Steinbryggja og Tryggvagata
Endurhönnun borgarumhverfis er eitt stærsta umhverfismál samtímans. Þær Áslaug Traustadóttir og Þórhildur Þórhallsdóttir, landslagsarkitektar hjá Landmótun, og Edda Ívarsdóttir, borgarhönnuður hjá Reykjavíkurborg, settust niður og ræddu við HA um þá miklu endurbyggingu sem á sér stað í miðborg Reykjavíkur um þessar mundir, þróun almenningsrýma, Steinbryggjuna og hönnun Tryggvagötu.
Edda: Hönnun Tryggvagötu tengist þeirri uppbyggingu sem á sér nú stað í miðbænum. Allt frá Hafnartorgi að Hörpu tónlistarhúsi.
Áslaug: Þessi mikla uppbygging þýddi að það þurfti að uppfæra allt rafmagnskerfið á svæðinu, því að það gamla hefði aldrei borið allar þessar nýbyggingar. Okkar verkefni var meðal annars að skoða hvernig dreifistöð svæðisins, sem var á bak við Bæjarins bestu, félli að hönnun Pósthússtrætis. Síðar bættist við hönnun Hafnarstrætis og út frá því þurfti að skoða hvernig tengja ætti Hafnarstræti við Tryggvagötu. Í kjölfarið var ákveðið að endurhanna Tryggvagötu frá Kalkofnsvegi og út að Gróf. Framkvæmdum við Hafnarstræti lauk árið 2017 og það er búið að teikna alla Tryggvagötuna þótt bara hluti hennar sé tilbúinn. Það sem er eftir fer í framkvæmd á næsta ári.
Þórhildur: Tryggvagatan er að breytast úr bílastæðagötu yfir í miðborgargötu – sem er gríðarleg breyting. Til dæmis mun koma torg fyrir framan Tollhúsið og stóra mósaíkmyndin eftir Gerði Helgadóttur fær loks að njóta sín.
Áslaug: Það var gaman að vinna að þessu og við áttum gott samstarf við PKdM arkitekta, sem hönnuðu Hafnartorg, Eddu, og aðra hönnuði sem komu að endurbyggingu svæðisins. Endalaust samtal og samspil.
Landslagsarkitektúr er fjölbreytt fag, allt frá útsýnispöllum við náttúruperlur yfir í borgarlandslag. Hvernig er samstarfi landslagsarkitekta og borgarhönnuða háttað?
Þórhildur: Í borg vinna landslagsarkitektar allt rými á milli húsa. Fagið er yfir hundrað ára gamalt og lýtur að öllu nema byggingunum, hvort sem það eru garðar, útisvæði, útsýnissvæði eða annað. Þetta er í rauninni mjög breitt starfssvið. Borgarhönnun er mun nýrra fag sem hefur komið inn seinustu árin og tengt allt saman; arkitektúr, landslagsarkitektúr og borgarskipulag. Hún hugsar allt heildrænt og er með góða yfirsýn. Heildarhugmyndin kemur frá borginni og landslagsarkitektar og arkitektar hanna með hana í huga.
Hvaða stefnu er borgin með í þessum efnum?
Edda: Það þarf að vera svipaður stíll sem nær yfir viss svæði. Í Kvosinni á að halda í rólegan og gamlan stíl. Pósthússtrætið er vel heppnað að þessu leyti og því var kjörið að halda áfram með þann tón. Torg mega hins vegar skera sig úr og verða að stöðum sem maður tengir við eitthvert kennileiti eins og pylsuskiltið á Bæjartorgi eða Persil-klukkuna á Lækjartorgi.
Steinbryggjan var í áratugi falin undir landfyllingu en hefur nú fengið nýtt hlutverk. Var hún óvænt viðbót eða var gert ráð fyrir henni í upphafi?
Áslaug: Steinbryggjan var óvænt þegar hún kom í ljós. Við vissum að það væri eitthvað þarna en hún var svo heil!
