Um félagið
Stjórn
Ritari:
Helga Arnalds
Meðstjórnandi:
Katrín V. Karlsdóttir
Hanna Margrét Einarsdóttir
Upphaf félagsins
Upphaf leirlistar á Íslandi er rakin frá árinu 1930 þegar Guðmundur frá Miðdal stofnaði Listvinahúsið, fyrstu leirmunagerð landsins. Hann hóf markvissar rannsóknir á íslenskum leir og nýtti hann í verk sín. Guðmundur lét smíða fyrir sig kolakynntan leirbrennsluofn í Þýskalandi og var það hátíðleg og söguleg stund þegar hann var opnaður eftir fyrstu brennslu. Leirmunagerð Guðmundar var sú eina hér á landi í langan tíma.
Eftir síðari heimsstyrjöldina þegar samgöngur urðu auðveldari milli landa fóru margir í listnám erlendis og komu heim með nýja strauma og stefnur. Um 1950 voru hér starfandi þrjá leirmunagerðir. Laugarnesleir sem hjónin Gestur Þorgrímsson og Sigrún Guðjónsdóttir stofnuðu. Leirmunagerð Benedikts Guðmundssonar að Sjónarhóli við Bústaðaveg í Reykjavík og Leirmunagerðin Funi þar sem Ragnar Kjartansson var meðeigandi. 1957 var Funi lagður niður en tæki og tól þess notaði Ragnar til að stofna Glit sem varð stórfyrirtæki og vel þekkt bæði innanlands og utan. Upp úr þessu fóru fleiri og fleiri erlendis að nema leirlist og settu upp sín eigin verkstæði eftir nám. Margir þeirra stigu sín fyrstu skref í Glit.
1969 var stofnuð keramikdeild við Myndlista og handíðaskólann og var Jónína Guðnadóttir fyrsti umsjónarmaður deildarinnar sem útskrifaði um þrjátíu nemendur fyrsta áratuginn.
1979 tóku nokkrir leirlistamenn sig saman og héldu sýningu sem þeir kölluðu “Líf í Leir” þessi sýning markaði tímamót því hún varð kveikjan að stofnun Félags Íslenskra Leirlistamanna. Stofnfélagar voru 11 talsins og fyrsti fundur var haldinn 17. febrúar 1981.
Stofnfélagar eru:
Borghildur Óskarsdóttir
Edda Óskarsdóttir
Elísabet Haraldsdóttir
Gestur Þorgrímsson
Guðný Magnúsdóttir
Haukur Dór
Jóna Guðvarðardóttir
Jónína Guðnadóttir
Kolbrún Björgólfsdóttir
Sigrún Guðjónsdóttir
Steinunn Marteinsdóttir.
Félagið hét fyrst um sinn Félag Íslenskra Leirlistamanna en í daglegu tali manna á milli var það yfirleitt kallað Leirlistafélagið og seinna var nafninu breytt í Leirlistafélag Íslands. Það hefur í gegn um tíðina staðið fyrir og haft hönd í bagga með mörgum sýningum og öðrum uppákomum sem tengjast leirlist og keramikhönnun félagsmanna innanlands og erlendis ásamt því að greiða götu fyrir erlenda listamenn sem hafa viljað sýna hér á landi. Fyrsta samsýning félagsmanna í nafni félagsins var í Listmunahúsinu á Listahátíð árið 1982 og hét einfaldlega “Leirlist 82”.
Félagsstarfið hefur verið líflegt í gegn um tíðina, heimsóknir á vinnustofur, sýningar skoðaðar og brennslumót haldin þar sem mismunandi brennsluaðferðir hafa verið prófaðar.
Um haustið 1982 var stofnfundur SÍM með fulltrúum allra myndlistafélaga, fyrstu fulltrúar Leirlistafélags Íslands í stjórn SÍM voru Jóna Guðvarðar og Borghildur Óskarsdóttir. Það má til gamans geta að árgjald Leirlistafélagsins þetta ár var kr.200 og kr.500 hjá hinu nýstofnaða félagi SÍM.
Leirlistafélag Íslands lagði mikla áherslu á það á fyrstu árunum frá stofnun að safna gögnum og upplýsingum um sögu leirlistar á Íslandi. Án þessarar vinnu væri sjálfsagt margt glatað og gleymt.
