Vegvísir að vistvænni mannvirkjagerð kominn í samráðsgátt

Innviðaráðuneytið hefur fyrir hönd Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar birt Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Opið er fyrir umsagnir til og með 31. ágúst nk. og eru allir áhugasamir aðilar hvattir til þess að skila inn umsögn.
Í vegvísinum eru sett fram markmið um vistvænni mannvirkjagerð og aðgerðir til að ná þeim markmiðum fyrir árið 2030. Þetta er í fyrsta sinn sem losun, markmið og aðgerðir fyrir vistvæna mannvirkjagerð á Íslandi eru skilgreind með þessum hætti. Vegvísirinn var unninn á vegum Byggjum grænni framtíð, sem er samstarfsvettvangur stjórnvalda og byggingariðnaðarins um vistvæna mannvirkjagerð. HMS heldur utan um samstarfsvettvanginn Byggjum grænni framtíð.