DesignTalks 2023 - Paola Antonelli, yfirsýningarstjóri arkitektúrs og hönnunar hjá MoMA, framleiðandi MoMA Salon R&D og stofnandi Design Emergency
Paola Antonelli, yfirsýningarstjóri arkitektúrs og hönnunar hjá MoMA, framleiðandi MoMA Salon R&D og stofnandi Design Emergency kemur fram á DesignTalks 2023 í Hörpu miðvikudaginn 3. maí. DesignTalks ráðstefnan hefur öðlast fastan sess hérlendis og er vel þekkt alþjóðlega sem mikilvægur vettvangur innblásturs og samtals um helstu þróun og breytingar sem drifnar eru áfram með aðferðum hönnunar og arkitektúrs.
Paola Antonelli er einn virtasti sýningarstjóri heims á sviðið hönnunar og arkitektúrs. Hún er yfirsýningarstjóri arkitektúrs og hönnunar hjá MoMa, Nýlistasafninu í New York, auk þess að vera stjórnandi og ein af stofnendum rannsóknar og þróunardeildar safnsins. Síðan 2020 hefur Paola unnið að verkefninu Design Emergency ásamt hönnunargagnrýnandanum Alice Rawsthorn. Verkefnið, sem er bæði bók og instagram-vettvangur (@design.emergency) er yfirstandandi rannsókn á hlutverki hönnunar og arkitektúrs í að móta betri framtíð fyrir öll. Paola hefur í verkum sínum rannsakað hönnun í öllum formum, allt frá arkitektúr yfir í tölvuleiki. Oftar en ekki beinir hún sjónum að hlutum og venjum sem við hugsum alla jafna ekki um. Í sýningum sínum, fyrirlestrum og skrifum veltir hún fyrir sér hvernig hönnun á í samtali og stefnumóti við aðrar greinar, allt frá tækni yfir í líffræði og alþýðumenningu, sem og lífið sjálft, þ.e. einstaklinga, samfélög, aðrar lífverur og plánetur. Markmið hennar er að auka skilning á hönnun þar til sem flest eru meðvituð um hversu jákvæð áhrif hún hefur haft á heiminn. Á meðal nýlegra verkefna hennar má nefna sýningarstjórn XXII Triennale di Milano, Broken Nature, tileinkað endurnýjandi hönnun (e.regenerative design), sem snýst um virðingu í umgengni við náttúruna, sýninguna Material Ecology sem fjallaði um verk arkitektsins Neri Oxman og Never Alone, sýningu um tölvuleiki og gagnvirka hönnun í MoMA.
DesignTalks 2023 fer fram miðvikudaginn 3. maí í Silfurbergi í Hörpu. Stjórnandi er Hlín Helga Guðlaugsdóttir.
Í ár mun DesignTalks takast á við spurninguna Hvað nú? / What now?, staldra við, fást við áskoranir líðandi stundar, velta upp og kanna mögulegar leiðir - og ef vel tekst til, vekja enn fleiri spurningar!
„Auðmýkt. Enginn veit allt en saman vitum við margt.”
- Hlín Helga Guðlaugsdóttir, listrænn stjórnandi DesignTalks
DesignTalks ráðstefnan varpar ljósi á mikilvægi hönnunar og arkitektúrs í samfélagslegum og hnattrænum breytingum, með erindum um áhrifamikil verkefni og innblásnum samtölum. Hönnuðir, arkitektar og skapandi hugsuðir, erlendir og innlendir veita innsýn í brýn viðfangsefni af öllu hjarta. Ekkert er utan seilingar.