Tekjufallsstyrkir samþykktir í ríkisstjórn
Ríkisstjórnin samþykkti í dag að leggja fyrir Alþingi frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um tekjufallsstyrki vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.
Frumvarpinu er ætlað að aðstoða einyrkja og litla rekstraraðila sem hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi og er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni vegna faraldursins og leggja grunn fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfar hans.
Tekjufallsstyrkjum er m.a. ætlað að styðja minni rekstraraðila sem starfa í menningar- og listgreinum, ferðaleiðsögumenn og aðra minni aðila í rekstri.
Styrkirnir munu jafngilda rekstrarkostnaði (þ.m.t. reiknuðu endurgjaldi) á tímabilinu frá 1. apríl 2020 til 30. september 2020 en geta þó ekki orðið hærri en 400 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði hjá rekstraraðila á tímabilinu.
Tekjufallsstyrkir eru hluti af viðamiklum ráðstöfunum sem ríkisstjórnin hefur gripið til vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveirufaraldursins. Meðal aðgerða sem þegar hafa komið til framkvæmda eru greiðsla atvinnuleysisbóta samhliða skertu starfshlutfalli, lenging tímabils tekjutengdra atvinnuleysisbóta, greiðslur vegna launa einstaklinga á uppsagnarfresti, frestun á skattgreiðslum, veiting lokunarstyrkja auk brúar- og stuðningslána.
Helstu skilyrði þess að rekstraraðili geti sótt um tekjufallsstyrk:
- Hann hafi orðið fyrir minnst 50% tekjufalli á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september 2020.
- Að hámarki þrír launamenn starfi hjá rekstraraðila.
- Umsækjendur þurfa að auki að uppfylla skilyrði um skattskyldu á Íslandi, lágmarksveltu, skilvísi á opinberum gjöldum og gögnum til Skattsins og áframhaldandi rekstur.
Verði frumvarpið óbreytt að lögum mun Skatturinn sjá um afgreiðslu tekjufallsstyrkja.