Valdís Steinarsdóttir vinnur Formex Nova verðlaunin 2020
Vöruhönnuðurinn Valdís Steinarsdóttir hlýtur sænsku hönnunarverðlaunin Formex Nova 2020 en þetta var tilkynnt nú í morgun. Verðlaunin hlýtur hún fyrir verkefni sín Bioplastic Skin og Just Bones og hrósar dómnefndin Valdísi sérstaklega fyrir metnað til að hanna einstakar lausnir á samfélags- og umhverfislegum vandamálum í opnu samtali við áhorfendur.
Í viðtali við Formex Nova þakkar Valdís fyrir þennan mikla heiður sem verðlaunin eru og segir þau heljarinnar viðurkenningu fyrir hennar vinnu og muni eflaust opna margar dyr.
Fyrir mig verður hlutur fallegur um leið og ég veit söguna á bakvið og skil dýpri meiningu hans. Framleiðsluferlið finnst mér fallegt. Það er ekkert að því að búa til hluti einungis út frá fagurfræðilegum forsendum en sjálf vil ég nýta mér það að við sem hönnuðir höfum mikil áhrif á samfélagið og það má segja að við séum sögumenn okkar tíma, sem getum með áþreifanlegum hætti beint sjónum að samfélagslegum vandamálum.
Í umsögn dómnefndar Formex Nova segir „Hönnun sem einblínir á tilraunakennd efni og að finna einstakar lausnir að samfélagslegum og umhverfislegum vandamálum. Gegnum verkefni sín leitar Valdís að opnu samtali við áhorfendur um samfélagslegar breytingar í gegnum hönnun.“
Valdís hefur undanfarið vakið mikla athygli sem hönnuður en hún sýndi Just Bones í Hafnarhúsinu á HönnunarMars núna í júní auk þess sem hún hannaði verkið Torg í speglun ásamt Arnari Inga Viðarssyni sem opnaði á hátíðinni og stendur á Lækjatorgi. Formex Nova verðlaunin voru fyrst afhent fyrir fimm árum síðan í tengslum við Formex hönnunarsýninguna í Stokkhólmi og hefur það að markmiði að kynna og efla norræna hönnun. Verðlaunin beina sjónum sínum að ungum hönnuðum sem vinna á Norðurlöndunum. Meðal þeirra sem hafa hlotið tilnefningu eru Ragna Ragnarsdóttir, sem einnig vann verðlaunin árið 2018 og í fyrra var vöruhönnuðurinn Theodóra Alfreðsdóttir tilnefnd.