Flétta hönnunarstofa

11. júní 2018
Motta (1400 x 2000 mm) gerð úr sjötíu gallabuxum. Unnin í samstarfi við Rauða kross Íslands og Steinunni Eyju Halldórsdóttur fatahönnuð.

Við viljum vekja athygli fyrirtækja og almennings á verðmætum sem liggja í ónýttu hráefni sem fellur til við ýmiss konar framleiðslu og iðnað.

Staðbundin framleiðsla og vakning um verðmæti fráfallsefna í ýmiss konar iðnaði og framleiðslu hér á landi hefur verið áherslan í verkefnum vöruhönnuðanna Birtu Rósar Brynjólfsdóttur og Hrefnu Sigurðardóttur en þær stofnuðu nýverið hönnunarstofuna Fléttu. Á síðastliðnum HönnunarMars frumsýndu þær meðal annars nýstárlega kertastjaka sem mótaðir eru aðeins á einni mínútu.

Samstarf Birtu og Hrefnu er ekki alveg nýtt af nálinni. Árið 2014, þegar þær voru nemendur við Listaháskóla Íslands, stofnuðu þær til verkefnis ásamt Auði Ákadóttur sem nefnist Haugfé. Megintilgangur þess er að efna til samtals um þau verðmætu hráefni sem falla til við daglegan rekstur framleiðslufyrirtækja og send eru til urðunar eða endurvinnslu. Haugfé hefur verið tengiliður milli þessarra fyrirtækja og þeirra sem hafa séð verðmæti í hráefnunum og þannig fundið þeim rétta notendur. „Við viljum vekja athygli fyrirtækja og almennings á verðmætum sem liggja í ónýttu hráefni sem fellur til við ýmiss konar framleiðslu og iðnað. Þetta eru oftar en ekki efni sem fyrirtæki greiða fyrir að farga á sama tíma og notendurnir borga fyrir að kaupa ný,“ segir Birta. Einnig kemur fyrir að efnin sem falla til hjá framleiðendum séu fágæt og erfitt sé fyrir almenning að nálgast þau í hefðbundum verslunum.

Haugfé býr nú yfir gagnagrunni þar sem skrásett hafa verið fráfallsefni frá yfir hundrað íslenskum framleiðslufyrirtækjum. Þarna er um ýmiss konar hráefni að ræða sem gætu vel nýst smærri framleiðendum, hönnuðum, lista- og handverksfólki. „Við höfum meðal annars nýtt gagnagrunninn til að safna efnivið fyrir leikhópa og hátíðir og eins þegar við höfum haldið fyrirlestra og vinnusmiðjur. Í haust unnum við svo undirbúningsvinnu fyrir Sorpu vegna efnismiðlunar Góða hirðisins þar sem seld eru notuð byggingarefni en miðlunin opnaði nýlega í endurvinnslustöð þeirra á Sævarhöfða,“ segir Hrefna.

Vinnusmiðja á vegum Haugfjár, grímur gerðar úr fráfallsefnum fyrirtækja.

Það er greinilegt samfélagslegt leiðarstef í öllum verkefnum sem þær Birta og Hrefna taka sér fyrir hendur. Síðastliðið ár hafa þær unnið með Rauða krossi Íslands og Steinunni Eyju Halldórsdóttur fatahönnuði að því að leita leiða til að nýta gallabuxur sem sökum ástands reynist ekki mögulegt að endurnýta hér á landi og eru því sendar til endurvinnslu erlendis. Það verkefni er enn í fullum gangi en afrakstur vinnunnar, mottur og veggteppi úr gallaefni, var annað tveggja verkefna sem Flétta sýndi á HönnunarMars.

Verkefnið sem Flétta kynnti að auki vakti töluverða athygli erlendra fjölmiðla, en um er að ræða kertastjaka sem mótaður er á einni mínútu og er nefndur „Mínútukertastjaki“. „Við viljum stuðla að staðbundinni framleiðslu og erum hrifnar af handverki, að hlutir séu lifandi og hafi karakter. Okkur langaði því að hanna vöru sem við gætum sjálfar mótað. Þar sem við erum báðar nokkuð kunnugar leir þá lá vel við að vinna með þann efnivið,“ segir Birta og bætir við að kertastjakarnir séu tilraun til þess að fjöldaframleiða handgerða hluti hér á landi með hagkvæmum hætti. „Eftir endurteknar tilraunir tókst okkur að stytta mótunartímann niður í eina mínútu fyrir hvern kertastjaka en það reyndist vera sá hluti framleiðsluferlisins sem við gátum haft hvað mest áhrif á.“ 

Mínútukertastjakar. Steinleir og glerungur.
Dagsetning
11. júní 2018
Texti
Elín Bríta & ritstjórn
Ljósmyndir
Rafael Pinho

Tögg

  • HA
  • HA07
  • Greinar
  • Vöruhönnun