Silfra: Náttúruleg og hrá form í lífrænum litbrigðum
Hönnuðurnir Ágústa Sveinsdóttir og Elísabet Karlsdóttir stofnuðu nýlega hönnunarstúdíóið ALVARA. Fyrsta verkefnið þeirra, Silfra, varð til þegar fljótandi silfri var hellt í vatn.
„Verkefnið Silfra sprettur fyrst og fremst út frá áhuga á að fara óhefðbundar leiðir í skartgripagerð,“ segir Ágústa Sveinsdóttir vöruhönnuður um skartgripalínuna Silfru sem sýnd var á nýliðnum HönnunarMars.
Stúdíóið ALVARA var nýlega stofnað af Ágústu og Elísabetu Karlsdóttur fatahönnuði en saman vinna þær á mörkum vöru- og fatahönnunar. Silfra er fyrsta samstarfsverkefni þeirra og skartgripalínan hefur vakið mikla athygli fyrir óvenjulegt útlit. Þær segja hvern skartgrip úr línunni vera einstakan rétt eins og ekkert tvennt í náttúrunni er alveg eins. „Okkur sem hönnuðum fannst þetta mjög spennandi leið til framleiðslu; að ná að framleiða hluti sem allir eru einstakir á sinn hátt. Það gefur þeim meira vægi og tilfinningalegt gildi.“
Ágústa hefur getið sér orð fyrir að fara heldur óhefðbundnar leiðir í vöruhönnun sinni. Í lokaverkefni hennar frá Listaháskóla Íslands vann hún til að mynda með ryk, setti það í nýtt samhengi og gaf því þannig nýtt gildi. Úr varð Dust Collection; skartgripalína unnin úr ryki. „Lokaverkefnið mitt var frumraun mín í skartgripagerð en í kjölfarið kviknaði hjá mér brennandi áhugi á því sviði. Það kom mér svolítið á óvart því ég hafði alltaf tengst meira tísku og fatahönnun,“ segir Ágústa. Við gerð lokaverkefnisins segist hún hafa fundið fyrir löngun til að læra meira í skartgripagerð og því hóf hún nám í gullsmíði strax að loknu námi við Listaháskóla Íslands. Hún kláraði þó ekki gullsmíðina en var ánægð með að hafa fengið tækifæri til að skyggnast inn í þann heim: „Gullsmíði er gömul og sérhæfð iðngrein þar sem unnið er með eðalmálma. Mér fannst því spennandi að fá að prófa mig áfram og læra handverkið til að skilja betur reglur þess og möguleika. Maður þarf að þekkja reglurnar til að geta brotið þær.“
Ágústa segir að nálgun hennar og Elísabetar við meðhöndlun silfursins eigi rætur að rekja til hönnunarmenntunar þeirra: „Við höfum annan bakgrunn en gullsmiðir og nálgumst því hráefnið með öðrum hætti. Við sjáum kannski spennandi tækifæri í því sem gullsmiðum þætti eflaust ekkert sérstaklega merkilegt. Nálgun okkar að þessu sinni felst í því að vinna með náttúrulega efniseiginleika silfursins í stað þess að sporna gegn þeim. Við hellum fljótandi silfrinu í vatn og leyfum því að ráða för; það er ekki tamið eða því þröngvað í fyrirfram ákveðið form. Við þessa mótunaraðferð myndast lífræn litbrigði á yfirborði silfursins sem venjulega eru pússuð burt en við létum þau ósnert. Með tímanum mun silfrið svo dökkna vegna oxunar og það er því sífellt að breytast. Að okkar mati býr fegurð í þessari óvissu og ófullkomleika.“
Að sögn Ágústu er margt spennandi í pípunum hjá hinu nýstofnaða hönnunarstudíói: „Nú er framleiðsluferli Silfru að hefjast og við erum með annað verkefni í bígerð sem stendur Elísabetu nær.“ Aðspurð hvort þær muni vinna áfram með skartgripi segir Ágústa margar hugmyndir vera á borðinu: „Við stefnum að því að hanna fatnað, fylgihluti, skart og jafnvel húsmuni. Áherslan verður samt sem áður alltaf á að vinna beint út frá hráefnunum með það að markmiði að feta óhefðbundnar slóðir og finna nýja möguleika.“