Sýningin Öllum hnútum kunnug opnar í Stokkhólmi
Sýningin Öllum hnútum kunnug, er þverfaglegt verkefni sem skoðar táknræna vídd reipisins í norrænni samtímamenningu eftir hönnuðina Brynhildi Pálsdóttur, Þuríði Rós Sigurþórsdóttur og Theresu Himmer. Sýningin opnar þann 7. febrúar í Hallwyl safninu á Stockholm Design Week.
Efnislegur og hugmyndafræðilegur grunnur verkefnisins hverfist um tvær reipagerðir: Hampiðjuna í Reykjavík og Aarhus Possementfabrik í Danmörku. Báðar hafa þær starfað frá því snemma á 20. öld og framleitt reipi með hérumbil sama tækjakosti, en í gjörólíkum tilgangi: annars vegar fyrir betri stofuna, hins vegar fyrir úthafið.
Menningarlega má staðsetja Öllum hnútum kunnug mitt á milli þessara tveggja heima; milli flæðandi sjávarsíðunnar þar sem reipi getur skilið milli lífs og dauða, og stássstofu Viktoríutímbilsins séða með augum nútímamannsins. Þrír norrænir listamenn hafa nú skapað muni með óvæntum fagurfræðilegum og hagnýtum eiginleikum.
Hönnuðurnir Brynhildur Pálsdóttir (IS), Þuríður Rós Sigurþórsdóttir (IS) og Theresa Himmer (DK) hófu rannsókn sína á viðfangsefninu 2017 og sýndu fyrstu niðurstöður hennar á Listasafni Reykjavíkur árið 2021. Þar sýndi þær efnistilraunir, vídeóverk, og reipistengda muni fyrir nútímaheimilið auk þess sem gefið var út bókverk um verkefnið og rannsóknarferlið. Hönnuðurnir hafa nú tekið yfir Hallwyl safnið í Stokkhólmi en safnið er eitt best varðveitta dæmi Norðurlandanna um heimili innréttað í stíl Viktoríutímabilsins við upphaf tuttugustu aldarinnar. Í gegnum rannsókn á ólíkum herbergjum hallarinnar, sem og stofnanda hennar, Wilhelmina von Hallwyl, hafa orðið til nýir hlutir og rannsóknin hefur þróast. Að auki kemur út nýtt bókverk.
Sýningin opnar 7. febrúar, samhliða Stockholm Design Week, og stendur til 5. mars 2023.