Við erum afurð umhverfis okkar og reynslu
—
Studio Brynjar & Veronika
Brynjar Sigurðarson hlaut hin virtu Torsten & Vanja Söderberg hönnunarverðlaun árið 2018. Hann er þekktur fyrir einstaka hönnun sem er innblásin af íslenskri menningu og náttúru en í henni tvinnar hann nýstárlegar hönnunaraðferðir og frásagnir saman við hefðbundið handverk. Brynjar vinnur náið með eiginkonu sinni, Veroniku Sedlmair, og þau reka í sameiningu Studio Brynjar & Veronika. Listrænt vinnuferli þeirra er inntak sýningarinnar Fyrirvara sem lauk nýverið í Hafnarborg.
Getur þú sagt okkur aðeins frá sýningunni?
Við erum að reyna að skapa umhverfi þar sem nýir hlutir koma í ljós og gera tilraun til þess að finna tengingar á milli hlutanna sem við höfum verið að vinna að. Með því móti verður sýningin að eins konar fyrirvara þess sem á eftir kemur.
Getur þú útlistað nánar samband náttúru og menningar í verkunum á sýningunni?
Jarðfræði er mjög heillandi grein. Hún fjallar í meginatriðum um það hvernig hlutir verða til í náttúrunni. Náttúrulegar framleiðsluaðferðir. Í fyrstu litu mannfræðingar á sig sem hlutlausa rannsakendur framandi menningarsamfélaga. Í seinni tíð hefur þetta viðhorf breyst í kjölfar aukinnar meðvitundar um þá staðreynd að við erum aldrei hlutlaus.
Mannfræðingurinn reyndi í kjölfarið að verða meðvitaðri um sína eigin stöðu gagnvart viðfangsefninu – til að útskýra áhrif uppruna síns og persónulegs sjónarhorns á rannsóknina. Ég hef alltaf tengt við þessa nálgun. Við erum afurð umhverfis okkar og reynslu og verðum þar af leiðandi aldrei hlutlaus.
Sögur eru ykkur mikilvægar, hvernig miðlið þið sögu hlutar? Hvernig „segir“ hlutur sögu?
Án þess að gera okkur grein fyrir því þá virðumst við skoða fyrirbæri á línulegan hátt, eins og röð og keðjuverkun atburða, eitt leiðir af öðru. Frásögn er meira og minna svoleiðis – lýsing á einhverju sem gerist – og það sem gerist er alltaf nátengt tíma og tímalínu.
Hvað varðar hlutina sem við búum til reynum við að vera ekki með fyrirfram tilbúna sögu. Það má vera vísir að einhverju en við reynum að halda þessu opnu. Skapa hlut sem getur leitt af sér ólíkar aðstæður og atburði. Það er hugsanlega þess vegna sem við reynum að vinna með fólki með ólíkan bakgrunn. Helst myndum við vilja búa eitthvað til sem einhver annar myndi svo taka og bæta við, þannig byrjar saga að myndast.
Hvaða efni eruð þið að vinna með?
Við erum almennt heilluð af náttúrulegum efnum á borð við brons, postulín og gler. Efni sem tæknilega séð gætu enst öldum saman. Við erum líka forvitin um ferlin sem tengjast þeim, til dæmis steypumótun í sandi, þar sem málmur er hitaður þangað til að hann verður glóandi og fljótandi líkt og hraunkvika sem er hellt í sandmótið.
Við höfum einnig verið að nota aðferð sem kallast pate de verre þar sem blandað er saman ögnum af köldu gleri sem eru sett í plastmót og elduð. Nokkrum dögum síðar er mótið fjarlægt og þá sér maður afraksturinn. Þetta eru eins konar galdrar – að vinna að uppskriftum.
Hvaða eiginleikum verður nýr hlutur sem mótaður er inn í þennan heim að búa yfir þegar tekið er tillit til umhverfismála og neysluhyggju?
Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá veit ég það ekki. Mér líður eins og ég skilji sífellt verr hvernig ég á að nálgast umhverfi mitt. Þræðir sannleikans eru margir en kannski getum við haft meiri stjórn, eða yfirsýn, ef við vinnum meira staðbundið. Það væri áhugavert að sjá hvernig heimurinn liti út ef við værum ekki að flytja hluti um hnöttinn á þann hátt sem við gerum nú.
Fjöldaframleiðsla er áhugaverð fyrir hönnuði – að hanna eitthvað sem er framleitt í margfeldi og selt út um allan heim. Þetta er oft gert af fyrirtækjum sem hafa miðstýrða framleiðslu, þar sem allt er framleitt og sett saman á einum stað og svo flutt út. Væri hægt að afnema miðstýringu framleiðslunnar þannig að sami hlutur væri frekar framleiddur á mörgum stöðum?
Sumt fólk þrífst á því að sanka að sér hlutum á meðan aðrir tengja frekar við naumhyggju en það er virkilega góð hugmynd að vera meðvituð um umhverfi okkar og hvað við eigum. Nálgast hlutina okkar af ást og samkennd, alveg eins og við reynum að nálgast hvert annað. Við þurfum ekki bara að vera góð hvert við annað, heldur líka við allt í umhverfi okkar.
Hverjar eru vinnuaðferðir ykkar?
Ég er meira í harkinu – hversdagslegu vinnunni við þróun hugmynda og verkefna. Veronika kemur svo til sögunnar með sitt innlegg þegar hlutirnir byrja að taka á sig mynd. Dularfull vera sem birtist fyrirhafnarlaust og hjálpar mér að sjá skýrar.
Í upphafi samstarfsins einblíndum við á að finna sameiginlega rödd. Með tímanum áttuðum við okkur á að við erum sterkari þegar við vinnum sjálfstætt en með stuðningi hins. Þetta er nokkuð sem við erum ennþá að þreifa fyrir okkur með. Hvert verkefni stokkar spilin upp á nýtt.