„Umhverfið og framtíðin kalla á meiri meðvitund í hönnun“
Í haust verður í fyrsta sinn á Íslandi hægt að sækja sér menntun á meistarastigi í arkitektúr á Íslandi í Listaháskóla Íslands. Hildigunnur Sverrisdóttir, arkitekt og deildarforseti hjá LHÍ, segir dýrmætt að geta stundað nám í arkitektúr á Íslandi og mun það efla fagið og stuðla að sterkari stétt hérlendis. Sjálfbærni verður miðlæg í náminu og byggist á þeim sérstöku aðstæðum sem við búum við.
Hvaða þýðingu hefur það að hægt sé að sækja sér menntun á meistarastigi í arkitektúr á Íslandi?
Það er ótrúlega dýrmætt að geta lært jafn fjölþætt fag og arkitektúr í því umhverfi sem maður sprettur úr og í því umhverfi sem maður mun starfa í.Það er mjög áhugavert að heyra þá arkitekta sem hófu nám sitt hér og eru komnir aftur að utan eftir nám og jafnvel störf erlendis lýsa því hve mikilvægt það var fyrir þau að kynnast viðfangsefninu á kunnuglegum forsendum og ekki síður áhugavert að sjá hvernig hóparnir halda saman og mynda þar með annars konar samtal og vettvang en við sem stigum þessi skref erlendis.BA-námið hefur gert okkur kleift að tala saman um arkitektúr og spyrja til hans á forsendum okkar menningar á annan hátt en áður var hægt og þessi þáttur mun styrkjast til muna með komu meistarastigsins, það verður hægt að spyrja stærra, kafa dýpra og komast lengra með svörin – sem síðan skilar sér í aukinni þekkingu, bæði fyrir nemendur sjálfa en ekki síður fyrir samfélagið.Það hefur verið talinn ákveðinn kostur að hafa þurft að leita náms í arkitektúr erlendis – og sá möguleiki verður vissulega áfram fyrir hendi, að taka annað hvort námsstigið erlendis, já eða fara hreinlega í skiptinám.En á endanum vitum við að við þurfum að eiga við þær ýktu aðstæður sem hér eru - varðandi landið og veðrið, leguna og mannfæðina, aðfangaskort og löng ferðalög svo eitthvað sé nefnt.Að geta stundað þess háttar nám á staðnum, í nánum tengslum við fagið og það batterí sem að málum kemur, er afar dýrmætt og mun án vafa stuðla að sterkari stétt- og með aukinni þekkingarsköpun og nálægð einnig sterkari gjöf út í samfélagi.
Nú eru þið búin að kenna BA nám arkitektúr í LHÍ síðan árið 2002. Hefur það haft mikið að segja fyrir arkitekúr á Íslandi?
Tuttugu ár hljómar eins og langur tími, en ef tekið er inn í myndina að námið sjálft er að lágmarki 5 ár, margir taka sér hlé á milli BA og meistaranáms, ásamt því að hér varð hrun sem seinkaði sjálfsagt einhverjum, þá eru nú ekki mörg ár síðan fullmenntaðir arkitektar úr fyrstu árgöngunum fóru að snúa aftur að einhverju marki og setja svip sinn á fagið. Það sagt hafa þó nokkrar stofur verið stofnaðar af arktitektum sem hófu nám sitt hér, samkeppnir unnar og verk risið, þau eru byrjuð að skila sér inn í kennslu í skólanum að einhverju leyti og mörg þeirra hafa unnið á stofum hérlendis, hjá borginni eða sveitarfélögum. Þá hefur ýmislegt úr skólanum skilað sér t.d. í verkefni innan borgarinnar og víðar. Einnig hafa t.d. útskriftarsýningar og aðrar uppákomur á vegum skólans verið vel sóttar af faginu og þar með skapað ákveðið samtal og vettvang - vettvang sem við höfum allan hug á að styrkja enn frekar með auknum rannsóknum og kennslu á meistarastigi.
Mun MA námið einblína á einhver sérstök tema?
