Úrslit í samkeppni FÍT um tákn fyrir íslensku krónuna
Í gær var formleg opnun sýningarinnar „Tákn fyrir íslensku krónuna“ sem er afrakstur samkeppni Félags íslenskra teiknara í tilefni HönnunarMars með stuðningi Seðlabanka Íslands. Samkeppninni er ætlað að ýta við lítilli þjóð og spyrja spurningarinnar „Af hverju á íslenska krónan ekki sitt eigið tákn?“
Opnunin var haldin í Grósku hugmyndahúsi þar sem fjöldi fólks mætti saman til að fagna verkefninu. Yfir 70 innsendingar bárust í keppnina og eru 16 tákn til sýnis ásamt yfirlitsmynd af öllum innsendum táknum.
Gísli Arnarson, formaður FÍT, og Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri, afhentu þrenn verðlaun fyrir hlutskörpustu tillögurnar.
3. sætið — Íslensk kóróna, Jón Ari Helgason
Í umsögn dómnefndar kemur fram að um kraftmikla teikningu sé að ræða með augljósa vísun í erlenda gjaldmiðla með afgerandi þverlínu. Með því að snúa K-inu verður til kóróna sem er snjöll tenging við söguna og uppruna gjaldmiðilsins.
Hér er leitað í uppruna orðsins króna sem leitt er af orðunum „krúna“ eða „kóróna“. Einfalt tákn sem notar form stafana I og K og auðvelt er að aðlaga að mismunandi leturgerðum sem og handskriftar.
2. sætið — Króna, Úlfur Kolka
Dómnefnd var sammála um að táknið væri einfalt og stílhreint þar sem þverstrikin vísa í þekkta gjaldmiðla á borð við evru og japanska jenið.
Stórir gjaldmiðlar á borð við dollarann, evruna, pundið og jenið eru samsettir af bókstaf eða tákni sem ein til tvær línur ganga í gegnum. Mörg tákn gjaldmiðla sem nota tvær línur í gegnum bókstaf eiga það þó til að verða óskýr þegar búið er að smækka þau mikið. Má þar t.d. nefna hið kóreska won (₩) og nígerískt naira (₦). Þetta hefði mátt leysa með því að fjarlægja þann hluta bókstafsins sem er milli línanna tveggja. Það hefði einnig gert táknin fágaðri, að mínu mati. Ég ákvað því að gera slíkt hið sama við táknið sem ég hannaði.
1. sætið — Króna + Fé, Sigurður Oddsson, Elísabet Rún, Sunneva Snorradóttir og Viktor Weisshappel
Þrjár innsendingar bárust með sama merkinu og deila hönnuðir þeirra innsendinga 1. sætinu
Sterk tenging við rúnir vakti athygli dómnefndar. Táknið er nógu einfalt til að hægt sé að útfæra það í mismunandi leturgerðum og leturvigtum. Tengingin við rúnir var áberandi í samkeppninni og taldi dómnefndin að með þessari tillögu væri sú leið afar vel útfærð.
Innblásturinn er norrænt rúnaletur og er táknið annars vegar myndað úr rúninni ᚠ sem merkir fé eða auð. Hins vegar myndar táknið K sem er augljós vísun í krónuna. Þannig tengir nýja táknið fortíð og nútíð, samnorrænan menningararf og íslenskan samtíma.
Dómnefnd var skipuð 3 aðilum frá FÍT, þeim Gísla B. Björnssyni, Atla Hilmarssyni og Kristínu Evu Ólafsdóttur ásamt einum fulltrúa frá Seðlabanka Íslands, Stefáni Rafni Sigurbjörnssyni.
Sýningin „Tákn fyrir íslensku krónuna“ er hluti af HönnunnarMars sem opin verður til og með 8. maí. Við hvetjum alla til að koma við í Grósku á Bjargargötu 1 í Vatnsmýrinni og skoða allar tillögur sem í keppnina bárust.