Söluhús við Ægisgarð tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands 2021
Söluhús við Ægisgarð eftir Yrki arkitekta hlýtur tilnefningu til Hönnunarverðlauna Íslands 2021. Næstu daga munum við svipta hulunni af tilnefningum ársins 2021 en verðlaunaafhending og málþing því tengt mun fara fram í Grósku þann 29. október næstkomandi. Takið daginn frá!
Í umsögn dómnefndar segir:
Söluhúsin við Ægisgarð eftir Yrki arkitekta eru lágstemmd og vel heppnuð röð húsa í góðu samtali við umhverfi sitt. Efnisnotkun og skali bygginganna er sá sami en ólíkar útfærslur á timburgrindum og -veggjum við hvert hús brjóta lengjuna upp og mynda ýmist skjól, bekki eða geymslurými. Viðbyggingar og borgarhúsgögn eru því inni í kerfi bygginganna og mynda rými fyrir fjölbreytta virkni og mannlíf á milli húsanna og í kringum þau.
Að innan er burðarvirki húsanna sýnilegt, sem skapar hráa en um leið fíngerða stemningu. Byggingarnar eru glerjaðar á tveimur hliðum sem tryggir góða dagsbirtu og skemmtilegt útsýni út á höfnina. Um er að ræða fallega og vandaða umgjörð sem heldur vel utan um fjölbreytilega starfsemi og daglegt mannlíf.
UM VERKEFNIÐ
Timburhús staðsett á bryggju við gömlu höfninni í Reykjavík og hönnuð til að koma í stað þyrpingar niðurfallinna söluskúra með miðasölu fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu.
Verkefnið er hluti af þéttbýlisátaki til að gera gömlu höfnina meira aðlaðandi fyrir almenning þar sem sífellt fleiri veitingastaðir, verslanir og önnur þjónusta hafa sest að á þessu svæði undanfarin ár. Innblástur fyrir þetta verkefni var gömul ljósmynd sem sýnir timburhús sem eru löngu horfin með gaflinn að framan við forn sund í nágrenni gömlu hafnarinnar.
Timburhúsin eru tengd saman með rúmgóðum veröndum, með setusvæðum og geymslum fyrir búnað sem tengist ferðaþjónustunni. Tilviljunarkennt skipulag fyrrum söluskúra er skipt út fyrir agað skipulag endurtekinna mannvirkja, hönnunar og efnisvals . Smæð húsanna kallar á vandlega meðferð á hönnun á hverju smáatriði.
UM HÖNNUÐINA
Yrki var stofnað árið 1997 af þeim Ásdísi Helgu Ágústsdóttur og Sólveigu Berg. Stofan var stofnuð í framhaldi af 1. verðlaunum sem þær hlutu fyrir Lækningaminjasafnið við Nesstofu á Seltjarnarnesi. Í dag starfar hjá Yrki samstilltur hópur hæfileikaríkra hönnuða í arkitektúr, skipulagi og landslagsarkitektúr. Nafnið Yrki hefur dálítið margræða merkingu í íslensku máli; það skírskotar bæði til skáldskapar og ræktunar, jafnvel tilraunastarfsemi þar sem ólíkar erfðir eru tvinnaðar saman og eitthvað nýtt verður til. Þessi margræða merking er ágæt vísbending um heimspeki stofunnar: löngun og metnað til að sameina hið jarðbundna og ljóðræna í afstöðunni til hönnunar og sköpunar
Hönnunarverðlaun Íslands varpa ljósi á mikilvægi og gæðum íslenskrar hönnunar og arkitektúrs, enda er vægi hönnunar í menningu, samfélagi og viðskiptalífi alltaf að aukast.
Hönnunarverðlaun Íslands beina sjónum að því besta sem gert er á sviði hönnunar og arkitektúrs á Íslandi um leið og einstaka hönnuðum eða hópum hönnuða er veitt mikilvæg viðurkenning.
Á afhendingunni verða veitt Hönnunarverðlaun Íslands, Heiðursverðlaun Hönnunarverðlauna Íslands og viðurkenning fyrir bestu fjárfestingu í hönnun ársins 2021.
Næstu daga verður hulunni svipt af tilnefningum ársins en afhending Hönnunarverðlauna Íslands 2021 fer fram þann 29. október í Grósku ásamt málþingi tengt verðlaunum. Nánari upplýsingar síðar en takið daginn frá.
Það er Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sem stendur að verðlaununum, í samstarfi við Hönnunarsafn Íslands, Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu og Samtök iðnaðarins.