Vegrún kynnt á ráðstefnu Slysavarnarfélagsins Landsbjörg
Vegrún, merkingarkerfi fyrir ferðamannastaði og friðlýst svæði, verður með kynningu á morgun, laugardaginn 16. október á ráðstefnu Slysavarnarfélagsins Landsbjörgu sem fer fram á Grand hótel. Gerður Jónsdóttir, verkefnastjóri Góðra leiða og Atli Þór Árnason, hönnuður Kolofon, sem sáu um hönnun merkingarkerfisins sjá um kynninguna sem fer fram kl. 9 - 9.45.
Um fyrirlestur:
Vegrún er nýtt merkingakerfi, ætlað öllum þeim sem setja upp merkingar á ferðamannastöðum eða friðlýstum svæðum. Vegrún stendur öllum til boða jafnt opinberum aðilum sem og einkaaðilum um allt land. Kerfið er hannað til að samræma merkingar hér á landi, til einföldunar fyrir uppbyggingaraðila og til að bæta upplifun ferðamanna, auka gæði, samræma upplýsingagjöf og auka öryggi og er þannig mikilvægur hluti af stýringu ferðamanna, slysavörnum.
Eitt af megineinkennum vinnu Vegrúnar var að efla til víðtæks samtals milli stofnana, sveitarfélaga, fagfólks og ferðaþjónustuaðila. Verkefnið er sprottið úr Landsáætlun, stefnu hins opinbera í innviðauppbyggingu. Vinna við Vegrúnu hófst haustið 2019 og var tekin í notkun vorið 2021. Í fyrirlestrinum fara Gerður og Atli Þór yfir tilurð og hönnun kerfisins.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs stendur að gerð merkingarkerfisins. Vegrún er hönnuð af hönnunarteyminu Kolofon&co en teymið var valið úr 23 teymum sem sóttu um að hanna kerfið. Í teyminu er fjölbreyttur hópur einstaklinga, hver með sína sérþekkingu sem nýtist hönnun Vegrúnar. Hönnun kerfisins hófst haustið 2020. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs sá um þróun og framkvæmd verkefnisins og var tengiliður milli þeirra fjölmörgu aðila sem komu að verkefninu.
Aðaláhersla Kolofon&co við hönnun kerfisins var að skapa heildstætt kerfi þar sem gæði og virðing fyrir náttúru og umhverfi er höfð að leiðarljósi. Hannað var nýtt letur fyrir Vegrúnu, Stika Sans og er efniviður í skiltunum sóttur í íslenskan efnivið og innlenda framleiðslu.