samstarf við hönnuði landsins sem búa til þessa árlegu hátíð með okkur. Það er okkar von að HönnunarMars veiti fólki innblástur, gleði og verði í alla staði hrikalega skemmtilegur bæði fyrir gesti og aðstandendur,“ segir Helga.
Dagskrá HönnunarMars í heild sinni.
Tryggðu þér miða á DesignTalks
DesignTalks er á sínum stað einsog fyrri ár. „Í ár er fókusinn á það hvernig hugmyndir verða til. Brjálæðislega fært fólk af sínum sviðum tekur yfir Hörpu og segir frá sköpunarferli og hvernig við leitum aftur og aftur í uppsprettu hugmynda. Við heyrum m.a. frá hjónunum í Farmers Market, Bergþóru og Jóel, sem eiga 20 ára hönnunarafmæli og hafa sannarlega spennandi og glæsilega sögu að segja og Ferdinando Verderi sem er leiðandi rödd í alþjóðlega auglýsingabransanum en vinnur nú hjá ítalska Vogue,“ segir Hlín Helga Guðlaugsdóttir listrænn stjórnandi DesignTalks. Enn eru nokkrir lausir miðar á viðburðinn á Tix.
Þér er boðið í partí!
Opnunarhátíð HönnunarMars er fimmtudaginn 3. apríl kl. 17 í Listasafni Reykjavíkur. Taktu tímann frá, við hlökkum til að sjá þig!
Á Instagram síðu HönnunarMars er hægt að fylgjast með aðdraganda hátíðarinnar og hátíðinni sjálfri en einnig sjá viðtöl við fjölmarga hæfileikaríka hönnuði sem taka þátt. Fylgið okkur á Instagram!

