Minn HönnunarMars - Andrea Róbertsdóttir 

HönnunarMars er að bresta á í allri sinni dýrð. Dagskráin í ár telur um 80 sýningar og 100 viðburði sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn.
Næstu vikuna verður hægt að fræðast um hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars 2020 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.

Hér eru þær sýningar sem Andrea Róbertsdóttir, framkvæmdastjóri FKA ætlar ekki að missa af í ár 

„Það er dásamlegt að sjá hvernig hönnunarheimurinn er mikilvæg stærð þegar takast á við stærstu áskoranir samtímans eins og að bjarga þessari plánetu. Hugmyndir festar í efni á klókan máta og margt spennandi að sjá í föstu og fljótandi formi á HönnunarMars.

Það verður ekkert eins eftir COVID og mér finnst HönnunarMars í júní í stíl við þessa tíma sem við lifum. Mjög mikilvægt að tappa af hugmyndum á tímum sem þessum og sjá afrakstur mikillar vinnu þessara einstaklinga. Þvílík gjöf sem þessir einstaklingar færa okkur með þessu innleggi.

Hönnun er alltumlykjandi og mér finnst mjög mikilvægt að fólk fjárfesti í hönnun og skapandi greinum. Með að fjárfesta í list og hönnun er fólk að kaupa listafólki og hönnuðum tíma til að skapa áfram, við kjósum með veskinu hvernig heim við viljum og svo er list og hönnun oft góður fjárfestingakostur. Það er ekki verra.“

Hér eru þær sýningar sem Andrea Róbertsdóttir ætlar ekki að missa af:

Catch of the day: Limited Covid-19 edition

Sérframleitt handspritt fyrir HönnunarMars 2020. Verkefnið byggir á Catch of the day sem var tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands 2018 og er ætlað að draga úr matarsóun í samstarfi við matvælainnflytjendur og sporna gegn útbreiðslu Covid-19. Það er mjög mikilvægt fyrir fólk að vita að matasóun er að hafa mikil áhrif á jörðina okkar og að hætta að sóa mat er góð leið fyrir umhverfissóða sem vilja stíga skref í rétta átt. Björn Steinat Blumenstein.

Borgartunnan

Ný sorpflokkunartunna. Ég mun kíkja á tunnuna á göngugatunni á Hafnartorgi en ég hef verið að aðstoða stofnanir og fyrirtæki til að stíga græn skref og þá hef ég verið að spá mikið í rusli og ruslatunnum, neyslu, flokkun og hringrásarhagkerfinu.

Ilmbanki íslenskra jurta

Safn ilma úr íslenskri náttúru á Álafossvegi 31 í Mosó. Nordic angan Ilmbankinn er fyrsti sinnar tegundar á Íslandi sem ég hlakka til að kíkja á. Það var eftirminnilegt að fara í skógarbaðið hjá Elínu Hrund og Sonju Bent sem voru með Ilmsturtuna sem sló í gegn á HönnunarMars í fyrra.

Íslensk hönnun í sinni litríkustu mynd

Svo finnst mér alltaf gaman að kíkja í EPAL sem nú sýnir úrval af áhugaverðri hönnun eftir fjölbreyttan hóp íslenskra hönnuða sem hafa náð góðum árangri á sínu sviði bæði hérlendis og sumir einnig á erlendri grundu. Það er einhver þráður sem mér finnst töff í sögu EPAL. Ég sjálf var eitt sinn í nýsköpun og framleiðslu og þegar ég fór með vöru á markað var EPAL að selja mest eftir mig og samstarfið og samtalið notalegt við stjórnendur og starfsfólk.

Sjálfbær hönnun

Það á að tappa eldmóði, orku og þrautseigju Bjargar Ingadóttur vinkonu minnar á flösku en hún er nú með sýninguna „Sjálfbær hönnun & stafrænt handverk“ sem byggir á nýjum stafrænum þrívíddar hönnunaraðferðum sem Björg fatahönnuður hefur tileinkað sér. Á sýningunni frumsýnir Björg fyrstu línuna sem hún vinnur á þennan hátt, og fræðir gesti um hið nýja og umhverfisvæna hönnunarferli. Hún er græn í gegn þessi gella og það er upplifun að mæta á Hönnunarstofu Spaksmannsspjara.

Trophy

Flétta hönnunarstofa sýnir loftljós úr gömlum verðlaunagripum á HönnunarMars í ár. Þvílíka snilld sem Trophy-vörulínan er. Hlutirnir sem eru úr gömlum verðlaunagripum frá einstaklingum og íþróttafélögum sem hægt er að sjá á Hafnartorgi.

ASMR U Ready?

Svo fer ég og læt örva skilningarvitin enn frekar, ef það er hægt, með að kíkja á ASMR (e. Autonomous sensory meridian response). Valdís Steinarsdóttir sýnir verkefni sem eru röð efnisrannsókna þar sem leiðir til að nýta vannýttar dýraafurðir eru kynntar.

Kynntu þér dagskrá HönnunarMars á heimasíðu hátíðarinnar hér og gerðu þinn eigin HönnunarMars!

Sjáumst á HönnunarMars!

Tögg

  • HönnunarMars
  • Greinar
  • MinnHönnunarMars