Opið fyrir innsendingar í FÍT verðlaunin
Búið er að opna fyrir innsendingar í FÍT verðlaunin í ár. Innsendingarfrestur er styttri í ár þar sem verðlaunakvöldið verður haldið fyrr en vanalega, eða föstudaginn 28. febrúar. Lokað er fyrir innsendingar mánudaginn 10. febrúar.
Breytingar á flokkum
Á síðustu árum hefur verið rýnt í verðlaunaflokkana með það markmið að þróa verðlaunin áfram og tryggja að flokkarnir endurspegli fagið sem best hverju sinni. Skoðaðar voru breytingar á flokkum sem hafa verið gerðar gegnum árin, rýnt í fjölda innsendinga og verðlaunin borin saman við aðrar innlendar og erlendar keppnir. Ásamt því var leitað eftir áliti félaga með skoðanakönnun og opnum kynningarfundi í kjölfarið.
Niðurstaðan var sú að sameina nokkra flokka í því skyni að mynda sterkari og samkeppnishæfari flokka. Nokkrir flokkar detta út og nýir koma inn. Einnig voru lýsingar á flokkunum endurskoðaðar til þess að samræmast betur þeim verkum sem hafa verið send í flokkana síðustu ár.
Opinn flokkur
Opnu flokkarnir tveir hafa sameinast í einn almennan opinn flokk. Þessi flokkur tekur á móti verkum sem falla ekki undir aðra flokka, ásamt því að taka við hönnunarrannsóknum og tilraunakenndari hönnunarverkefnum.
Gagnvirk miðlun og upplýsingahönnun
Árið 2018 var þessum tveimur flokkum skipt í tvennt en þeir höfðu þá verið einn og sami flokkurinn frá árinu 2014 en ákvörðun var tekin um að sameina þá aftur á ný. Í þennan flokk má senda inn verkefni sem koma upplýsingum á framfæri til gesta eða notenda, hvort sem er á prenti eða í skjámiðlum.
Myndræn frásögn
Myndræn frásögn (e. narrative illustration) er nýr flokkur sem hjálpar okkur að taka á móti sístækkandi flóru myndlýsinga. Í þennan flokk má senda myndlýsingar sem eru lengri en 3–5 einstakar myndir og fela í sér lengri frásögn, svo sem myndlýsingar í bækur og myndasögur.
Tónlistargrafík
Þessi flokkur hét áður Geisladiskar og plötur, en hefur nú hlotið yfirgripsmeira nafn. Grafískt efni tengt tónlistarútgáfu hefur vaxið mikið á síðustu árum með tilkomu nýrra miðla og með þessari breytingu opnum við flokkinn fyrir fleiri verkefnum.
Félagsgjöld
Greiðsluseðlar verða sendir út fljótlega og minnum við meðlimi á að greiða þá áður en gengið er frá greiðslu fyrir innsendingar. 50% afsláttur er veittur fyrir innsendingar þar sem allir hönnuðir tengdir verkinu eru meðlimir í FÍT.
Ef þú hefur einhverjar spurningar varðandi breytingar á verðlaunaflokkum FÍT ekki hika við að hafa samband. Við vonumst til að sjá sem flesta á FÍT verðlaununum í Grósku þann 28. febrúar.