Umsóknarfrestur á HönnunarMars 2024 til 10. janúar
Opið er fyrir umsóknir um þátttöku á HönnunarMars 2024 sem fer fram dagana 24. - 28. apríl. Umsóknarfrestur til 10. janúar. Dagskráin er farin að taka á sig spennandi og fjölbreytta mynd, en margar umsóknir bárust í snemmskráningu í haust. Það er því hægt að byrja að telja niður í hátíð með hækkandi sól.
HönnunarMars er hátíð hönnunar og arktitektúrs þar sem fjölbreyttar og forvitnilegar sýningar, viðburðir og samtöl veita þátttakendum og gestum innblástur og innsýn í nýjar lausnir og skapandi hugmyndir sem takast á við áskoranir samtímans.
Fagráð HönnunarMars, skipaður fulltrúum félaganna, Listaháskólans, Reykjavíkurborgar og hátíðarinnar, fer yfir allar umsóknir.
Venju samkvæmt verður fjölbreytt dagskrá hátíðarinnar á stöðum á borð við á Hafnartorgi, í Ásmundarsal, Hörpu, Norræna húsinu, Grósku hugmyndahúsi, Elliðaárstöð, Hönnunarsafni Íslands og öðrum spennandi sýningarstöðum.
Þátttökugjöld:
- 30.000 kr Félagsmenn Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs
- 60.000 kr. Aðrir
Stærri samsýningar, nemendasýningar og fyrirtæki vinsamlegast hafið samband á dagskra@honnunarmars.is varðandi þátttökugjald.
HönnunarMars er kraftmikil og áhugaverð hátíð sem ólíkar greinar hönnunar og arkitektúrs sameinast og dagskráin snertir á fjölbreytilegum hliðum samfélags og atvilnnulífs, allt frá fatahönnun til vöruhönnunar, arkitektúrs, grafískrar hönnunar, textílhönnunar, leirlistar, þjónustuhönnunar, stafrænnar hönnunar svo dæmi séu nefnd.
Hátíðin er ein af borgarhátíðum Reykjavíkur og farið fram árlega frá árinu 2009. Á hátíðinni breiða sýningar og viðburðir úr sér um höfuðborgarsvæðið þar sem gestum gefst tækifæri til að versla íslenska hönnun, sækja sér innblástur og kynnast grósku og nýsköpun hönnunarsamfélagsins.