Minn HönnunarMars - Bergur Ebbi
Hvernig verður HönnunarMarsinn þinn? Bergur Ebbi, rithöfundur, og fyrirlesari deilir hér hvaða sýningum hann ætlar ekki að missa af á HönnunarMars dagana 19. - 23. maí 2021.
Nú er HönnunarMars í maí er að bresta á í allri sinni dýrð. Dagskráin telur um 80 sýningar sem breiða úr sér um bæinn og því vel við hæfi að fá smá leiðsögn í gegnum fjölbreytta dagskrá sem endurspeglar einstaka grósku íslensks hönnunarsamfélags.
Framtíðin, tækni, sjálfbærni, náttúra, arfleifð og nýsköpun er þátttakendum hugleikin viðfangsefni á hátíðinni í ár sem veitir innblástur inn í nýja tíma.
Næstu daga munum við deila hvaða sýningum vel valdir aðilar ætla ekki að láta framhjá sér fara á HönnunarMars í maí 2021 undir yfirskriftinni Minn HönnunarMars.
Hér eru þær sýningar sem Bergur Ebbi ætlar ekki að missa af í ár
Ástarbréf til Sigvalda Thordarson
Fyrir nokkrum árum var arkitektinn Sigvaldi Thordarson mér alls ekki kunnugur. En svo fór ég að fylgjast með þegar Loji Höskuldsson fór að vekja athygli á verkum hans á Instagram og þá opnaðist fyrir mér nýr veruleiki. Að allar þessar byggingar, sem marka hughrif heilu hverfanna í Reykjavík, hefðu verið hannaðar af einum og sama manninum. Ég mæli heilshugar með rútuferðum um bæinn þar sem einvalalið íslenskra hönnuða fræðir fólk meira um þennan áhrifavald í íslenskri hönnunarsögu.
Funky Terrazzo
Kjötiðnaðarfyrirtæki hafa um áraraðir reynt að halda því fram að Íslendingar elski ekkert meira en pylsur. En það er ekki rétt. Stærsta ást Íslendinga er gólfefni. Hvergi í hinni víðu veröld fer jafn stór hluti umræðna fólks í tal um flísar, fúgur, parket og teppalagningu, eins og á Íslandi. Það er því gleðilegt að nú láti íslenskir hönnuðir til sín taka í gólfefnabransanum. Frumsýning á nýjum tegundum af vínylmottum er eitthvað sem fólk ætti ekki að missa af.
Öllum hnútum kunnug
Að lesa upphafsorð kynningartextans um þessa sýningu er eins og að drekka sérvalið árgangavín frá Búrgúndí. „Öllum hnútum kunnug er þverfaglegt verkefni sem skoðar táknræna vídd reipisins í norrænni samtímamenningu." Ég var reyndar svo spenntur fyrir þessari sýningu að ég er búinn að sjá hana og hún vekur mann til umhugsunar um bæði kóngafólk og hafnarverkamenn, og allt þar á milli.
Fylgið okkur
Til að fá það allra nýjasta inn í taugakerfið mæli ég með sýningunni Fylgið okkur í Gerðasafni. Hér eru öll nýjustu viðfangsefnin tekin fyrir: margbrotin sjálfsmynd, sýndarveruleiki og endalok mannaldar. Ungir og spennandi hönnuðir með spennandi hugmyndir.
Sif Benedicta X Brynja Skjaldar
Tískulínan Sif Benedicta einbeitti sér fyrst að slæðum, handtöskum og hálsmenum. En nú er fatahönnuðurinn Brynja Skjaldar einnig komin til skjalanna og ýmsar flíkur að bætast í línuna. Fílingurinn hjá Sif Benedicta X Brynja Skjaldar virðist vera 70s mystical spákonu glamúr, en það er einmitt þar sem fassjon-púlsinn slær um þessar mundir. Það verður spennandi að sjá fatalínuna í fögru umhverfi listasafns Einars Jónssonar.