„Hönnunarverðlaunin eru mjög mikilvæg viðurkenning á okkar vinnu og staðfesting að við séum á réttri leið“
Nú líður að hinum árlegu Hönnunarverðlaunum Íslands 2019 en frestur til að senda inn ábendingar rennur útá miðnætti þann 11. september næstkomandi.
Að því tilefni tókum við þau Hrólf Karl Cela, Marcos Zotes og Sigríði Sigþórsdóttir hjá Basalt arkitektum sem hlutu Hönnunarverðlaun Íslands 2018 fyrir arkitektúr í íslenskri baðmenningu tali. Bæði til að forvitnast um hvaða þýðingu verðlaunin hafa haft fyrir þau sem og hvaða verkefni þau eru að vinna að þessa dagana.
Hvaða þýðingu hafa Hönnunarverðlaun Íslands haft fyrir ykkur og hversu mikilvæg eru verðlaun á borð við Hönnunarverðlaunin fyrir hönnunarsamfélagið hér á landi?
Hönnunarverðlaunin eru mjög mikilvæg fyrir okkur sem viðurkenning á vinnu okkar og staðfesting á því að við séum á réttri leið. Þau eru jafnframt mikilvæg fyrir viðskiptavini okkar, samstarfs- og framkvæmdaraðila, en verk arkitekta verða auðvitað til við samvinnu margra. Verðlaun af þessu tagi eru einnig verðmæt kynning fyrir alla hlutaðeigandi og virka hvetjandi fyrir verkkaupa, bæði okkar og aðra, til að leggja metnað í hönnun í verkefnum sínum. Hér ber að geta þess að verkkaupar Basalt, Bláa Lónið og Lava Centre, hafa einnig hlotið Hönnunarverðlaun Íslands fyrir „bestu fjárfestingu í hönnun“ síðastliðin tvö ár, en þau verðlaun eru ekki síður mikilvæg til að auka veg arkitektúr og hönnunar hjá uppbyggingaraðilum og fjárfestum.
Nú hafið þið verið að fá alþjóðlegar viðurkenningar fyrir ykkar verk, hafa þær opnað einhverjar dyr fyrir ykkur og skipt máli í komandi verkefnum?
Vafalaust hjálpa þær til og hafa opnað dyr fyrir okkur. Með verðlaunum kemur kynning og í þessum vel tengda heimi sem við búum í er það mikils virði. Þau eru jafnframt eins og áður segir viss staðfesting á gæðum verka. Nú á næstunni gefst okkur tækifæri til að kynna verk Basalt í Evrópu og Bandaríkjunum, við sjáum svo hvert þetta leiðir, aldrei að vita hvað gerist. Við sjáum einnig að fleiri þekkja til okkar innan fagsins en við fáum atvinnuumsóknir á hverjum degi frá öllum hornum heimsins.
Hvaða spennandi verkefni eru á teikniborðinu ykkar núna?
Við erum að vinna að fjölbreyttum verkefnum sem stendur, t.a.m. í heilbrigðisgeiranum þar sem við erum að vinna að Meðferðarkjarna Landsspítalans sem hluti af Corpus teyminu, einnig erum við að hefja hönnun á hjúkrunarheimili á Höfn í Hornafirði eftir samkeppni sem við unnum um það. Við erum líka að vinna að fleiri baðtengdum verkefnum, t.d. Fjallaböðum í Þjórsárdal og endurgerð Jarðbaðanna á Mývatni. Við erum einnig að fást við hönnun á einbýlishúsum, fjölbýlishúsum og svokölluðu Co-Living/Co-Working verkefni, C40, þar sem vistvænar áherslur eru í öndvegi. Nýlega var lokið við byggingu tveggja bað-verkefna, Guðlaugar á Akranesi og Vök Baths við Urriðavatn en nú eru í byggingu Waldorf skóli við Sóltún, endurgerð Óðinstorgs og 140 íbúðir á Nónhæð og ýmislegt annað skemmtilegt er í farvatninu.
Við mælum með að fylgjast með Basalt arkitektum á samfélagsmiðlum, Facebook og Instagram, til að fá gleggri innsýn inn í þeirra vinnu.
Leitin að framúrskarandi verkum á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi er hafin fyrir Hönnunarverðlaun Íslands 2019 og Hönnunarmiðstöð óskar eftir ábendingum en hægt er að benda á eigin verk eða verk annarra til miðnættis miðvikudaginn 11. september 2019.
Hægt er að benda á verk í tveimur flokkum; Hönnun ársins 2019 og Besta fjárfesting ársins 2019 í hönnun. Vinningshafar geta komið úr öllum greinum hönnunar en þurfa að skara verulega fram úr með verkefni sínu eða vinnu.
Nánari upplýsingar hér.
Verðlaunaafhending og málþing þeim tengt fer svo fram 1. nóvember 2019. Taktu daginn frá!