Já, námið verður að miklu leyti byggt á séreinkennum og viðfangsefnum hérlendis og þar er af ríkulegum spurningum að taka.Á hverju ári er ákveðið þema sem liggur til grundvallar, bæði hvað varðar sameiginlegar rannsóknir nemenda og síðan sem inngjöf inn í hönnunarferli hvers og eins.Þessi þemu byggja síðan hvert á öðru frá ári til árs og við það safnast í sarp nemenda og skólans. Okkur þótti við hæfi að beina sjónum okkar að grunninum í byrjun, að okkar byggingararfi og því sem hann gæti kennt okkur.Hvað fólst í torfinu, hvað getur torfið kennt okkur – og hvað er torf í nútímasamhengi?Hér er margt undir sem hægt er að rannsaka og taka í mismunandi áttir.
Að sjálfsögðu verður sjálfbærni miðlæg spurning í náminu og þá byggist námið á þeim sérstöku aðstæðum sem við búum við og spurningum sem þeim tengjast.
Hefur meistaranámið á Íslandi eitthvað annað fram að færa í samanburði við aðra staði?
Það er í raun margt sem gerir námið hér sérstakt. Í fyrsta lagi er uppbygging námsins, árið skiptist milli haustannar þar sem nemendur vinna saman að rannsóknum og safna saman efni sem síðan liggur til grundvallar persónulegum hönnunarverkefnum á vorönn. Áherslan í náminu er því sterk þegar kemur að rannsóknum og tilraunum í ýmsum miðlum og mismunandi ferlum hönnunar. Skólinn er lítill og því er samstarf og aðgengi að kennurum og sérfræðingum, stofnunum og öðrum deildum mikið. Þá byggir námið eins og maður segir á sérstöðu landsins sem er afar áhugaverð.
Ísland er ansi sérstakt fyrir margra hluta sakir. Veðurfar og náttúra kallar á meiri meðvitund í hönnun en margir þeir staðir þar sem Íslendingar hafa jafnan sótt nám. Hér eru byggingarefni af skornum skammti en mikið land og orka sem opnar einnig fyrir áhugaverðar spurningar. Þá gerir lega landsins það menningarlega áhugavert - milli Bandaríkjanna og Evrópu, á jaðri hins byggilega heims, á krossgötum sem senn munu opnast yfir heimskautið, allt hefur þetta áhrif á ýmsa vegu sem hafa og koma til með að hafa áhrif á hvernig við skipuleggjum umhverfi og innviði. Það er líka áhugavert að nú búa flestir í heiminum í borgum á stærð við Reykjavík, í kringum 300.000 manns – sem gerir Reykjavík áhugaverða sem dæmi, sérstaklega þar sem hún er svo ung og enn í mótun.
Mun meistaranámið leiða til fleiri rannsóknarverkefna á íslenskum vettvangi?
Það mun klárlega gera það, bæði hvað varðar rannsóknir sem tengjast sjálfu náminu, þ.e. rannsóknir nemenda sjálfra en einnig hvað varðar þann gagnkvæma styrk sem felst í að tengja rannsóknir kennara inn í það ferli. Reyndar hefur BA námið einnig verið að hluta byggt á rannsóknum t.d. hvað varðar Reykjavík, en það er hægt að fara talsvert dýpra ofan í saumana á meistarastigi og prufa mismunandi útfærslur í hönnunarferlunum sjálfum. Með þessu skrefi næst að styrkja rannsóknarvettvang í arkitektúr við skólann til muna og möguleika til að tengja okkur enn betur við þetta námsstig í öðrum háskólum til gagnkvæms samtals og samvinnu. Rannsóknir í arkitektúr eru af skornum skammti hérlendis, það verður að bæta, Ísland er eina landið í Evrópu sem ekki hefur fullnaðarnám í arkitektúr og það hefur birst í takmörkuðum vettvangi rannsókna á forsendum arkitektúrs.
Þegar meistaranámið var byggt upp, var litið til annara arkitektaskóla varðandi uppbyggingu fagsins, ef svo er, til hverra aðallega?
