Pétur H. Ármannsson kosinn heiðursfélagi á aðalfundi Arkitektafélags Íslands
Pétur H. Ármannsson var kosinn heiðursfélagi Arkitektafélags Íslands á aðalfundi félagsins hinn 24. febrúar síðastliðinn.
Viðurkenninguna hlaut hann fyrir fræðistörf sín um íslenska byggingarlistasögu á miðlun hennar til almennings. Pétur hefur unnið sem arkitekt og sjálfstætt starfandi fræðimaður ásamt því að hafa byggt upp og stýrt Byggingarlistadeild Listasafns Reykjavíkur um árabil. Pétur hefur ritað fjölda bóka og greina og fengist við kennslu um íslenska byggingarlist. Á síðasta ári tók Pétur saman yfirlitsbók um verk Guðjóns Samúelssonar húsameistara ríkisins en bókin var m.a. tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Íslands.
Pétur Ármannsson er fæddur árið 1961. Hann lauk stúdentsprófi frá eðlisfræðideild Menntaskólans í Reykjavík árið 1980. Pétur hlaut starfsréttindapróf í arkitektúr (B.Arch.Hons) frá Toronto-háskóla í Kanada árið 1986. Hann stundaði framhaldsnám í arkitektúr við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum og lauk meistaraprófi þaðan árið 1991.
Pétur var deildarstjóri byggingarlistardeildar Listasafns Reykjavíkur á árunum 1993–2005 og gestakennari við arkitektúr- og hönnunardeild Listaháskóla Íslands frá 2002. Hann starfaði sem arkitekt hjá Glámu-Kím arkitektum ehf. auk þess að sinna sjálfstæðum rannsóknar- og ráðgjafarverkefnum á árunum 2005–2013. Hann var í hópi ráðgjafa vegna Evrópuverðlauna í byggingarlist (Mies van der Rohe-verðlaunanna) árin 1997–2005 og faglegur umsagnaraðili Norræna menningarsjóðsins (Nordisk Kulturfond) á sviði arkitektúrs 2004–2005. Pétur hefur gegnt stöðu sviðsstjóra umhverfis- og skipulagsmála hjá Minjastofnun Íslands frá árinu 2013.
Pétur hefur í gegnum árin tekið að sér ólík störf fyrir Arkitektafélagið en hann var ritari stjórnar AÍ árið 1991-1992, fulltrúi Arkitektafélags Íslands í Húsafriðunarnefnd ríkisins 2000–2009 og setið sem dómnefndarfulltrúi í arkitektasamkeppnum sem fulltrúi félagsins.
Lifandi kveðja til Péturs frá nokkrum félagsmönnum Arkitektafélags Íslands í tilefni af viðurkenningunni
Félagsmenn Arkitektafélags Íslands þakka Pétri H. Ármannssyni kærlega fyrir mikilvæg störf í þágu íslenskrar byggingarlistar.