Húsnæðiskostur & híbýlaauður hlýtur styrk úr Minningarsjóðnum
Fimmtudaginn 30. september 2021 úthlutaði stjórn Minningarsjóðs Guðjóns Samúelssonar styrk úr sjóðnum. Alls bárust tólf umsóknir um styrkinn en eftir yfirlegu stjórnar sjóðsins var ákveðið veita verkefninu Húsnæðiskostur & hýbílaauður styrkinn. Á bak við verkefnið standa Anna María Bogadóttir, arkitekt og menningarfræðingur; Hildur Gunnarsdóttir, arkitekt; Ásgeir Brynjar Torfason, viðskiptafræðingur; Hrefna Björg Þorsteinsdóttir, arkitekt; Hólmfríður Jónsdóttir, arkitekt og Snæfríð Þorsteins, hönnuður.
Veittur er styrkur til útgáfu bókar og miðlun rannsókna á sviði húsnæðismála frá sjónarhóli arkitektúrs og hönnunar. Í bókinni er þróun húsnæðiskosta á Íslandi spegluð í alþjóðlegu samhengi hugmynda-, félags- og fagurfræði sem og hagrænna þátta og verður lögð áhersla á gæði húsnæðis og áhrif þeirra á heilsu og upplifunar fólks. Markmiðið með útgáfunni er að er að brýna rödd og þekkingu fag-og fræðafólks á sviði hönnunar og arkitektúrs til áhrifa á sviði húsnæðismála.
Minningarsjóður Guðjóns Samúelssonar var stofnaður samkvæmt erfðaskrá Guðjóns Samúelssonar, en Guðjón lést í apríl árið 1950. Hann var ókvæntur og barnlaus þegar hann lést. Í erfðaskránni kemur fram að það sem afgangs verður að eignum hans skuli renna til stofnunar sérstaks sjóðs í hans nafni og skal tilgangur sjóðsins vera að breiða þekkingu á íslenskri húsagerðarlist. Minningarsjóðurinn hefur veitt styrki frá árinu 1995 í kjölfar sölu á húseign hans á Skólavörðustíg 35.
Guðjón er einn áhrifamesti og afkastamesti arkitekt sem Ísland hefur alið. Hann var fyrstur íslendinga á 20. öld til að ljúka háskólaprófi í byggingarlist og gegndi stöðu húsameistara ríkisins nær allan sinn starfsferil. Guðjón teiknaði margar af helstu byggingum Reykjavíkur og kennileiti bæja og byggðarlaga víða um landið. Eins kom hann að skipulagsmálum, og gerði gerði skipulagsuppdrætti að mörgum bæjum landsins. Hann sá borgir og bæi fyrir sér sem heilsteypt listaverk sem hefðu heilladrjúg áhrif á heilbrigði íbúanna og vellíðan.
Pétur H. Ármannsson hlaut síðustu úthlutun úr sjóðnum, árið 2015, styrk til að skrifa bókina, Guðjón Samúelsson-húsameistar, sem kom út síðustu áramót. Sú bók var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis.