Katrín Ólína Pétursdóttir nýr deildarforseti hönnunardeildar LHÍ
Hönnuðurinn Katrín Ólína Pétursdóttir hefur verið ráðin deildarforseti hönnunardeildar Listaháskóla Íslands en skólinn tilkynnti um ráðninguna í síðustu viku. Katrín Ólína lauk meistaragráðu í iðnhönnun frá CREAPOLE - E.S.D.I (École Supérieure de Design Industrielle, París) og hefur víðtæka starfsreynslu þvert á greinar hönnunar.
Í tilkynningu frá LHÍ kemur fram að Katrín Ólína hefur viðamikla reynslu af kennslu og akademískum störfum en hún var m.a. fyrsti fagstjóri þrívíðrar hönnunar við stofnun LHÍ og tók þátt í þróun og uppbyggingu hönnunarnáms á háskólastigi.
Eftir nám, vann Katrín m.a. við rannsóknir, þróun og vöruhönnun hjá Philippe Starck í París, Ross Lovegrove í London og frá 1998 til 2008 í samstarfi við breska hönnuðinn Michael Young. Hún hefur starfað sjálfstætt að hönnun erlendis og hérlendis frá 2008.
Rannsóknir eru stór þáttur í hönnun Katrínar en hún gengdi m.a. gestarannsóknarstöðu við Aalto háskólann í Helsinki árin 2014 til 2016 og aftur frá 2019 til dagsins í dag auk þess að taka þátt í þverfaglegum rannsóknarverkefnum.