Sýningin Wasteland opnar í Norræna húsinu
Hvernig getum við lágmarkað myndun úrgangs og umframefna á Íslandi og getum við nýtt þau verðmætu efni sem falla til hér á landi betur í staðbundnum verkefnum innan byggingariðnaðarins? Sýningin Wasteland eftir dansk- íslenska nýsköpunar- og arkitektastofuna Lendager opnar í Norræna húsinu laugardaginn 10. febrúar.
Á sýningunni verða settar fram hugmyndir og tillögur að lausnum á því hvernig við getum unnið með hráefni sem annars væru send til urðunar eða í orkufreka endurvinnslu með sjálfbærum hætti.
Athyglinni verður beint að stærstu efnisstraumunum, gleri, steypu, timbri, plasti og málmum. Kafað verður í rót vandans og leitað lausna við að nýta þessi efni með nýskapandi hætti hér á landi í byggingum framtíðarinnar. Verkefnin verða skoðuð í samhengi við íslenskar aðstæður, efnisstrauma og byggingarreglugerð og ljósi varpað á áskoranir sem kunna að vera þeim tengdum.
Á sýningunni verður margra ára rannsókna- og tilraunavinnu stofunnar miðlað þar sem viðteknum venjum hefur verið ögrað með það að markmiði að skapa samtal og leita lausna svo hægt sé að takast á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á sviði umhverfismála.
Lendager er dönsk- íslensk nýsköpunar og arkítektastofa sem vinnur að því að færa byggingariðnaðinn í átt til aukinnar hringrásar og sjálfbærni.
Sýningin verður einnig á dagskrá HönnunarMars 2024 með fjölbreyttum viðburðum sem tengjast sýningunni á hátíðinni sem fer fram dagana 24. - 28. apríl næstkomandi.