Meistaranámið hefur verið lengi verið markmið í skólanum og undirbúningsferlið ansi þétt á undanförnum árum. Stýrinefnd skipuð akademískum starfsmönnum skólans undir stjórn Sigrúnar Birgisdóttur fyrrverandi deildarforseta, þeim Önnu Maríu Bogadóttur, Massimo Santanicchia, Birni Guðbrandssyni og Steinþór Kára Kárasyni, fulltrúum AÍ og annarra tengdra aðila átti fjölda viðtala við fyrrverandi og núverandi nemendur og kennara skólans og reynslan af kennslu undanfarinna ára var endurskoðuð og sett í samhengi við þarfir og þekkingu við mótun námsins. Við búum að miklu ríkidæmi áhrifa þar sem arkitektar hérlendis hafa hlotið menntun sína víða um heim og kennarar við skólann sjálfir lært fagið í mismunandi námsformi. Við fyrrgreinda vinnu var námsframboð ýmissa skóla skoðað og metið, en það liggur í sjálfu sér ekki nein forsögn annars staðar frá fyrir þessari leið. Hún byggir meira á þeirri þekkingu sem hér býr, þeirri reynslu sem hefur skapast og þeim tækifærum sem við teljum að við höfum upp á að bjóða.
Munu gestakennarar frá öðrum skólum erlendis taka þátt?
Eins og í BA-náminu munum við leggja ríka áherslu á að leita eftir samtali og samstarfi við erlenda skóla sem við teljum að gætu gert starfið safameira og sterkara, bæði með því að bjóða gestakennurum í skemmri eða lengri tíma á hverju ári, sem og fyrirlesurum og prófdómurum. Kennarar skólans eru með ansi vítt tengslanet erlendis og skólinn sjálfur í virku samstarfi við skóla víða um heim, hvað varðar kennara- og nemendaskipti og í gegnum rannsóknir. Þá eru námsferðir erlendis einnig talsvert algengar á öllum árum námsins. Við vonum ennfremur að erlendir nemendur muni sjá hag í að koma til okkar og fara í gegnum námið hér, námið er alþjóðlegt og kennt á ensku einmitt til að tryggja sem ríkulegast flæði.
Hvaða færni viljið þið að nemendur hafi öðlast að loknu námi?
Sterka og faglega arkitektóniska getu. Og hvað felst í því? Vissulega er hönnunin sjálf miðlæg, sterk geta til formmótunar og skipulags umhverfis. En í því býr líka getan til að spyrja ábyrgra spurninga, getan til að hugsa bæði skapandi en einnig gagnrýnið til þeirra þátta sem arkitektúr grundvallast á. Við lifum á tímum þar sem ljóst er að næsta kynslóð mun þurfa að kljást við áskoranir og sennilega vanda sem okkur órar kannski ekki fyrir núna – en blasa samt við. Víða blasir við ójafnvægi, ójöfnuður. Það er þörf á endurskoðun og endurskilgreiningu, að læra af reynslu, en reyna nýjar leiðir til að lágmarka sóun og nýta efni og aðstæður á skynsamlegan hátt. Við vijlum sjá næstu kynslóð arkitekta sem meðvitaða og ábyrga gerendur og viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að undirbúa þau, hjálpa þeim að orða spurningarnar sem þau sjálf þurfa síðan að finna svörin við.
Hvernig er aðstaða LHÍ fyrir komu þessa náms?
Við búum að sterku og reyndu kennaraliði, bæði hvað varðar fastráðna akademíska starfsmenn en einnig höfum við verið í gjöfulu samtali við starfandi arkitekta úti í feltinu, sem hafa komið og kennt með okkur, þannig að útfrá mannauði er staðan góð. Kennarahópurinn á meistarastiginu er þétt skipaður hæfu og reyndu fólki, þeim Birni Guðbrandssyni, Önnu Maríu Bogadóttur, Massimo Santanicchia, Steve Christer og Margréti Harðardóttur.
Sjálf aðstaðan er líka nokkuð góð – núverandi staðsetning námsins í Þverholtinu getur tekið við meistaranáminu á sama stað og munu arkitektúrnemar á öllum árum því njóta góðs af því að deila teiknisölum hvert með öðru.Skólinn býður upp á ýmis verkstæði til módelgerðar sem deildin deilir með t.d. hönnun og myndlist og það getur leitt af sér gefandi samlegð.Frá teiknisölunum er útsýni yfir bæinn og flóann, upp á Esju og skólinn er staðsettur steinsnar frá Laugaveginum og miðbænum – ekki leiðinlegt þegar maður er að læra um samlífi manna og náttúru!