Anders Vange hannar jólakött Rammagerðarinnar 2024
Hinn árlegi jólaköttur Rammagerðarinnar er kominn til byggða fimmta árið í röð en að þessu sinni var hönnun hans í höndum Anders Vange, glerlistamanns.
Jólakötturinn er vel þekktur óvættur í íslenskum þjóðsögum. Hann var hvað þekktastur fyrir að éta þau börn sem ekki fengu nýjar flíkur fyrir jólin. Þó að kötturinn sé löngu hættur þeim óskunda er hann enn sterkur hluti af íslenskri jólahefð.
Rammagerðin hóf hefðina um að fela íslenskum hönnuði gerð jólakattarins árið 2020. Fjórir jólakettir hafa litið dagsins ljós, sá fyrsti var eftir Stúdíó Fléttu, Hanna Dís Whitehead hannaði jólaköttinn árið 2021. Árið 2022 var það Ragna Ragnarsdóttir hönnuður sem varð fyrir valinu og á síðasta ári var það hönnuðurinnn Björn Steinar Blumenstein. Í ár var það hinn danski glerlistamaður Anders Vange sem búsettur er hér á landi sem var fenginn til að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni við gerð jólakattarins en kötturinn er framleiddur úr endurunni gleri á verkstæðinu hans á Kjalarnesi. Aðeins 25 númeraðir jólakettir eru framleiddir á hverju ári sem gerir þá að einstökum safngrip.
“Ég hóf samstarf við Rammagerðina stuttu eftir að ég stofnaði Reykjavik Glass í nóvember 2022. Ég hafði heimsótt búðina á Skólavörðustígnum nokkrum sinnum og var mjög hrifinn. Þegar ég var búinn að gera fyrstu línuna mína fór ég til þeirra og var svo heppinn að þau vildu fara í samstarf með mér, “ segir Anders Vange. Um jólaköttinn 2024 segist hann hafa sótt innblástur til síns eigin kattar og öðrum köttum sem hann sá á förnum vegi. “Ég var svo í göngutúr með hundinn minn og við hittum kött sem var alls ekki hrifinn af hundinum. Ég tók mynd af honum með kryppu og úfinn feld og þaðan kom innblásturinn.”
Anders hefur líka verið að vinna að jólaskrauti og fleiri glermunum fyrir Rammagerðina. “Ég hef verið að leita eftir að hanna hluti sem vinna vel með endurunnu gleri úr gluggum sem hefur styttra vinnuferli en venjulegt glerblásturs gler. Ég reyni að vinna með glerinu og ekki á móti því og þess vegna sýnir mikið af hönnun minni þennan fljótandi eiginleika glers. “
Jólaköttur Rammagerðarinnar fæst í takmörkuðu upplagi í Rammagerðinni