Jarðsetning tilnefnt sem verk ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023
Jarðsetning eftir Önnu Maríu Bogadóttur, arkitekt er tilnefnt í flokknum verk ársins á Hönnunarverðlaunum Íslands 2023.
Rökstuðningur dómnefndar:
Jarðsetning er margslungið verk sem segir einstaka sögu byggingar og hvernig væntingar og módernísk sýn á borgarþróun öðlast nýja merkingu þegar fram líða stundir. Byggingin missir tilgang sinn, það mistekst að finna henni nýtt hlutverk í samtímanum og hún er dæmd úr leik.
Höfundur miðlar efninu með gjörningi, innsetningu, kvikmynd og loks bók. Í kvikmyndinni mæta áhorfendur afli vélarinnar og horfa hjálparvana upp á niðurrif byggingarinnar og tilheyrandi sóun hráefna með hversdagslíf borgarinnar í bakgrunni. Endalok byggingar á endastöð hugmynda um einnota byggingar, jarðsetning.
Í bókinni fléttast frásögn af lífi og dauða byggingarinnar við sögu hugmynda og sögu höfundar. Höfundur fer inn í stórhýsi Iðnaðarbankans við Lækjargötu og þaðan á vit hugmynda og drauma sem búa í hinu byggða.
Stórhýsi Iðnaðarbankans við Lækjargötu reis á sjöunda áratugnum í anda alþjóðlegra framtíðarhugmynda en rúmlega hálfri öld síðar fær byggingin dóm um að víkja fyrir nýjum byggingum með annað hlutverk. Með Jarðsetningu hefur Anna María Bogadóttir, arkitekt náð að skapa einstakt og áhrifamikið verk sem hefur náð að skapa áhugaverðar umræður í samfélaginu og vekja fólk til umhugsunar um arkitektúr og hlutverk hans í nútímanum og þörf fyrir breyttar áherslur, líftíma bygginga, endurnýtingu, umhverfissjónarmið og hringrásarhugsun. Nálgunin er listræn og fagleg en á sama tíma persónuleg svo útkoman höfðar til mjög breiðs hóps.
Um:
Anna María Bogadóttir er arkitekt og menningarfræðingur sem leggur áherslu á menningar- og félagslegar hliðar arkitektúr. Hún nálgast arkitektúr frá sjónarhóli hvunndagslífs í samhengi flókinna kerfa og hvata og vinnur með umbreytingu, arf og miðlun sem skapandi afl í arkitektúr. Verk Önnu Maríu og rannsóknir finna sér farveg þvert á miðla á hefðbundnum sem óhefðbundnum vettvöngum.
Anna María er stofnandi ÚRBANISTAN sem gegnum ráðgjöf, rannsóknir, sýningagerð og útgáfu kemur að hugmyndafræði og úrlausnum fjölbreyttra verkefna á sviði arkitektúr, skipulags og varðveislu og fela í sér rýmis-, borgar-, strategíu-, samræðu- og sýningahönnun.
Hönnunarverðlaun Íslands og samtal þeim tengt fer fram í Grósku þann 9. nóvember næstkomandi. Taktu daginn frá!
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi með áherslu á áhrif þeirra á lífsgæði, verðmætasköpun og sjálfbærni fyrir samfélagið allt. Þau verða veitt í tíunda sinn í ár (2023) og í tilefni af því hefur verðlaunaflokkum verið fjölgað í þrjá undir heitunum Verk // Staður // Vara.
Dómnefnd tilnefnir þrjú verkefni í hverjum flokki og af þeim hlýtur einn sigurvegari í hverjum flokki Hönnunarverðlaun Íslands 2023 sem eru hvor tveggja heiðurs- og peningaverðlaun. Auk þess verður veitt viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun og Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.