Árið 1993 voru hjónin Sigrún Guðjónsdóttir (Rúna) og Gestur Þorgrímsson gerð að fyrstu heiðursfélögum Leirlistafélagsins við hátíðlega athöfn.
Þær sýningar sem taldar eru upp hér eru aðeins örfáar af þeim sýningum og uppákomum sem félagið hefur staðið fyrir.
1995 var vegleg sýning á leirlist á Kjarvalsstöðum og í tengslum við hana skrifaði Eiríkur Þorláksson bók um sögu Leirlistar á Íslandi.
1996 var afmælissýning félagsins “Leir í lok aldar” haldin í Hafnarborg.
2000 var Gjörningurinn “Logandi List” framkvæmdur í miðbæ Reykjavík í tilefni af þvi að “Reykjavík Menningarborg 2000”
Vinnustofa á Korpúlfsstöðum var tekin á leigu haustið 2008 og var það stórt skref í sögu félagsins. Félagið fjárfesti í ofni og öðrum græum sem nauðsynlegar eru á keramik verkstæði. Vinnustofan er leigð út til félagsmanna og annarra sem menntun hafa í keramiki.
Lög Leirlistafélags Íslands
I. KAFLI Nafn og tilgangur félagsins
1. grein
Félagið heitir: Leirlistafélag Íslands, sem þýðist á ensku: The Icelandic Association of Ceramic Artists.
2. grein
Leirlistafélag Íslands er fagfélag leirlistamanna á Íslandi. Hlutverk félagsins er að efla þekkingu á faginu með sýningum og fræðslu. Félagið hefur það að leiðarljósi að gæta hagsmuna félagsmanna og efla samheldni þeirra auk þess að stuðla að framþróun í faginu.
II. KAFLI Inngönguskilyrði í félagið
3. grein
Sá sem óskar inngöngu í félagið, skal senda stjórn félagsins skriflega umsókn með upplýsingum um nám og starfsferil. Nýir félagsmenn skulu teknir í félagið á næsta stjórnarfundi eftir að stjórn hefur yfirfarið umsóknir og samþykkt, þó eigi síður en 2 mánuðum eftir að umsókn berst.
4. grein
Til að hafa rétt til inngöngu í Leirlistafélag Íslands þarf umsækjandi að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
Að hafa lokið viðurkenndu námi í myndlist við viðurkenndan listaskóla, eða sem svarar a.m.k. tveggja ára námi að loknu stúdentsprófi, eða sambærilegu námi. Að öðrum kosti þarf umsækjandi að uppfylla fjögur af neðangreindum skilyrðum:
- Önnur menntun í myndlist (að lágmarki samtals 2 ár) staðfest með yfirlýsingu viðkomandi stofnunar.
- Ein eða fleiri einkasýningar í opinberum sýningarstöðum. Staðfesting fylgi.
- Þátttaka í alþjóðlegri sýningu, samsýningu styrktri af opinberum aðilum eða ekki færri en fimm samsýningum öðrum. Staðfesting fylgi.
- Verið falið af dómnefnd að vinna að listskreytingu á opinberum vettvangi. Staðfesting fylgi.
- Eiga minnst eitt verk í opinberri eigu, keypt af viðkomandi safnráði eða matsnefnd. Staðfesting fylgi.
- Hafa hlotið opinberan styrk eða starfslaun. Staðfesting fylgi.
5. grein
Félagsmanni, sem að mati aðalfundar hefur orðið uppvís að því að vinna gegn hagsmunum félagsins, má vísa úr félaginu og þarf til þess 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi félagsins.
6. grein
Félagar greiði félagsgjöld innan árs frá gjalddaga og séu að öðru leyti skuldlausir við félagið vilji þeir halda rétti sínum til sýninga, kjörgengis og kosninga. Greiði félagsmaður ekki árgjaldið tvö ár í röð telst hann genginn úr félaginu. Stjórn félagsins hverju sinni, félagar 70 ára og eldri svo og heiðursfélagar eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda. Meðlimir sem ekki eru skuldlausir við félagið skulu greiða fullt gjald fyrir þátttöku í sýningum á vegum félagsins og einnig fyrir notkun á aðstöðu þess.
