HönnunarMars fyrir upplifun og innblástur
HönnunarMars er rétt handan við hornið en hátíðin fer fram dagana 3. til 7. maí nk. og breiðir úr sér um alla borg. Rúmlega 100 sýningar og 120 viðburðir eru á dagskrá í ár og því ættu öll að finna eitthvað við sitt hæfi.
Hér að neðan höfum við tekið saman lista yfir viðburði og sýningar sem höfða sérstaklega vel til þeirra sem eru í leit að innblæstri og upplifun.
SPJARA tískuþerapía
Hugtakið retail therapy vísar í það þegar fólk reynir að stjórna líðan sinni með því að kaupa sér eitthvað. En hvaða tilfinningaástand er það sem fólk vill upplifa með neyslu nýrrar tískuvöru? Er hægt að framkalla það ástand án þess að ganga á auðlindir jarðar? Fataleigan Spjara stendur fyrir upplifunarviðburði sem ætlað er að veita sama tilfinningaástand og þegar fólk kaupir sér föt. Viðburðurinn fer fram laugardaginn 6. maí frá kl. 13 - 17 í húsi Aton.JL í Tryggvagötu.
Around the touch
Snerting er svo eðlileg að oft er litið framhjá henni, þar til hana vantar. Around the Touch er fædd út frá þrá eftir snertingu. Verkið býður þér að upplifa meðvitaða snertingu. Í miðju þess er gagnvirk uppsetning sem lifnar við þökk sé nálægð tveggja manneskja. Sýningin er haldin í Slökkvistöðinni á Gufunesi.
DesignTalks
HönnunarMars hefst á alþjóðlegu ráðstefnunni og lykilviðburðinum DesignTalks. Í ár leitast DesignTalks 2023 við að svara spurningunni Hvað nú? með áhrifamiklum erindum frá fjölbreyttum hópi hönnuða, arkitekta og listamanna sem nálgast núið og framtíðina á skapandi hátt. Ekki missa af skemmtilegasta hönnunarviðburði ársins, uppfullum af innblæstri og skapandi hugsun.
computeroom
Salóme Hollanders á í samtali við tölvuna sína og í sameiningu reyna tölvan og hönnuðurinn að skapa hið fullkomna rými. Hvaða hugsjón hefur tölvan um það rými sem hún lifir í? Hvernig lítur það rými út og hvaða hluti er þar að finna? Sýningin fer fram í Megni, Óðinsgötu.
Korter í Fimm
Allir út! Fischersund kynnir nýjan ilm, innblásinn af augnabliki ringulreiðar og gleði sem á sér stað þegar þú gengur út af myrkum sveittum bar út í ferskan og bjartan sumarmorgun. Taktu forskot á sæluna og upplifðu bjartar sumarnætur og andartakið þegar niðdimm ringulreið blandast seigfljótandi út í glænýjan morgun.
WIP – WORLD IN PROGRESS : The premise of a Dialogue Manifesto
Stafrænt listaverk sem verður varpað á vesturhlið Ráðhússins í Reykjavík fimmtudaginn 4. maí og föstudaginn 5. maí á milli kl. 20 og 23. Karl Kvaran kannar ólíka notun, sögu og möguleika landakortsins. Í verkinu er heimurinn endurhugsaður sem ein sameiginleg búseta, þar sem hugmyndin um tengsl er kynnt sem grundvallaratriði í samfélögum um allan heim.
Legg í lófa
Textílfélagið heldur sýning fyrir fólk til að svala forvitninni. Tuttugu og þrjú ör-handverk verða afhjúpuð í Hörpu í maí. Þeim er komið fyrir í litlu rými á hjólum, sem er rúmlega einn rúmmeter að stærð. Hægt er að fylgjast með verkunum í gegnum lítil göt á rýminu.