Þórhildur: Alveg ótrúlega heil. Samkvæmt þeirri hönnun sem lá fyrir þegar framkvæmdirnar fóru af stað átti að vera fyllt yfir hana og Pósthússtrætið að halda áfram þar í gegn með umferð í báðar áttir.
Edda: Það voru allir sammála um að halda steinbryggjunni og gera hana sýnilega. Það er líka mikilvægt fyrir borgina að sýna menningararfinn. Sýna að hjarta Reykjavíkur er í Kvosinni. Þarna byrjaði borgarmyndunin og höfnin er svo nátengd þeirri sögu.
Þórhildur: Þetta gamla steingólf og þessi saga, það var ekki hægt að sleppa þessu tækifæri.
Edda: Og það er ótrúlegt miðað við öll þessi stóru hús í kring að það skín sól þarna nánast allan daginn. Það sem er líka skemmtilegt við Steinbryggjuna er að hún er kennileiti sem fer niður. Vanalega fara þau upp en hún fer niður.
Hverjar voru meginhugmyndir við úrvinnslu verksins?
Áslaug: Tryggvagatan er gata sem er með jarðtengingu og sá hluti sem er kominn byggir alfarið á blágrænni lausn þar sem regnvatnið fer ekki í lagnir heldur beint í gróðurbeðin. Áður var Tryggvagata mjög grá með mikilli bílaumferð en við ákváðum að hún ætti að vera græna gatan í miðbænum með fullt af trjám.
Þórhildur: Útgangspunkturinn er að gatan sé þægileg fyrir gangandi vegfarendur. Að þeim líði vel og að skalinn á götunni sé það smár að gangandi vegfarendur tengi við hann og taki frekar eftir smáatriðum eins og litlu bekkjunum. Þegar hannað er fyrir akandi er notaður allt annar skali.
Áslaug: Við vildum gera Tryggvagötuna að stofunni í miðborginni. Í stofunni ertu ekki með langa bekki í röð, þar ertu með stóla sem bjóða upp á samtal.
Edda: Þeir skapa ótrúlega nánd sem við viljum einmitt ná fram í borgarumhverfinu.
Er áskorun að hanna fyrir þann breiða hóp sem borgarbúar eru?
Þórhildur: Það er mjög skemmtilegt, því að það krefst þess að maður setji sig í spor alls konar fólks. Maður verður að hanna fyrir fólk frá 8-80 ára og fyrir hreyfihamlaða. Það eru allir með mismunandi þarfir.
Áslaug: Við höfum oft sagt að ef trén væru með WiFi væri auðvelt að fá að hafa fleiri tré en því miður framleiða þau bara súrefni. Við eyðum mun meiri orku í hugmyndina um snjallborg en í að huga að gróðri í borginni. Við þyrftum að snúa þeirri þróun við.
Þórhildur: Við eigum dálítið langt í land með að fá gróðurinn viðurkenndan. Bílastæði skipta alltaf meira máli en tré, bílastæðin eru talin en trén eru bara skraut.
Áslaug: Við erum að hanna Tryggvagötuna fyrir gangandi vegfarendur en á opnum kynningum hjá borginni spyr enginn: „Er nóg af bekkjum?“ „Er flæðið nógu gott?“ Hins vegar er fjöldi bílastæða ræddur.
Edda: Borgin er manngert umhverfi og við erum að skapa hana fyrir fólk. Grunnurinn að því að vel takist til er góð hönnun og þess vegna er svo mikilvægt að hönnuðir fái tækifæri til að taka þátt í samtalinu frá byrjun. Landslagsarkitektúr, arkitektúr, skipulagsfræði og lýsingarhönnun – þetta þarf allt að koma saman og vera hugsað út frá mannlegum þörfum. Svo má ekki gleyma líffræðilegum fjölbreytileika, gróðri og dýralífi sem veita borgarbúum mikilvæga tengingu við náttúru og árstíðir.