7. grein
Ef félagsmaður hyggst ganga úr félaginu þarf stjórn að berast skrifleg afsögn hans.
III. KAFLI Fundir félagsins
8. grein
Aðalfund skal halda í apríl ár hvert. Fundurinn skal boðaður með tölvupósti eða skriflega með minnst tveggja vikna fyrirvara. Fundurinn er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Breytingar á stjórn skal kynna í fundarboði til aðalfundar. Aðalfundur ákveður árgjald félagsins. Endurskoðaðir reikningar félagsins skulu liggja frammi á aðalfundi. Félagsmaður sem ekki mætir á aðalfund, en vill nota kosningarétt sinn, skal senda tölvupóst til stjórnar með minnst sólahrings fyrirvara. Stjórn ber að staðfesta móttöku á slíkum tölvupósti.
9. grein
Lögum félagsins má aðeins breyta á aðalfundi eða framhaldsaðalfundi. Lagabreytingar skulu kynntar í fundarboði til aðalfundar. Til að samþykkja lagabreytingu þarf meirihluti fundarmanna á aðalfundi að vera samþykkur breytingunni. Fyrirhugaðar lagabreytingar skulu ræddar á síðasta fundi félagsins fyrir aðalfund.
10. grein
Félagsfundi skal halda þegar stjórnin telur þess þörf, eða þriðjungur félagsmanna óskar þess. Félagsfundi skal boða með minnst viku fyrirvara.
IV. KAFLI Stjórn félagsins
11. Grein
Stjórn félagsins skipa, formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur. Kosnir eru 2 stjórnarmenn á hverju ári til 2ja ára í senn. Annað árið ritari og meðstjórnandi og hitt árið gjaldkeri og meðstjórnandi. Formaður er kosinn sér til eins árs í senn.
12. grein
Formaður skal boða til funda og stjórna þeim, eða skipa fundarstjóra í sinn stað. Hann
skal vinna að stefnumörkun fyrir félagið í samráði við stjórn. Ritari skal rita niður allt það sem gerist á fundum félagsins ásamt að rita bréf fyrir félagið í samráði við formann. Gjaldkeri skal sjá um fjárreiður félagsins í samráði við stjórn og skal vera ábyrgur fyrir greiðslu reikninga þess. Prókúra á reikninga félagsins er aðeins í höndum gjaldkera. Meðstjórnandi starfar að öllum tilfallandi málum er þurfa þykir með öðrum stjórnarmönnum og tekur sæti í forföllum þeirra eftir ákvörðun stjórnar.
13. grein
Á aðalfundi skal kjósa fulltrúa félagsins í fagráð Miðstöðvar Hönnunar og Arkitektúrs og fulltrúaráð Myndstefs. Þeir eiga að uppfræða stjórn um gang mála hjá MHA og Myndstefi og sitja félags- eða stjórnarfundi ef stjórn telur þörf á því.
V. KAFLI Störf nefnda
14. grein
Allar nefndir starfa sem undirnefndir stjórnar og skulu þær kosnar á aðalfundi ár hvert.
15. grein
Hlutverk nefnda felst í skipulagningu og eftirfylgni þess verkefnis sem þeim er falið í samráði við stjórn. Nefndir eru framkvæmdaaðili en allar ákvarðanir eru háðar samþykki stjórnar.
16. grein
Ritnefnd skal kosin á aðalfundi, skipa hana tveir félagsmenn. Kosið er til eins árs. Hlutverk nefndarinnar er að sjá um heimasíðu félagsins og samfélagsmiðla. Auk almennrar uppfærslu felast störf nefndarinnar líka í að sjá um rafrænan myndabanka félagsins, m.a. með söfnun á ljósmyndum af verkum félagsmanna, sem nefndinni er heimilt að birta á miðlum félagsins, með fullu leyfi þeirra.
17. grein
Sýninganefnd skal kosin á hverju ári á aðlafundi og til vara á félagsfundi, hana skipa þrír félagsmenn.
VII. KAFLI Eignir og reikningshald
18. grein
Félagið á allar eignir sem heild og getur því enginn hvorki meðan hann er félagi eða við brottför úr félaginu gert tilkall til þeirra.
19. grein
Reikningsár félagsins er starfsár stjórnar.