Opið fyrir umsóknir um sýningarhald í Ásmundarsal 2024

Ásmundarsalur kallar eftir umsóknum fyrir sýningarárið 2024, þar sem leitað er eftir umsóknum fyrir 4 - 6 vikna einkasýningar og samsýningar í 72 fm sýningasal á 2.hæð. Einnig er kallað eftir sýningum á kaffihúsið á fyrstu hæð og 4 - 8 vikna vinnustofum í Gunnfríðargryfju. Umsóknarfrestur er til og með 8. september.
Í ár er tekið sérstaklega vel á móti umsóknum frá sviðslistahöfundum. Búið er að skipuleggja rými í sýningardagskrá árið 2024 fyrir sviðslistir og kallað er eftir sviðsverkum í öllum sínum fjölbreytileika þar sem samstarf ólíkra sviðsmiðla er tekið fagnandi.
Umsóknarfrestur er til og með 8. september og svör berast til allra umsækjanda fyrir 8. október.
Sótt er um í gegnum heimasíðu Ásmundarsalar þar sem jafnframt má finna allar nánari upplýsingar um umsóknarferlið.
Persónuupplýsingar umsækjanda og umsóknir verða aðeins aðgengilegar fagráði og stjórnendum Ásmundarsals.


Um Ásmundarsal
Ásmundarsalur er sjálfstætt starfandi sýningarsalur í miðbæ Reykjavíkur sem sinnir listinni í öllum sínum fjölbreytileika með áherslu á samspil ólíkra listforma.
Ásmundarsalur var byggður árið 1933 af einum af okkar ástsælustu myndhöggvurum, Ásmundi Sveinssyni sem vinnustofa og heimili hans og fyrri konu sinnar, Gunnfríðar Jónsdóttur. Í áranna rás hefur húsið þjónað sem vinnustofur listamanna, sýningarrými og listaskóli svo dæmi séu
tekin. Ásmundarsalur hefur ennfremur spilað stórt hlutverk í lista- og menningarsögu Íslands sem þungamiðja fyrir nýja strauma og stefnur. Ásmundarsalur er staðsettur fyrir Freyjugötu 41, frítt inn og opið til kl.17 alla daga.